Thursday, May 7, 2020

Blár í framan

Það eru til tvær ljósmyndir af Robert Johnson. Á annarri þeirra er hann með sígarettu í munnvikinu og myndin var tekin í sjálfvirkum myndaklefa. Hann er í hvítri, einfaldri skyrtu með axlabönd, lyftir upp gítarnum og horfir beint í myndavélina. Gítarinn er sennilega Gibson Kalamazoo KG-14 með capo-i á öðru bandi (margir hafa sagt að þetta capo sé þvottaklemma eða eitthvað álíka skítamix – en fyrir mér lítur þetta bara út einsog alvöru capo og ég skil ekki hvers vegna maður sem átti falleg og dýr hljóðfæri – atvinnutónlistarmaður – ætti að nota þvottaklemmu fyrir capo).

Á hinni er hann í ljósmyndastúdíói, situr uppstilltur og brosandi í teinóttum jakkafötum með stetsonhatt á höfðinu og Gibson L-1 í fanginu. Þetta er sú mynd sem jafnan er notuð á plötuumslög og var sennilega tekin fyrir auglýsingabæklinga á sínum tíma.

Þegar Robert var settur á frímerki í Bandaríkjunum fyrir 26 árum síðan var fyrri myndin valin. Hún passar betur á frímerki – hausinn á honum er stærri – og svo lítur hann meira út einsog týpan sem við ímyndum okkur að deltablúsmaður eigi að vera. Hann er full „dapper“ á seinni myndinni – ekki nógu fátæklegur. Á fyrri myndinni er hann fáklæddur og glansandi af svita einsog hann sé nýkominn inn úr sjóðheitri Mississippisólinni. En af því að það var komið árið 1994 og við farin að hafa áhyggjur af því hvernig myndmál gæti spillt æskunni, hvernig þræðirnir í menningu okkar gætu viðhaldið allra handa ósiðum, var ákveðið að fjarlægja sígarettuna af myndinni (sem er máluð eftir ljósmyndinni). Þá er hún reyndar líka minnkuð – gítarinn er færður nær höfðinu og það sem meira er, hann er látinn skipta um grip!

Sígarettur drepa náttúrulega, einsog kórónavírusinn og umferðin, og dauðinn er óásættanlegur – sígarettan var orðin það sem kölski var Robert Johnson á sínum tíma, merki um óheilnæmi hans. En í stað þess að hafna honum – einsog samtíminn gerði við marga blúsarana (svart fólk hlustaði meira á gospel í kirkjum) – voru þessi óþægindi bara fjarlægð. Robert Johnson var kannski reykingamaður en það var óþarfi að vera að flíka því eitthvað. En hér má líka hafa í huga að Robert Johnson „samdi“ þessa ljósmynd sjálfur – hann valdi að hafa sígarettuna með og hún er tákn um eitthvað, hún er ekki út í loftið, og ef við lítum á ljósmyndina sem sjálfstætt listaverk (sem mér finnst sjálfsagt) er þetta kannski ekki bara smávægileg sögufölsun til að vernda áhrifagjörn börn frá nikotíndjöflinum heldur skemmdarverk.



Ég rifja þetta auðvitað upp í tilefni af nýjustu fréttum um að Borgarleikhúsið hafi á svipaðan hátt fjarlægt sígarettuna úr munnviki Bubba – sem er okkar helsti blúsmaður, þótt hann sé líka margt fleira  – á auglýsingaplakati fyrir sýninguna 9 líf.



Þetta er auðvitað fyrir löngu orðin standard praxís. Við lifum í samfélagi þar sem yfirborðið á að vera dauðhreinsað og sprittað. Sjálfur sakna ég alltaf skítsins – það er kannski eitthvað estetískt, kannski eitthvað pólitískt og sannarlega eitthvað sem einkenndi tilurð blússins. Ofsinn og ástríðan – líka þegar þau voru óþægileg og boðskapurinn á auðvitað oft alls ekkert erindi í dag (ég var að hlusta á KK-Blús í vikunni og þar tekur hann Honey, Hush eftir Big Joe Turner – sem fjallar um konu sem hlustar aldrei og röflar bara og röflar viðstöðulaust – en íslenski textinn, eftir Braga Valdimar, fjallar um mann sem biður konu sína að tala nú endilega við sig og segja sér hvað sé að).

Bubbi er auðvitað löngu hættur að reykja og ekki lengur „fallinn“ heldur. Við lásum saman í Hörpu fyrir nokkrum árum og þá var ég að fara út að reykja (sem ég geri af og til þegar ég er stemmdur en ekki dags daglega) og þá las hann mér pistilinn fyrir ósiðinn. Sennilega hefði ungi Bubbi skellihlegið að þessum eldri Bubba – einsog Robert Johnson hefði líklegast drepist úr hlátri ef einhver hefði sagt honum frá þessu frímerki. Bæði því að hann myndi sjálfur enda á frímerki og því að sígarettureykingar á mynd þættu slíkt stórvandamál að það þyrfti að leiðrétta.

No comments:

Post a Comment