Wednesday, May 13, 2020

Rafmagnsblús – 1. hluti

Í samtímablús dóminerar listform rafmagnsgítarsólósins. Blúslag er tvær mínútur af söng og tólf af gítarsólóum – sumum til mikillar mæðu en öðrum til andlegrar uppljómunar. Ég er sjálfur í einhverri millikategóríu. Ég elska góð gítarsóló meira en margt annað en mér finnst alltof lítið í mörg þeirra lagt. Suma gítarleikara – Angus Young, til dæmis, eða Alvin Lee – get ég horft á núðla stefnulítið á gítarana sína dögum saman alveg dáleiddur, nánast í hugleiðsluástandi. Aðra, Joe Bonamassa eða Eric Gales, þoli ég bara mjög skamma stund. Og ég tek fram að mér finnst Bonamassa mjög sympatískur gaur, ég hef ekkert óþol gagnvart týpunni – hann elskar blúsinn og elskar gítara. Hann er bara of bissí og of smooth. Vantar allt pönk í hann. En ég skil ekki heldur þá sem bara þola ekki gítarsóló – mér finnst það álíka gáfulegt og að þola bara ekki söng. Fólk alltaf eitthvað að góla yfir lagið!

Fyrsta alvöru rafmagnsgítarsólóið í blúsnum lék Floyd Smith árið 1939. Floyd's Guitar Blues er instrúmental og eftir hann en leikið af sveitinni Andy Kirk & His Clouds of Joy. Sólóið byrjar þegar sirka 20 sekúndur eru liðnar af laginu, tekur á flug eftir um það bil mínútu, stendur lagið á enda og er ekki undir litlum áhrifum af Hawaiiískum slidegítar. Floyd var annars aðallega djassgítarleikari – og byrjaði feril sinn á ukulele. Það hljómar kannski undarlega en það er alveg í stíl við svo margt annað í sögu blússins. Hann er alltaf á einhverju rófi og þrífst oft vel þar sem maður á alls ekki von á honum.



Gítarleikarinn T-Bone Walker gaf út nokkur lög á kassagítar 1929 og svo heyrðist ekkert til hans í rúman áratug, ekki fyrren platan Mean Old World kom út 1942. Þá var T-Bone (sem hét Thibeaux að millinafni – T-Bone) búinn að skipta kassagítarnum út fyrir rafmagnsgítar. Við talsverðan fögnuð tónlistarunnenda sem þyrsti í hávaða og læti. T-Bone gefur svo út aðra plötu 1946 og 1947 kemur Call It Stormy Monday (But Tuesday's Just As Bad) – sem er hans allra frægasta lag.



Þessi lög hans T-Bone eru enn frekar djassskotin einsog allur hljómsveitarblús fram til þessa og þótt móta megi fyrir útlínum þess sem fljótlega varð Chicagoblúsinn – fyrsti alvöru rafmagnsblúsinn – þá er hann ekki alveg kominn í ljós. Enda er þetta Los Angelesblús, svona ef við ætlum að fara í landafræðina – og má rifja upp að fyrsti stóri deltablúsgítarleikarinn, Blind Lemon Jefferson, var frá Dallas (einsog T-Bone – sem flutti bara til Los Angeles).

Fleiri byrjuðu að leika þetta eftir þarna undir lok áratugarins. Arthur Crudup gefur út It's Alright, Mama árið 1946 – sem varð auðvitað síðar frægara með Elvis Presley. Í eyrum okkar í dag hljómar það bara einsog rokk og ról en ég held það sé alveg óhætt að fullyrða að árið 1946 hafi þetta verið blúslag – einsog önnur lög Crudups. Stór hluti textans er þá kominn úr Black Snake Moan eftir Blind Lemon Jefferson. Svona tónlist var að vísu stundum kölluð R&B og stundum blús og stundum eitthvað annað og þá ber að hafa í huga að þessi heiti eru ekki síst markaðslegs eðlis – ef þú vilt að eitthvað hljómi einsog nýjasta nýtt þá býrðu til nýja skilgreiningu undir það (frekar en að segja að það sé eðlilegt framhald af þessu gamla). Þannig var Crudup sjaldan kallaður annað en blústónlistarmaður en Big Mama Thornton, sem söng hinn hittarann hans Elvis fyrst – Hound Dog – aldrei kölluð annað en R&B. Sennilega ekki síst bara af því hún var 20 árum yngri en Arthur – hún var bókstaflega nýrri. Þegar lag Crudups var orðið svolítið vinsælt var það svo endurútgefið – sem R&B – 1949. Það er til útgáfa af laginu sem er enn deltablúsaðri – á Spotify – en mér hefur ekki tekist að finna út úr því hvort hún er yngri eða eldri. Þessi hér er allavega sú sem kom út 1946.



