Monday, May 11, 2020

Konur með gítara

Þótt Blind Lemon Jefferson hafi verið með einkabílstjóra er ekki þar með sagt að klisjan um blúsgítarleikarann sem þvælist milli bæja aftan í lestarvögnum – ridin' the rails eða riding the blind – til þess að leika á götuhornum eða í partíum fyrir smápeninga og landa sé ósönn. Ein helsta ástæðan fyrir vinsældum gítarsins í blústónlist er meðfærileiki hans. Þú gast tekið með þér gítar aftur í lest og þú gast sofið með hann undir höfðinu og þú gast gengið með hann á bakinu. Og á hann var hægt að leika bæði hljóma og einleik – annað en á flest ef ekki öll önnur hljóðfæri sem þú gast borið með þér.

Þetta var hart og hættulegt líf fyrir hvern sem er og sérstaklega fyrir konur. Þótt þær hafi verið áberandi í stærri hljómsveitum og vaudeville-farandsýningum, þar sem stór hópur fólks ferðaðist saman og fólk hafði vernd hvert af öðru, voru þær miklu færri í þessum annars fjölmenna hópi fátækra sólótónlistarmanna eða „böskera“ og þær sem stunduðu lífernið voru oft með vændi sem aukabúgrein.

Geeshie Wiley og Elvie (eða L.V.) Thomas eru með fyrstu kvengítarleikurum blússins. Þær tóku upp lög sín árið 1930 fyrir Paramount útgáfuna – þar af tvo klassíkera. Geeshie syngur Last Kind Word Blues og Elvie Motherless Child Blues (það er til enn frægara lag með sama titli – sem meðal annars Eric Clapton hefur leikið í seinni tíð). Þær eru ekki beinlínis hljómsveit en styðja hver aðra – Elvie spilar í Geeshie-lögunum og Geeshie spilar í Elvie-lögunum en þetta eru samt aðskildar útgáfur.





Það er fátt vitað um þessar konur og bara tíu plötur lifðu af þessa útgáfu. Geeshie hefur mögulega átt í alls kyns karlavandræðum um ævina – kannski drepið einn þeirra og ekki er óhugsandi að hún hafi gifst einum manni annarrar gítarhetju frá þessum tíma, Memphis Minnie. Enn minna er hægt að bollaleggja um Elvie en því hefur verið haldið fram að hún hafi verið lesbía – það var talsvert um samkynhneigðar konur í blúsnum, Ethel Waters, Ma Rainey, Alberta Hunter og fleiri voru a.m.k. ekki svo streit að þær væru þráðbeinar, öðru nær, en hugsanlega af og til við karl kenndar líka. Hugmyndin um Elviu og Geeshie sem ráfandi lesbíur með gítar á bakinu og skammbyssu í buxnastrengnum er bæði rómantísk og lífsseig – en ég held það sé fátt sem styður það annað en óáreiðanlegar sögusagnir um fólk sem var kannski eitthvað allt annað fólk. Elvie, eða einhver sem var kannski Elvie, skaut reyndar upp kollinum löngu síðar sem virðuleg heimilisfrú og meðlimur í gospelkór.

***

Memphis Minnie var stórstjarna. En hún var líka götubarn. Flúði að heiman 13 ára, spilaði á götuhornum í Memphis og stundaði vændi. Upp úr því fékk hún vinnu við að spila blús í sirkus. Seinna spilaði hún mikið og ferðaðist með öðrum eiginmanni sínum, Kansas Joe McCoy (fyrri maðurinn, Casey Bill Weldon, var líka blúsgítarleikari og sá sem hugsanlega giftist Geeshie Wiley seinna). Sagan segir að sami hljómplötubjúrókratinn hafi skírt þau Kansas Joe og Memphis Minnie. Þau sömdu saman lagið When the Levee Breaks sem er frægast í flutningi Led Zeppelin og Minniear er getið sem textahöfundar á plötu þeirra (enda lagið mikið breytt – en ég veit ekki til þess að það komi neins staðar fram að hún hafi samið textann ein, þau eru bara skráð fyrir lagi og texta saman). Og það er Joe sem syngur – en Minnie á gítarplokkið, Joe strömmar bara (pun!).




