Friday, June 26, 2020

Tónleikar og tómleikar og tilfinningar

Blúsbloggið vendir kvæði sínu í kross – sem er reyndar mikið tekið stílbragð í blús – og lætur blússöguna vera í dag og er þess í stað á persónulegu nótunum. En það er reyndar líka mikið tekið stílbragð í blús.

Þannig er mál með vexti að blúsbloggarinn ætlar að spila á tónleikum seint í júlímánuði. Ég – því það er ég sem er blúsbloggarinn, ég sem er fyrstupersónumaðurinn og þriðjupersónumaðurinn – hef ekki spilað á „alvöru“ tónleikum síðan ég tók tvö lög með Hallvarði Ásgeirssyni á minningartónleikum um Johnny Cash í Þjóðleikhúskjallaranum 2003. Og eiginlega eru það einu tónleikarnir sem ég hef sungið á um ævina og ég söng bara annað lagið. Á þessum tónleikum, sem verða haldnir í litlu rými á stór-Ísafjarðarsvæðinu, mun ég að öllum líkindum leika 4-5 lög sjálfur og svo tvo dúetta með Skúla mennska frænda mínum sem svo tekur við með 4-5 lög til viðbótar. Eða kannski tek ég 4-5, svo hann 4-5 og svo við 2-3 saman. Þetta hefur ekki verið rætt. Dúettarnir er eitt mál en mér er farið að vaxa mjög í augum að standa einn á sviði (sem er að vísu ekkert svið, bara horn í bókabúð).

Reyndar, þegar ég skrifa þetta, sé ég að þetta á ekki að vera neitt mál. Ég þarf bara að anda með nefinu. Þegar ég bað Skúla um ráð við stressi stakk hann upp á reglulegri hreyfingu og fjallgöngum. Þegar ég spurði hvort Muddy Waters hefði stundað fjallgöngur gaf hann mjög sterkt í skyn að Muddy hefði hugsanlega notið aðstoðar fíkniefna. Ekki veit ég hvað Howlin' Wolf gerði – sennilega naut hann sín bara á sviðinu, því annars var hann mikill taugaveiklunarsjúklingur og var meðal annars sendur heim úr hernum í stríðinu vegna viðstöðulítilla hysteríukasta. Sennilega þættu honum áhyggjur mínar hlægilegar. En ég er að hugsa um að taka þetta til mín með göngutúrana.

Í grunninn er þetta blanda af einhverjum mótsagnakenndum tilfinningum. Ég er afslappaður vegna þess að ég finn ekki til neinnar þarfar til að vera tónlistarmaður og þarf þess vegna ekki að sanna mig neitt. Hins vegar ber ég auðvitað ábyrgð á því að vera ekki að kalla til fólk til að hlusta á mig ef ég er ekki æfður og a.m.k. bærilega spilandi. Ég þarf ekki að sigra heiminn en mig langar ekki að gera mig að fífli. Og svo er ég stressaður því einu sinni ætlaði ég að verða tónlistarmaður og sá 15 ára strákur er ennþá í mér einhvers staðar – þessum nærri 42 ára gamla manni sem er sennilega að þessu í einhverju súrrandi midlife-crisis.

Ég veit líka að sjálfsmat manns er alltaf einhvers konar undarlegur bræðingur á ofmati og vanmati. Og fyrst og fremst treysti ég því kannski bara ekki neitt að ég sé dómbær á það sjálfur hvort ég eigi erindi upp á svið (eða s.s. út í horn). En ég hef líka haft sterkan tendens til þess að eltast við það sem mér finnst óþægilegt, alveg frá því ég var krakki – ég réð mig t.d. upprunalega á sambýli upp úr tvítugu vegna þess að mér fannst óþægilegt að umgangast mikið fatlað fólk og ég vissi að ég vildi ekki fara í gegnum lífið þannig. Ekki að það sé sambærilegt annars – það þarf enginn að geta spilað tónlist til að vera ekki dikk.

Og það verður eiginlega bara að hafa það ef þetta reynist ekki mönnum bjóðandi.

