Wednesday, May 6, 2020

Blúsmenn

Mér finnst ólíklegt að ég haldi mig við einhverja línulega frásögn hérna þótt mig langi aðeins að dvelja lengur við á þriðja áratugi tuttugustu aldarinnar – upphafsárum blússins.

Diddleybogar eru heimalagaðir gítarar með einum streng –
stundum voru þeir ekkert nema strengur fastur við vegg og oft
var leikið á þá með vasahníf. 
Þegar líða tók á áratuginn fóru sólóblúsararnir að verða meira og meira áberandi og stóru böndin með konur í fararbroddi tóku að víkja. Fyrstu stórstjörnurnar í þeirra hópi voru sennilega Blind Willie Johnson, Blind Lemon Jefferson, Blind Blake og Blind Willie McTell. Konurnar hétu sem sagt Smith að eftirnafni (Bessie, Clara, Mamie) og kallarnir Blind hitt og þetta. Það er gömul saga og ný þetta með blinduna – og heltina og allt hitt, sem forskeyti blúsmanna – og er kannski hálft í hvoru fyndið svona hundrað árum seinna. En staðreyndin er sú að það geisuðu alls kyns ömurlegar pestir – mislingar, skarlattsótt, heilahimnubólga – og fleira sem gátu rænt fólk sjóninni. Stundum var heimabrenndu áfengi um að kenna og stundum vinnuslysum – og oft þjakaði þetta meira þá sem gátu ekki farið til læknis vegna fátæktar og vegna rasisma. Blint barn var byrði á fjölskyldu sinni og blindur maður var það að flestu leyti líka. Blindir gátu hins vegar leikið tónlist og tónlistarmenn gátu fengið borgað – ekki mikið, en eitthvað – og því urðu margir af þessum blindu Mississippibúum blúsmenn af hreinni nauðsyn. Barn sem komst ekki út að vinna fékk kannski í hendurnar einhvers konar heimatilbúið hljóðfæri – diddleyboga eða álíka – til þess að skemmta heimilismönnum þegar þeir kæmu heim af akrinum með það fyrir augum að þegar fram liðu stundir gæti barnið a.m.k. séð fyrir sjálfu sér, þótt það sæi seint fyrir öðrum líka.

Frægastur allra þeirra – og þótt sjáandi blúsmenn væru taldir með – var áreiðanlega Blind Lemon Jefferson. Hann tók upp sín fyrstu lög 1923 og var þar með einn af fyrstu tónlistarmönnunum til að syngja og spila á gítar frumsamið efni einn og óstuddur. Þessi lög voru gefin út undir öðru nafni og það var ekki fyrren þremur árum seinna að hann gaf út smáskífu með Long Lonesome Blues og Got the Blues sem seldist í meira en 100.000 eintökum. Ári síðar tók hann svo upp sitt frægasta lag – See That My Grave is Kept Clean – sem er þvottekta blússtandard og hefur verið leikinn af öllum frá Bob Dylan til Laibach.

 

Blind Lemon var áreiðanlega féflettur einsog aðrir á þessum tíma en hann komst nú samt í töluverðar álnir og þegar hún kemur upp í huga manns klisjan um deltablúsmanninn sem nagar strá og hoppar upp í lestir og sefur á götunni ætti maður að muna að Blind Lemon, sá fyrsti stóri, var með einkabílstjóra og átti fallegan bíl.

Það einkennir flesta þessa tónlistarmenn að þeir eru tæknilega færir hljóðfæraleikarar með sterkar raddir. Þeir spila oft taktfastan djúpan bassa – þrammandi takt sem hægt er að dansa við – og laglínur eða skraut tveimur eða jafnvel þremur áttundum ofar.

Og þótt væru mikið að læra að spila hver af öðrum og lékju lög hvers annars þvers og kruss (og rændu lögum hver af öðrum – sem enduðu reyndar oft í „höfundarrétti“ einhvers hvíts pródúsents) ræður margbreytileikinn ríkjum og það kennir margra grasa sem væru ekki öll kölluð „blúsar“ ef þau kæmu út í dag. Einsog ég nefndi síðast var Lonnie Johnson eiginlega djassgítarleikari og hreinlega fann upp djasssólóið einsog við þekkjum það enn í dag. Josh White var kannski sálartónlistarmaður. Son House hálfgerður pönkari. Þá voru menn einsog Missisippi John Hurt einhvers konar americana eða folk eða ragtime – en samtímis hreinræktaðir deltablúsmenn. Ég veit ekki hvort þessi box skipta einhverju máli en mér finnst sjálfum áhugavert að velta því fyrir mér hvað það er sem við köllum blús, ekki síst í dag, og hvað það er sem við köllum ekki blús, þegar element úr blúsnum eru nánast í allri tónlist en hugmynd okkar um blús afskaplega, afskaplega þröng.