Hér má svo heyra Minnie syngja eitt af sínum frægustu lögum. Bumble Bee frá 1930. Seinna á ferlinum tók hún líka upp talsvert af poppaðri blús – svo sem Kissing in the Dark.




Elizabeth Cotten var barnfóstra og heimilishjálp á seinna heimili Charles Seegers – en á því fyrra ólst Pete Seeger upp. Seeger fjölskyldan var, einsog Cotten fjölskyldan, mikil músíkfjölskylda og Elizabeth lék mikið og samdi tónlist þegar hún var barn en hætti því svo í fleiri áratugi. Það var  ekki fyrren fyrir tilstuðlan Seeger-fjölskyldunnar að hún tók gítarinn aftur upp og rifjaði upp lög sín og samdi ný. Frægast af lögum hennar er Freight Train sem hún samdi sem barn og er því eldra en nokkur upptekinn blús – frá því um aldamótin – og hefur verið leikið og útsett af nærri öllum gítarplokkurum sem hafa viljað teljast gítarplokkarar með gítarplokkurum. Það er eiginlega lyginni líkast að þetta skuli vera gömul kelling að spila – og það lag eftir litla stelpu.





***

Odetta var þjóðlaga- og mótmælasöngvari og gítarleikari – kannski meira blússkotin en beinlínis blúsari. Waterboy er gamalt þjóðlag sem var upprunalega vinnulag á baðmullarekrunum. Hún hafði gríðarlega mikil áhrif á þjóðlagasöngvara sjötta og sjöunda áratugarins, ekki síst Dylan.



***

Systir Rosetta Tharpe er líka ekki beinlínis blúsari heldur gospeltónlistarmaður – en þetta eru ekki alveg hreinar grensur alltaf heldur. Og sum lög Rosettu eru hreinir blúsar. Oft er líka það eina sem skilur gospelið frá blúsnum það hvort boðskapurinn er góður eða vondur. Blúsinn fjallar um hið veraldlega og hið holdlega, breyskleikana og svikin, án þess að biðjast afsökunar á þeim – og sögumenn eru ekki alltaf mjög sympatískir – en það er hreinni siðferðistónn í gospelinu. Sem þýðir ekki að tónlistin sé ómþýðari – eða að blúsarnir séu allir ómstríðir.

Systur Rosettu Tharpe er líka oft kennt um að hafa fundið upp rokktónlistina og hún átti sannarlega sinn þátt í því. Ekki síst fyrir gítarleikinn, vel að merkja, því Rosetta var farin að spila á yfirkeyrðum lampamagnara – þ.e.a.s. með „overdrive“ – langt á undan flestum.

 

***

Og þá erum við eiginlega komin inn í nútímann. Merkilegt nokk er einsog komi svolítið bakslag í blús kvenna á sama tíma og það verður ofsaleg sprenging hjá körlunum – svona upp úr 1960. Strákarnir fara allir að spila einsog Clapton (eða bítlarnir) og stelpurnar einsog Joan Baez. Þær hætta ekki að spila á gítar og hætta ekki að vera góðar en þær hætta kannski að sýna sig í hljóðfæraleik – verða penni gítarleikarar og sýna sig meira með röddinni. Eða ég veit það ekki. Kannski er ég að missa af einhverju. Oftast snýst þetta líka um eftirspurn plötufyrirtækjanna – það er alltaf ýmislegt sem gerist í skuggunum sem maður sér ekki.

Bonnie Raitt gefur svo út fyrstu sólóplötu sína 1970 og ég held það séu fáir kvengítararleikarar í seinni tíð sem hafa ekki litið til hennar sem fyrirmyndar – jafnvel fólk sem er ekkert í blús. Hún er ofsalega fær slidegítarleikari – geldur svolítið fyrir að eiga mikið af smellum sínum á níunda áratugnum þegar próduksjónin eyðilagði allt sem hún gat – en lög hennar frá áttunda áratugnum eru mörg hver alger dásemd. Útgáfa hennar af Walking Blues eftir Son House er geggjuð (og þúsund sinnum betri en gelda útgáfan hans Eric Clapton sem allir þekkja).