Ég gekk í tónlistarskóla í sennilega 7-8 ár. Ég er ekki alveg viss. Ég byrjaði tíu ára og hætti einhvern tíma á menntaskólaárunum.  Og á tónlistarskólaárunum þurfti maður að fara upp á svið tvisvar á ári og spila. Oftast spilaði ég reyndar með einhverjum öðrum og síðan á menntaskólaárunum lék ég í nokkrum hljómsveitum sem áttu það sameiginlegt að æfa meira og minna aldrei og búa mest bara til hávaða. Og svo hætti ég bara við að verða tónlistarmaður (mig minnir að ég hafi bara horfst í augu við að ég hefði ekki næga hæfileika – styrkleikar mínir væru annars staðar – en í því er líka einhver sorg). Í nokkur ár eftir menntaskóla dró ég með mér kassagítar allt sem ég fór, bara til að glamra, og notaði hann meira að segja nokkrum sinnum til að eiga fyrir mat þegar ég bjó í Berlín – spilaði á neðanjarðarlestarstöðvum, aðallega frumsamið efni sem er meira og minna löngu gleymt (fyrir utan þetta). En þá var ég löngu byrjaður að skrifa af alvöru og gítarinn var meira bara einsog að eiga síma í dag – eitthvað til að hafa í höndunum þegar manni leiddist (þegar maður var ekki að safna fyrir kebab og kindl).

Fyrir fjórum árum keypti ég mér svo aftur alvöru gítar (Héðinn, ódýri Yamaha-gítarinn minn sem ég hef alltaf átt, hefur mikið tilfinningalegt gildi en eiginlega ekkert annars). Það var Epiphone SG. Og fyrir tveimur árum fékk ég Gibson SG í afmælisgjöf frá Nödju og þá keypti ég mér líka alvöru magnara og síðan hefur gítörunum fjölgað nokkuð – ég smíðaði tvo rafmagnsgítara, seldi Epiphoninn fyrir Telecaster sem ég seldi síðan fyrir Stratocaster, keypti mér ódýran parlour gítar sem ég skildi eftir í Hondúras og keypti svo aðeins fínni (en alls ekki dýran) Alvarez Delta parlour gítar. Það er með honum sem ég syng mest og það var þegar ég kom til Hondúras sem ég ákvað að fara að gera eitthvað í því að ég gæti ekki (get ekki) sungið. Því maður á að geta lært allt, eða þannig. Í vetur eignaðist ég síðan líka Harley Benton resonator-gítar (það sem margir kalla dobro).

Svo gerist það  í vetur að Eyþór Jóvinsson, eigandi gömlu bókabúðarinnar á Flateyri, kemur að máli við mig og spyr hvort ég sé ekki til í eitthvað „sprell“ í búðinni í sumar. Hann ætli að vera með talsverða dagskrá. Ég segi auðvitað jújú, nýbúinn að gefa út bók, og alltaf til í sprell. Þegar hann hefur svo samband við aftur mig í byrjun mánaðarins til að útfæra þetta nánar finnst mér alltof langt síðan bókin kom út og einhvern veginn egósentrískt eða skrítið að fara að kalla fólk út á upplestur – bara á mig í dagskrá sem þarf að taka hátt í klukkustund. Það nennir enginn að hlusta á einn höfund lesa í meira en fimmtán mínútur og undantekning ef slík uppákoma er ekki misheppnuð. Svo ég þarf að láta mér detta eitthvað skemmtilegra í hug. Og af því ég er að fara að flytja hafði ég engan tíma til þess að setja upp neina dagskrá heldur – gera eitthvað nýtt frá grunni – og það hefði ekki nýst mér annars staðar heldur af sömu sökum. Og þá bara datt ég niður á þessa uppástungu – ég kann nokkur lög, fæ Skúla frænda með mér, og þá erum við með dagskrá sem hvorki of stutt né grútleiðinleg. Sem bæði Skúli og Eyþór tóku vel í og þá er ég bara fastur. Það er talsverð huggun í að hafa Skúla með sér – við spiluðum fullt saman í gamla daga, erum góðir vinir og hann hefur bæði róandi nærveru og mikinn reynslubrunn að miðla úr. Svo er líka bara alltaf gott að hafa makker. Á móti kemur að samanburðurinn er mér aldrei í hag – en það er svo sem enginn að búast við því heldur.

Mikill tími hefur farið í það hingað til að reyna að ákveða hvaða lög ég vil taka. Ég kann nokkur lög en man texta illa (þarf að laga það) og vegna þess að ég er vanur að spila bara heima í stofu er nánast inngróið í mig að byrja bara aftur ef ég geri mistök – sem er auðvitað alveg bannað á tónleikum, þá heldur maður bara áfram, finnur aftur leiðina inn í lagið. Í möppunni minni eru kannski 30 lög. Sum þeirra syng ég nokkuð verr en ég syng önnur og þau afskrifast þess vegna. T.d. Dead Shrimp Blues. Það er alltílagi að ég rauli þau heima áfram en þau eiga ekki erindi við aðra. Önnur hefur mér bara aldrei tekist að spila almennilega í gegn með söng og spili – t.d. Last Kind Words eftir Geeshie Wiley. Enn önnur hef ég bara nánast ekkert æft – þau bara enduðu í möppunni af því þau voru á dagskrá, einsog Lasse Liten Blues eftir Cornelis Vreeswijk. Og svo þykir mér misvænt um þau.