Aðrir mikilvægir blúsarar í þessari þróun eru til dæmis Floyd Jones og Johnny Young– sem var einn af mjög fáum mandolínleikurum í blúsheiminum. Þessir menn eiga það flestir sameiginlegt að hafa fæðst í deltunni og flutt til Chicago á fullorðinsárum. Og tónlistarmenn í deltunni lærðu gjarna að hantera allra handa strengjahljóðfæri og kunnu margir eitt og annað á píanó líka – Lonnie Johnson þótti t.d. mjög fínn á bæði píanó og fiðlu, en bara séní á gítar. Mandolínin og ukulelein höfðu mikið af kostum gítarsins en skorti kannski svolítið dýptina og hljómstyrkinn – við verðum að muna að þessi tónlist var á þessum tíma leikin á dansleikjum, ekki tónleikum.

Hér er miklu yngri upptaka af Johnny Young – þetta er tekið upp í París árið 1970 en tónlistin hafði ekki breyst mikið. Þarna eru löng og mikil mandolínsóló og gaman að horfa á hann hantera hljóðfærið – þetta er svo kunnuglegt og samt svo ókunnuglegt.



Það er svo gamall þvottekta deltablúsari, Muddy Waters, sem kemur öllu heim og saman með plötunni I Can't Be Satisfied árið 1948. Þá er hægt að segja að rafmagnsblúsinn sé kominn til að vera og á næstu árum birtast upptökurnar í kippum – Howlin' Wolf, Lightnin' Hopkins, John Lee Hooker, Jimmy Reed, Elmore James, Johnny Guitar Watson og félagar, auk þess sem munnharpan lendir í meira burðarhlutverki á vörum manna eins Little Walter og Sonny Boy Williamson. Aðalstuðið var samt ekki í upptökunum heldur í klúbbum og í leigupartíum (þar sem fólk hélt partí til að eiga fyrir leigunni) og oft var leikið alveg svívirðilega hátt – svo það ýldi í öllum gítörum og surgaði og suðaði. Penu fólki þótti þetta ekki mjög fínt og fræg er sagan af breska tónlistargagnrýnandanum sem flúði inn á klósett á tónleikum Muddy Waters í London – af því hann sagðist ekki geta heyrt í tónlistinni fyrir hávaðanum í salnum. Hann flutti sig fyrst aftar og aftar í salnum en endaði svo þarna á dollunni, í hnipri með pappír og penna. Svo var auðvitað allt fullt af reyk, allir fullir, skakkir og graðir og þetta endaði oft með miklum ósköpum. Það er svolítið fyndið að lesa um það í bók Elijah Wald um Robert Johnson að foreldrar hans hafi ekki viljað að hann, sextán ára gamall, væri að hanga á blúsböllum við fótskör Son house, einsog hann gerði, vegna þess að þar var alltaf verið að skjóta fólk. Það var ekki léttúðin og drykkjan og þaðan af síður sígarettureykurinn. Heldur vegna þess að stundum skutu gestir hver annan. Það má svo auðvitað nefna að foreldrar Roberts reyndust hafa á réttu að standa – Robert var drepinn á balli – og rétt einsog á böllunum sem hann stundaði þarna 11 árum fyrr var öllum skítsama um enn einn dauðann blökkumann og ekkert var rannsakað (fyrren löngu, löngu síðar að það var rannsakað í drep).



Ég held það sé svo ástæða til þess að taka hvern áratug rafmagnsblússins bara fyrir sig. Við byrjum þá næst um miðja síðustu öld.

No comments:

Post a Comment