Sunday, December 6, 2020

Drottning, þrír kóngar og og handfylli af jólasveinum – tíu bestu jólablúsarnir

Jólin eru sá tími árs þegar þeim sem á annað borð líður illa, líður verst. Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að það sé nokkuð úrval til af jólablúsum. Þá er auðvitað „jólalagið“ sem konsept líka hækja sem margir grípa til af ýmsum ástæðum – BB King, sem var einn duglegasti tónlistarmaður 20. aldarinnar, mjólkaði þessa kýr vel og vandlega, hún gaf honum ástæðu til að gefa út nýja plötu, halda nýja tónleika, ýta vélinni í gang, gera meiri músík og græða meiri pening. Jólalagið rímar líka vel við eþos fyrstu blúsbylgjunnar, sem var einfaldlega að fagna lífinu, búa til smelli og selja plötur – löngu áður en blúsmenn fóru að standa vörð um tilkall sitt til þess að teljast „ekta“ eða „hreinir“. Þá eru ótaldir þeir sem hafa hent í eitt jólalag í tilraun til þess að endurlífga dauðan feril og/eða borga af húsnæðisláninu – Christmas Present Blues eftir hinn annars stórfenglega Jimmy Reed er eitt slíkt, alveg voðaleg blúsfönkjólasúpa frá 1971, sem verður ekki póstað hér.

Við byrjum þessa jólaþeysireið á drottningu sjálfri – Bessie Smith ætlar að halda jólin með sínu nefi. Jólin færa manni gleði, bjór, vín og dans – og komi dansfélaginn ekki nógu vel fram við mann, er bara að sækja sér nýjan, nóg er til.



Í kjölfar drottningarinnar koma, einsog vera ber, þrír kóngar. Fyrstur til að stíga á svið er Albert – lénsherra Stevie Rays og Gibson V-beri. Ég er satt best að segja ekki alveg viss hvað jólin koma þessu lagi við – en þau eru þarna samt í viðlaginu. Sennilega er það bara árstíminn, en blúsinn er víst samur við sig hvort sem það er ágúst eða desember.
I've got to push on
I got to push on away from here
Oh, you treat me just like I'm a playtoy, darlin'
And Christmas only comes once a year


Næstur kónganna er Blues Boy BB King. Hann hefur sinnt jólunum vel, einsog áður segir, og margt af því er æði smekklaust – svo sem dúett hans með (hinni oft ágætu) Christinu Aguilera. En þetta gerir hann gríðarvel.



Þriðji og síðasti kóngurinn er auðvitað Freddie. Ég vissi ekki af þessu lag fyrren áðan en þetta er strax orðið uppáhalds jólalagið mitt. Úti heyrist í sleðabjöllum og englakórum, en Freddie heyrir ekkert frá ástinni sinni – og situr bara inni einn og grætur.



Frændi BB – deltablúsarinn Bukka White – á líka þetta æði fína lag. Kærastan hans setti engan pakka fyrir hann undir jólatréð og hann skilur bara ekkert hvers vegna.



Chuck Berry er hefðbundnari í sínum jólatextasmíðum – í staðinn fyrir að taka blústexta og strá svolitlum jólum yfir það, hefur hann tekið týpískan jólatexta og stráð svolitlum blúsi yfir það.
If I could only have an hour of this holiday with you
We could sit and rap together, spinning records old and new
Have a little cake and a bit o' coke now and do the things we used to do


Clarence Gatemouth Brown sýnir á sér nýja hlið og er skemmtilega djassaður í jólalagi um að jólin séu ekki bara fyrir mig og þig, heldur fyrir alla.



Orðaleikurinn með að „dresser drawer“ geti bæði þýtt kommóðuskúffa og kvenmannsnærföt er gamalt hokum-grín. Þegar kærastan hans Sonny Boy Williamsonar fer úr húsi og segist hafa skilið gjöfina hans eftir í kommóðunni tekur forvitnin af honum völdin og hann fer að gramsa – með kostulegum afleiðingum sem enda með lögregluafskiptum.



Butterbeans og Susie voru gríndúó í vaudeville hefðinni – og þykir alls ekki fínt, vel að merkja, en lagið er skemmtilegt og listasagan var einsog hún var (þótt ég hefði nú sennilega haft lengri fyrirvara á því að pósta svona ef þau hefðu verið hvít). Vaudeville-sýningarnar gengu mest út á skopstælingar og klisjur úr hversdagslífi fólks og þar naut „hjónarifrildið“ gríðarlegra vinsælda. Þetta er svoleiðis lag – jólahjónarifrildi í blúsdúr.



Loks er það annar dúett – hinir æðislegu Leroy Carr (á píano og söng) og Scrapper Blackwell (á gítar). Í grjótinu á jólum:
This food here Santa, it ain't fit to eat
This food here Santa, it ain't fit to eat
Won't you come and bring me a plate of turkey meat
In jail on Christmas Day again, ain't that a pain
Oh baby, baby, baby ain't that a pain

No comments:

Post a Comment