Á endanum tókst mér að stytta listann yfir lögin sem mig langar að spila einn niður í (dúettana ákveðum við Skúli í sameiningu):

Walking Blues – eftir Son House (en eiginlega Robert Johnson lag – útgáfan mín er hræringur)
Statesboro Blues – Blind Willie McTell
Soul of a Man – Blind Willie Johnson
Death Letter – Son House
Hard Time Killing Floor Blues – Skip James
How Long How Long Blues – Leroy Carr / Scrapper Blackwell
St. James Infirmary – óþekktur höfundur en mín útgáfa minnir mest á mikið einfaldaða útgáfu af útsetningu Josh White (ég strömma – hann er með geggjað spilerí en líka band á bakvið sig til að halda þessu saman).

Þetta eru ekki fjögur lög samt og jafnvel þótt ég kæmist upp með fimm eru þau heldur ekki fimm. Heldur sjö. Sennilega dettur Death Letter út næst. Og svo Hard Time Killing Floor Blues. En ég veit það ekki, þetta rokkar til og frá. St. James Infirmary er auðveldast að spila – það þekkja það líka flestir. En þar með er það líka mesta „trúbadoralagið“ – sem er ekki galli við réttar aðstæður en á kannski ekki heima á „tónleikum“. Walking Blues kann ég best. Mér var hælt fyrir að syngja Soul of a Man. Mér finnst gaman að syngja Statesboro Blues og gaman að spila How Long How Long Blues. En bæði eru krefjandi. Hard Time Killing Floor Blues er eitthvert fallegasta lag sem ég veit og ég kemst alveg í gegnum það en það er bara ekki jafn fallegt og það getur orðið og því kannski alltaf vonbrigði. Mér finnst Death Letter geggjað og mér finnst ég alveg komast upp með að spila það en það er mjög sloppí gamaldags delta-blús pönk og ég veit ekki hvort fólk hefur smekk fyrir því – og það er hætt við að maður virki klaufalega þegar maður spilar það einmitt af því það er sloppí. Þar kemur hégóminn inn í. Þið eruð kannski tveir-þriðju vatn en ég er tveir-þriðju hégómi.

Monday, June 22, 2020

Blúsvakningin

Ég veit ekki hvað maður gerir með hina svonefndu blues revivalista. Ég veit ekki einu sinni hvernig er best að íslenska hugtakið. Blúsvakning – jújú – en blúsvökumenn? Er það gjaldgengt? Of karllægt – þetta voru held ég 99,99% karlar. Eða strákar, eiginlega. Látum það allavega heita gjaldgengt í þessari færslu. Vakning og vaka er ekki alveg sami hluturinn en blúsvakningamenn er bara ekki jafn hljómfagurt. Hvað um það! Það þarf ekki allt að vera svona flókið! Áfram með smjörið!

Það er ekki alltaf alveg ljóst hvað fólk á við þegar það talar um blúsvakninguna. Maður gæti átt við fyrstu hvítu blúsarana – Bob Dylan, John Mayall, Clapton, Led Zeppelin og Stones. Maður gæti átt við starf þjóðfræðinga á borð við feðgana John og Alan Lomax – sjálfa dokumenteringuna – eða tónlistarmógúla einsog John Hammond. Og maður gæti verið – einsog ég, og sennilega flestir sem nota hugtakið – að tala um blúsnördin sem spruttu upp beggja vegna Atlantsála eftir stríð og byggðu með sér fámennt en kraftmikið samfélag hvers blómatími er sennilega svona 1959-1965, en varð til í lok seinni heimsstyrjaldar og stendur enn í dag. Kjarninn í þessu samfélagi á gullöld þess er mjög fámennur – örfáir tugir dedikeraðra þráhyggjusjúklinga – og eina ástæðan fyrir því að nokkur skriður kemst á þennan köntríblús er samsláttur þeirra við aðra og stærri hópa.