Árið 1928 gáfu Tampa Red og Georgia Tom út lagið It's Tight Like That sem var ofsalegur smellur – og einsog gerðist oft á þessum var það margsinnis tekið upp næstu árin á eftir og þar af er vinsælasta útgáfan alveg áreiðanlega sú frá 1929 með Clöru Smith. Þetta var nú ekki fyrsti dónablúsinn – hokum – en vinsældir hans ullu sprengingu næstu árin og jafnvel áratugina.



Stór hluti þessara tónlistarmanna, einsog Tampa Red, voru líka harkarar og sessjónlistamenn – þvældust um og tóku upp og spiluðu í ýmsu föruneyti, ofan í að semja lög og útsetja þjóðlagablúsa. Frægasta lag Tampa Red er einmitt slík útsetning – It Hurts Me Too sem Big Bill Broonzy, Elmore James, Junior Wells og Eric Clapton áttu eftir að leika síðar. Annar þvottekta standard.

En þetta voru auðvitað ekki allt gítarleikarar. Píanóið var erfiðara hljóðfæri að eiga við – bæði ber maður það ekki svo auðveldlega með sér milli tónleikastaða eða hlammar sér með það á næsta götuhorn og svo ræður það ekki við míkrótónana sem einkenna blúsinn, það er ekki hægt að teygja strengina. En hljómur þess hentar engu að síður ágætlega og fáir gerðu sér meiri mat úr því en Leroy Carr – sem hér má heyra spila sinn frægasta smell (og þvottekta standard!) How Long, How Long Blues (með Scrapper Blackwell á gítar).



Það var mikið af tónlistarmönnum í deltunni og meðal þeirra þótti ekkert flottara en að hafa tekið eitthvað upp. Það var alltaf slangur af útsendurum frá stóru blúsplötufyrirtækjunum á sveimi en fljótlega fór líka að bera á þjóðfræðingum eins Alan Lomax og hans mönnum frá The Library of Congress, sem voru að dokumentera eins mikið og þeir gátu. Það var ekki bara að sumir þessara tónlistarmanna hefðu aldrei verið teknir upp öðruvísi síðar heldur uppgötvuðust líka margir upp úr þessu starfi. En það voru ekki allir bara frægir fyrir að taka upp plötu og svonefndur „faðir deltablússins“, Charley Patton, var ekki minna frægur fyrir líflega sviðsframkomu sína. Annað en flestir samtímamanna hans þá bókaði Patton tónleika – frekar en að birtast bara hér og þar með gítarinn og biðja um að fá að spila, eða stilla sér upp á götuhornum eða annars staðar þar sem finna mátti fólk. Svo lék hann öllum illum látum – hélt á gítarnum fyrir aftan haus, henti sér í gólfið og gólaði og spilaði með tönnunum. Patton kenndi síðan Howlin' Wolf allar þessar hundakúnstir og Wolf bar þær svo áfram í Hendrix og Townshend og Angus Young. Annað sem gerði Patton sérstaklega sterkan á svelli í tónleikabransanum var hvað hann kunni mikið af ólíkum lögum – það var sagt að hann gæti spilað nokkurn veginn hvað sem er og hvaða stíl sem er.

Þótt menn fái stundum óþarflega mikla þráhyggju fyrir því er líka eitthvað táknrænt við að Patton var nánast örugglega ekki bara af afrísk-amerískum ættum, heldur er talið víst að hann hafi auk þess verið af bæði evrópskum og indíánaættum – og ekkert mjög langt aftur. Í laginu hér að neðan syngur hann meðal annars um að hafa farið – einsog margir blökkumenn af indíánaættum – og reynt að gera tilkall til jarða á verndarsvæðum Cherokee-indíána í Illinois. Þetta lag er líka grunnurinn að Canned Heat laginu Going Up The Country. Spilamennskan er svo alveg dásamleg – hann slær einhvern veginn gítarinn á máta sem Bukka White gerði líka síðar, eða eitthvað svipað, notar hann einsog eins konar trommu.