Þá er Love me Like a Man frá 1972 líka æði, ekki síst textinn – og er eitt tveggja blúslaga sem kemur við sögu í Brúnni yfir Tangagötuna (hitt er auðvitað Dead Shrimp Blues).

 

 ***

 Hér eru svo nokkrar yngri sem gefa má gaum.

Debbie Davies - sem lék meðal annars með Maggie Mayall & The Cadillacs (Maggie er eiginkona hins fræga Johns Mayall úr John Mayall & the Blues Breakers – þetta var kvennaband og þær gáfu aldrei út plötu en eru pínu legend, sennilega þrátt fyrir og vegna þess að þær gáfu aldrei út plötu).



Deborah Coleman lést úr bronkítis og lungnabólgu fyrir tveimur árum, 52 ára gömul. Hún gaf út 8 breiðskífur, fyrstu 1995. Hún spilar löng og tilfinningaþrungin gítarsóló af nýja skólanum – og er með allra bestu sólóistum. Hvorki of smekklaus (halló Bonamassa!) eða of passasöm og pen. Almennilegt gítarrúnk er mikil jafnvægislist.



Rory Block hefur ekki síst getið sér nafn fyrir að spila lög eftir deltablúsara. Fyrsta platan hennar var gamlir blúsar sem hún tók upp með Stefan Grossman – þá var hvorugt þeirra frægt og platan var endurútgefin seinna. Hún kynntist Grossman þegar hún var fjórtán ára (og hann átján) og skömmu eftir tvítugt tóku þau þessa plötu upp sem kennsluefni – Grossman er ekki síst þekktur sem kennari og fræðimaður í deltablús. Síðustu árin hefur hún gefið út plötur með lögum Bukka White, Bessie Smith, Skip James, Son House og fleirum. Hér er Crossroads Blues eftir Robert Johnson í hennar útgáfu.



Sue Foley – hún var að vinna Koko Taylor verðlaunin, nánast í þessum orðum töluðum (eða s.s. í síðustu viku). Það eru sem sagt grammy-verðlaun veitt í minningu Koko Taylor – það var engin athöfn nema bara á netinu út af kórónaveirunni. Foley hefur gefið út fimmtán plötur – þá fyrstu 1989.



Það liggur við að það mætti bara kynna alla blústónlistarmenn til leiks með sinni útgáfu af Walking Blues. Joanna Connor verður alltaf viral reglulega – einsog Sister Rosetta Tharpe – sennilega af því það er svo mikill ofsi í henni. Hún er næst ofsalegasti gítarleikari samtímans (á eftir Christone Kingfish Ingram – hann er kurteisari en það lemur enginn gítarinn jafn fast og hann þegar hann tekur í. En Joanna kemst nálægt því.



Susan Tedeschi er þekktust úr Tedeschi Trucks Band þar sem hún leikur ásamt eiginmanni sínum, slidegítarhetjunni Derek Trucks. Ég er enginn ægilegur aðdáandi sólólagasmíða hennar (og finnst sveitin ekki eiga nema nokkur góð lög) en hún er skemmtilegur gítarleikari fyrir því.




***

Bónusefni: Tvær sem eru ekki aðallega blúsgítarleikarar en leika hér blús:

Mimi Fox er djassgítarleikari. Og ég veit ekki hversu langt ég má ganga með að kalla þetta lag blús – þótt strúktúrinn sé þannig og það heiti blús er þetta nú eiginlega meiri blússkotinn djass – en Mimi er frábær.



Poison Ivy er sækóbillígítaristinn í hljómsveitinni The Cramps. Þau eiga nokkur blúslög – þetta er ekki það sísta af þeim.

No comments:

Post a Comment