Á fyrra skeiði sínu, fyrir innreið hippismans, er blúsvakningin einsog hliðarhobbí við djassplötusöfnun – margir blúsvökumanna segja frá því í viðtalsbókinni Pioneers of the Blues Revival eftir Steven Cushing að þeir hafi fengið að hirða blúsplötur úr söfnum djassgeggjara, sem stóð meira og minna á sama um þessar plötur en enduðu stundum með þær í höndunum þegar þeir voru að kaupa söfn í heilu lagi. Ég veit ekki hvort þeir gerðu einsog blúsvökumenn sem keyrðu stundum um í hverfum svartra og kölluðu út um gluggann að þeir vildu kaupa plötur – eða bönkuðu upp á og spurðu hvort það væru til nokkrar gamlar plötur. En það var í öllu falli talsvert meiri vinna að safna plötum á þessum tíma en það er í dag.


Á seinna skeiðinu fara þeir svo í samflot með folk revival hreyfingunni. Þá eru þeir ekki lengur bara að safna plötum heldur farnir að safna lifandi fólki – leita uppi svarta blústónlistarmenn og koma þeim inn á folk-hátíðirnar og hippa/bítnikkakaffihúsin. Stór hluti af starfinu fram til þess tíma er fræðilegt grúsk – bæði að safna plötum en líka að grafa upp skjöl og myndir og taka viðtöl. Þá er mikið lagt upp úr því að gera almennilegar útgáfuskrár – komast að því hvað hafði verið tekið upp, hverjir léku í hvaða lögum og hvað væri til og hvað væri týnt. En þarna snemma á sjöunda áratugnum – ég tala um hippa en þetta er eiginlega forhippismi – er farið að gera nýjar upptökur, nýja tónleika og tónlistin og tónlistarmennirnir eru ekki lengur bara einhver forsöguleg abstraksjón heldur lifandi. Það er svo skrítið að þeir nefna það margir að hafa skyndilega bara „fattað“ að tónlistarmennirnir gætu verið á lífi. Einhvern veginn hafði það varla hvarflað að þeim af viti – en þetta eru bara þrjátíu ár. Ef við berum það saman við daginn í dag væri kannski hægt að segja að jújú, Kurt Cobain sé dáinn og Chris Cornell líka, en Dave Grohl er enn að túra heiminn og ég held að Zach de La Rocha sé enn á lífi, þótt maður heyri sjaldan frá honum. Þeir eru að vísu flestir aðeins eldri – Son House og Skip James eru báðir 62 þegar þeir finnast (meðalgruggrokkarinn er fimmtugur 2020) og lífaldur skemmri, ekki síst fyrir svarta menn í deltunni.

Ein ástæða þess að ég veit ekki hvað ég á að gera við blúsvökumennina er að allt þeirra ótrúlega mikilvæga starf orkar svo mikið tvímælis – þeir eru stundum mjög rænulausir í ákafa sínum og ástríðu. Á aðra höndina björguðu þeir ótrúlegum verðmætum frá gleymsku án þess að græða mikið á því sjálfir, ef nördastig eru frátalin. Á hina höndina eru þeir hvítir gestir í landi þessarar svörtu alþýðutónlistar og leggja á hana sitt eigið gildismat sem stýrir fagurfræði blússins æ síðan. Ef þeirra hefði ekki notið við væru sennilega flestar upptökur manna einsog Son House og Skip James og Mississippi John Hurt týndar og tröllum gefnar og enginn þeirra hefði öðlast nýjan feril á sjöunda áratugnum – og við ættum þar með engar nýrri upptökur af verkum þeirra. Fyrir blúsáhugamann er það einsog að týna hómerskviðum eða píramídunum. En ef þau hefðu glatast væri áherslan kannski bara meiri á Gilgamesh og Mayahofin.Það er auðvitað ómögulegt að segja hvert landslagið hefði verið án þessarar tónlistar. Þegar Stones drógu Howlin' Wolf með sér í unglingaþáttinn Shindig! í Bandaríkjunum – þeir gerðu það að skilyrði fyrir sínu giggi að annað hvort Muddy eða Howlin' Wolf fengi að fljóta með – var nýbúið að finna Son House í Rochester, og einhvern veginn var honum smyglað inn í stúdíóið til að hitta Howlin' Wolf. Brian Jones missti kúlið og féll á hnén við fótskör Wolfs; og þegar Son House birtist – sem enginn hafði séð í meira en tvo áratugi – missti Wolf kúlið og féll á hnén við fótskör House. Wolf varð reyndar síðar mjög fúll út í House að hafa leyft sér að breytast í byttu – það er klippa á YouTube þar sem Wolf les sínum gamla lærimeistara lexíuna. Brian Jones hafði óljósa hugmynd um tilvist House en þekkti tónlistina ekki að ráði – hann fékk hana í gegnum Wolf. Svo er spurning hvort það sé nóg. Dylan sagði einhvern tíma að munurinn á sér og Donovan væri sá að Donovan hefði aldrei orðið fyrir áhrifum af neinum öðrum en Dylan – „he only got me, he never got what I got“ og átti þar við tónlistarsöguna þar á undan, að Dylan hefði mótast af fleiri kynslóðum tónlistarmanna, en Donovan bara byrjað á top of the folk-pops 1963.Hugsanlega væru hugmyndir okkar um uppruna blússins litaðri af mönnum einsog Leroy Carr, Big Bill og Josh White, ef blúsvökumanna hefði ekki notið við – en það er tónlist sem er erfiðara að sjá í verkum Muddys og Wolfs. Þar skortir þráð. Wolf fær sitt frá Charley Patton (og við hans hlið var alltaf Son House) og Stones fá sitt frá Wolf – og við myndum bara þekkja Son House af orðsporinu. Carr, Bill og White voru allt vinsælir tónlistarmenn og höfðu sennilega meiri áhrif í dægurlagaheiminum og á folk-tónlistarmenn – þetta segi ég þeim ekki til hnjóðs, ég elska tónlist þeirra allra, en þetta er hreyfing í aðra átt. White var beinlínis einn af allra vinsælustu tónlistarmönnum Bandaríkjanna á fyrri hluta aldarinnar og að hann skuli jafn gleymdur og raun ber vitni er sennilega bæði vegna McCarthyismans sem bannfærði hann fyrir stjórnmálaskoðanir hans og svo blúsvökumennina sem höfðu ekki áhuga á þessari fágun og færðu fókusinn yfir á „listrænni“ og/eða harðari blúsara.