 

Eitt þeirra hljóðfæra sem kemur upp í hugann þegar talað er um deltablús er munnharpan. En í sannleika sagt er ekki nær jafn mikið leikið á munnhörpu í deltablúsnum og margir ímynda sér, ekki þarna á fyrstu árunum a.m.k., þótt hún hermi ágætlega eftir lestarhljóðunum og allt það, sé afar meðfærileg og passi bæði sem sólóhljóðfæri og sem hluti af rytmasveit – og jafnvel sé hægt að leika á hana eina og sér með söng einsog Jaybird Coleman gerði, einn af allra vinsælustu munnhörpuleikurum tímabilsins. Jaybird var raunar svo vinsæll að hann lenti fljótt í vandræðum með að halda utan um allar bókanir sínar og brá á það „skemmtilega skrítna“ ráð að fá klanið til að sjá um þetta fyrir sig. Ekki fjölskyldu sína, eða klanið einsog í „vini sína“ eða gengið sitt – heldur bókstaflega Ku Klux Klanið. (Þetta er ekki djók – ég hef enn ekki fundið neinar nánari útlistanir á þessu en séð þetta bæði í bókum og á intervefnum).

 

Annar blúsmaður sem náði talsverðum vinsældum á þessum tíma var Tommy Johnson. Um Tommy, einsog nafna hans Robert síðar, gekk þrálátur orðrómur þess efnis að hann hefði selt skrattanum sálu sína fyrir hæfileikana. Tommy er líka ein af vísbendingunum um hversu mikil krossvíxlun var í tónlistinni á þessum tíma því söngstíll hans einkennist af frekar merkilegu jóðli (það byrjar um mitt lag) sem er fengið úr köntríjóðli sem var að öðlast vinsældir þá – ekki síst frá bremsumanninum syngjandi, Jimmie Rodgers (sem sjálfur notaðist gjarna við 12 bara blús) og jóðlið auðvitað úr Ölpunum þar á undan:



Röddin hans Tommy minnir annars ekki lítið á söng Alans Wilson úr úr seinnitíma blússveitinni Canned Heat (sem söng Going up the Country og On the Road), sem tók nafn sitt einmitt af þessum blús eftir Tommy Johnson. „Canned Heat“ er annað nafn á útileguspíra sem er notaður til að hita mat – en var, einsog lagið fjallar um, mikið drukkinn líka sér til gamans. Og til að tengja þetta aftur upphafi þessarar færslu þá er ekkert ólíklegt að maður verði blindur af því að drekka canned heat (sem er reyndar „jellied“ svo sennilega étur maður það frekar en maður drekkur).

Crying canned heat, canned heat, mama, sure, Lord, killing me

Merkilegt nokk þá fjallar annað af frægustu lögum Tommys – Cool Drink of Water Blues – sem er jafnvel enn betra líka um að drekka einhvern eitraðan spíra „I asked her for water and she gave me gasoline“ syngur hann þá og jóðlar úr sér sársaukanum einsog andsetinn maður (eða skrattakollur).



Ég get ekki haldið þessu áfram að eilífu. Það hefur enginn tíma til að lesa þetta allt og hlusta á öll þessi lög. En mig langar að enda á einu af mínum eftirlætis lögum, Statesboro Blues með Blind Willie McTell. Ég listaði hann upp hérna sem stórstjörnu í upphafi og það er hann svo sannarlega en var ekki í neinum skilningi meðan hann lifði. McTell var harkari og gekk af og til ágætlega en var langt frá því að slá í gegn. Hann tók hins vegar upp mjög mikið af tónlist og samdi mikið af fallegum lögum sem náðu máli síðar – fyrst þegar blúsendurreisnin hófst á sjötta áratugnum (rétt eftir að hann dó) og síðan þegar Taj Mahal tók upp sína eigin útgáfu af Statesboro Blues 1967, og Allman Brothers bættu um betur og gerðu heimsfræga útgáfu af laginu, undir áhrifum frá Taj Mahal, fjórum árum eftir það. Milljón manns hafa koverað það síðan – og meðal annars Bob Dylan, White Stripes og Ry Cooder hafa flutt önnur lög hans.



 Næst eru það svo blúskonur með gítara!*

 ---

 *Ég lofaði því víst síðast að næst myndi ég taka fyrir dónablúsinn en svo gerði ég það ekkert, svo það er greinilega ekki mikið að marka mig. Robert Johnson á líka 100ogeitthvað ára afmæli á föstudaginn – það gæti komið fyrst. En blúskonur með gítara eru garanterað á leiðinni!

No comments:

Post a Comment