Þegar maður vill gera lítið úr blúsvökumönnum lætur maður einsog þeir hafi verið miklir forréttindapésar sem hafi haft svarta tónlistarmenn að féþúfu. Fyrir því er hægt að týna til ýmis rök en það gengur eiginlega ekki upp nema maður sé góður í kirsuberjatínslu – því þótt maður geti til dæmis bent á að sennilega hafi umboðsmenn Mississippi John Hurt haft hann að féþúfu var það undantekning hjá þeim – og regla annars í tónlistarbransanum; og þótt maður geti bent á að einhverjir blúsvökumannanna hafi verið úr efri millistétt þá var það líka undantekning. Flestir þeirra virðast hafa notið liftarhafts síns (og kyns), og þótt það sé sannarlega ekki ekki-neitt, nutu þeir ekki endilega annarra forréttinda í lífinu og blúsáhuginn virðist hafa kostað þá miklu, miklu meira en þeir græddu á honum.

Þeir ferðuðust ekki bara þvert yfir Bandaríkin til að finna einhverja blúsmenn til að tala við – stundum komu þeir alla leiðina yfir hafið frá Bretlandi og eyddu í það nærri aleigunni. Og áður en það var auðvelt að fjölfalda upptökur fóru enskir blúsvökumenn til Parísar – aftur á skóþvengsfjárlögum – af því það fréttist að þar byggi maður sem ætti tveggja-laga Charley Patton plötu sem þeir höfðu aldrei heyrt. Þeir sem höfðu það skást eru sennilega þeir sem fóru menntaveginn með þessu og gerðust einhvers konar akademíkerar (ekki í neinum blúsfræðum vel að merkja, það var ekki mikið í boði í þeim efnum). Alla jafna eru þetta líka mjög ungir menn, rétt skriðnir yfir tvítugt – og alveg sama hvort maður er þá að spá í helstu leikendum 1949 eða 1961. Þeir heitustu halda áfram alla ævi en það kvarnast hratt úr hópunum eftir því sem þeir eldast og nýir taka við. Þeir sem halda áfram virðast líka margir hafa hrist af sér fjölskyldu eftir fjölskyldu í þráhyggjunni – ýmist fyrir að eyða öllum tekjum sínum í plötur eða fyrir að leiðast út í almenna óreglu (með jafnöldrum úr vakningunni og/eða eldri blúsurum).

Flestir þeirra sem taka þátt í þessu eru sjálfir tónlistarmenn í þeim skilningi að þeir spila á hljóðfæri, en fáir þeirra höfðu það nokkurn tíma að atvinnu. Einhverjir þeirra léku svo alls ekki blús og vildu ekki gera það – litu einfaldlega á blúsinn sem alþýðutónlist svartra og ekki viðeigandi að þeir væru að spila hann sjálfir. Þrjár meiriháttar undantekningar eru á þessu – Al Wilson, John Fahey og Henry Vestine. Al Wilson fór ekki með að finna Son House en það var bara vegna þess að hann komst ekki og hann var lykilmaður í að hjálpa Son House að komast aftur í form og hýsti gjarna bæði Son House og Skip James þegar þeir voru á ferðinni. Fahey fann Bukka White (með því að senda póstkort til „Bukka White / Old Blues Singer / Aberdeen Missisippi / c/o General Delivery“ – eftir að hafa heyrt Aberdeen Mississippi Blues). Fahey og Vestine fundu Skip James. Fahey átti farsælan sólóferil en Vestine og Wilson stofnuðu síðar Canned Heat (sem er nefnd eftir gömlu Tommy Johnson lagi).Hér spilar Canned Heat á Woodstock. Henry Vestine hætti í hljómsveitinni vikunni áður. Lagið virðist vera einhvers konar útgáfa af I Believe I'll Make A Change sem bæði Leroy Carr og Josh White gerðu frægt en var samið af bræðrunum Pinetop og Lindberg.

Ég vil svo skilja þetta að mestu frá spurningunni um frumleika og þjófnað í blúsnum – þótt Canned Heat menn hafi verið í hvorutveggja. Einsog blúsvakning nördanna er sá heimur félagslega og pólitískt problematískur – og einsog með hann finnst mér að langflestu leyti ósanngjarnt að fárast bara yfir honum fyrir það, en af öðrum ástæðum. Veröldin er margslungin og maður vildi oft að hlutirnir gerðust ekki nákvæmlega einsog þeir gerðust – ekkert svo með öllu gott að ekki boði líka einhverja helvítis vitleysu. Afstaða mín til blúsvökumanna – dómsorð þessarar færslu – er að þeir hafi unnið stórfenglegt og óeigingjarnt starf og þótt mikilvægt sé að skilja annmarka þess og vankanta sé fullkomið virðingarleysi að gera lítið úr því.

Wednesday, June 10, 2020

Riðið á vaðið: Bjúgnablús og sítrónusorgir

Það er sól og blíða og við ætlum að spila svolítið hokum og dónablús. Á þessu tvennu er sennilega ekki æðislegur munur, a.m.k. hefur mér ekki tekist að finna hann, þótt blúsfræðingar séu margir á því að þetta séu auðsjáanlega tvær mjög ólíkar kategóríur tónlistar. Til hægðarauka hef ég stillt því þannig upp í höfðinu á mér að hokumblús sé þegar augljóslega er sungið um kynlíf eða annað transgressíft efni en notuð um það önnur orð – svo sem einsog í Warm My Weiner eftir Bo Carter – en dónablús sé þegar maður yrkir einsog The Clovers gerðu árið 1953:
Cocksucking Sammy get your motherfucking mammy
We're going downtown to the cocksucker's ball
Fuck, suck and fight till the beginning of broad daylightÉg skal nú reyndar ekki rífast við neinn sem segir að þetta sé ekki propper blús – þetta er doo-wop – sennilega neyðist ég til að hafa einhvern svona formála í hverri einustu færslu. Blúsinn er víða, það er blús í næstum öllu – mismikill. En þetta er s.s. í blúsfjölskyldunni. Clovers eru frægastir fyrir ljúfari smell – Love Potion no. 9.

Svo eru auðvitað ótal mörg lög sem fara einhvern milliveg og erfiðara að flokka í hokum eða dónablús. Blúsarnir eru fæstir svona ofsalega grófir og beita talsverðri íþrótt til þess að sleppa því að segja hlutina hreint út. Bo Carter, sem var nefndur hér áðan, átti talsvert af svona lögum þar sem hann skipti út einhverju kynlífsnafnorði fyrir annað nafnorð – Let Me Roll Your Lemon, Banana In Your Fruit Basket, Pussy Cat Blues og svo framvegis – en annars voru það konurnar sem áttu bestu og frægustu lögin. Sennilega er einhver allra frægasti hokumblús lagið Need A Little Sugar in My Bowl sem Bessie Smith tók upp árið 1931 en Nina Simone gerði ódauðlegt (og breytti need í want) árið 1967. Af því allir hafa heyrt það með Ninu hlustum við á Bessie.Nina droppar líka pylsulíkingunni úr laginu – Bessie syngur „I need a little hot dog in my roll“. Einsog gefur að skilja úir og grúir af pylsulíkingum í hokum. Svo eru sítrónurnar líka mikið teknar, Robert Johnson syngur um „dauðu rækjurnar“ sínar í getuleysisblús, Lil Johnson (sem söng eiginlega bara hokum) syngur um kjötbollur og pylsur og fleira, Maggie Harris spyr hvort enginn vilji prófa kálið sitt (?!!), kisur koma ítrekað við sögu og Lightning Hopkins syngur um púðluhunda, Blind Boy Fuller syngur um hunangsholuna, margir syngja um snáka (ekki síst svarta snáka) og Wynonie Harris mælir með því að maður strokki þar til smjörið kemur:Mikið af kvennablúsnum tekur fyrir karlmennskuna – hvort nokkuð gagn sé af karlinum og er það nokkuð upp og ofan, einsog gengur. Ida Cox syngur að hún sé „One Hour Mama“ og þoli illa einhverja „one minute papas“.


I don't want no lame excuses
'Bout my lovin' bein' so good
That you couldn't wait no longer
Now I hope I'm understood
I'm a one hour mama
So no one minute papa
Ain't the kind of man for me
Áður en yfir lýkur er hún reyndar farin að hóta því að þessi ósköp geti vel teygst upp í tvær eða þrjár klukkustundir, eiginlega sé hún bara rétt að komast í stuð eftir fyrsta tímann.

Alberta Hunter hins vegar þarf ekki að auglýsa eftir neinum manni af því hún á svo góðan. Þetta er líka extraskemmtilegt af því Alberta er ekki 25 ára og löngu hætt að roðna.


Now he threads my needle,
And he creams my wheat,
Heats my heater,
And he chops my meat, he's a mess,
My man, is such a handy man
Now I don't care if you believe it or not,
He's a mighty nice man to have around,
Svo er það Dinah Washington sem fer á stúfana að finna trombónuleikarann „with that big long slidin' thing“ og Julia Lee sem á sinn „king size papa“ („he's a real super-daddy and he knows just what to do“) og Lilla Mae Kirkman var að kynnast manni sem er akkúrat passlega stór („I met a man last night, he was just my size / I've taken him home with me to bake my cakes and pies“). Sumar lenda í vandræðum – Barrel House Annie biður: „If it don't fit don't force it / cause you'll make your mama mad“ og Tampa Red og félagar – og raunar svo haugur af konum á eftir þeim – syngja svo um hvað ástandið sé nú stundum þröngt:


Uncle Bill came home
'Bout half-past-ten
Put the key in the hole but he couldn't get in
Oh, it's tight like that
Beep-um-bum-bum
Oh, It's tight like that
Beedle-um-bum
Ya hear me talkin' to ya
I mean it's tight like that
Me and my brother
Was up in the loft
We's seein' Uncle Bill when he broke it off
Y'know, it's tight like that
Memphis Minnie, sem hafði meðal annars lifibrauð sitt af vændi, a.m.k. á tímabili, söng síðan (og samdi, held ég) lagið Tricks Ain't Walking No More.


I'm going to learn these walking tricks what it's all about
I'm going to get them in my house and ain't going to let them out
Because tricks ain't walking, tricks ain't walking no more
Tricks ain't walking, tricks ain't walking no more
And I can't make no money, I don't care where I go
Ég veit ekki hvort það er víðáttuvitlaus lestur – en þótt lagið fjalli fyrst og fremst um að það skorti kúnna í kreppunni – þá finnst mér líka í því vera fólgin hótun um að gera vissa tegund af kúnna ófæran um gang.

Loks, áður en ég skil við ykkur í dag, vil ég koma að einu uppáhaldslagi. Þetta er Lucille Bogan sem er fantafín söngkona og hefur notið alltof lítillar athygli – kannski einmitt vegna þess að umfjöllunarefni laga hennar eru jafnan í grófari kantinum. Frægustu lögin hennar eru þetta hér að neðan, Shave Em Dry II, sem er grófari útgáfa af lagi með Ma Rainey, og Tricks Ain't Walking, en annars syngur hún líka mikið um fyllerí og ofbeldi. Og ég hef enn ekki spilað þetta lag fyrir neinn sem grípur ekki fyrir munninn og segir að þetta sé svolítið smekklaust. En í grunninn fjallar það auðvitað bara um að ríða – það er ekkert ljótt í því annað en dónaorðin. Og söngurinn er engu líkur.

****

AUKAEFNI

Hlekkur á Spotify-lista með öllum þessum lögum og fleirum til – meira að segja nokkrum nýrri.

Thursday, June 4, 2020

Blá líf og svört: Blús og pólitík

Fátækt á þriðja og fjórða áratugnum. Seinni heimsstyrjöldin. Víetnam. Katrina. Blúsinn er kannski alltaf í grunninn pólitísk tónlist, einsog Angela Davis hefur viljað meina – tónlist frelsunar og félagslegrar pólitíkur hins persónulega – en hann einblínir samt fyrst og fremst á reynslu einstaklingsins og er sjaldan narratífur og hentar því illa í dæmisögur eða breiðar samfélagslýsingar eða mótmælasöng. Blúsinn fjallar ekki um það þegar allir vöknuðu kvenmannslausir í kulda og trekki, hann fjallar um það þegar ÉG vaknaði kvenmannslaus í kulda og trekki. En það eru samt tímabil hér og þar og einstakir listamenn sem voru og eru pólitískir.

Einsog stundum fyrir þessar færslur gerði ég langan spilunarlista með helstu „pólitísku blúsunum“ og síðan raðaði ég lögunum eftir ártali til þess að fá einhvers konar yfirsýn yfir þróunina. Það sem blasti við voru fjórar kveikjur – kreppan, stríðið, Víetnam og Katrina. Auðvitað væri hægt að gera lista með einu lagi frá hverju ári ef maður vildi skoða þróun pólitíska blússins sem slíks en þá myndi maður missa af lægðunum, svo að segja.

Það er líka áhugavert að fátæktarlögin á fyrsta tímabilinu byrja áður en kreppan skellur á. Nobody Knows You When You're Down and Out er auðvitað þekkt og fjallar um fallvaltleika ríkidæmisins – ekki beinlínis neitt kommalag, þótt það sé frábært – og kemur út rétt fyrir hrunið 1929. En heilu ári fyrr gefur Bessie út Poor Man's Blues þar sem fátæka konan snýr sér að ríka manninum og ákallar hann:
While you livin' in your mansion
You don't know what hard time means
While you livin' in your mansion
You don't know what hard time means
Oh, workin' man's wife is starvin'
Your wife is livin' like a queen

Sem er náttúrulega áminning um að þrátt fyrir allt grobbið og glitsið í kringum blúsinn á hinum hvínandi þriðja áratug fyrir kreppu var lítill jöfnuður meðal manna og bara fámenn klíka sem Jay Gatsby lífsstílnum. Ríkidæmið í kringum þær týpur er í sjálfu sér stundum lofsungið, en það undirstrikar líka óréttlætið að þeir sem fljóta upp úr fátæktinni inn í millistéttir, efri-millistéttir og hástéttir er allt hvítt fólk. Þá undirstrikar ríkidæmið líka bara hið almenna óréttlæti kapítalismans, að sumir eigi fullt og aðrir fátt.

Söngkonur einsog Bessie virðast líka hafa lagt sig eftir því að syngja pólitísk lög allan þriðja áratuginn – í blábyrjun ferils síns, 1923, syngur hún til dæmis hið feminíska Sam Jones Blues. Þegar ódámurinn sem hefur farið illa með hana birtist við dyrnar syngur hún:
I used to be your lawful mate
But the judge done changed my fate
Was a time you could-a' walked right in
And call this place your home sweet home
But now it's all mine, for all time
I'm free and livin' all alone
Don't need your clothes, don't need your rent
Don't need your ones and twos
Though I ain't rich, I know my stitch
I earned my strutting shoes
Say, hand me the key that unlocks my front door
Because that bell don't read Sam Jones no more, no
You ain't talkin' to Mrs. Jones
You speakin' to Miss Wilson now
Það eru ekki endilega fleiri örbirgðarblúsar eftir kreppu en fyrir – gítarblúsararnir sem tóku við af hinum fjölmennu og glitrandi vaudeville-sveitum voru vissulega fátækir og lifðu í kulda og trekki en þeir lifa líka til hliðar við hið breiða samfélag manna og litu ekki á sig sem málsvara eins eða neins, nema í besta falli dansgólfsins og lífsnautnanna (sem voru aðallega landi og konur). En þeir voru samt nokkrir og þar á meðal sá allra fallegasti blús sem ég hef nokkurn tíma heyrt og ég hef líklega deilt hér tvisvar nú þegar með höfundinum, Skip James, og kominn tími til að fá kover. Þetta er Buddy Guy á plötu frá 2004.

Þá er ekki síður áhugavert að þótt kveikjurnar séu þarna á tilteknum tímabilum þá er ekki þar með sagt að öll lögin séu bara alltaf um Víetnam og kreppuna og stríðið og Katrínu – heldur er meira einsog þjóðfélagsstemningin kalli á tiltekna afstöðu til lífsins, að annað óréttlæti verði líka ljósara. Big Bill Broonzy semur t.d. When Will I Be Called a Man árið 1928 (en það kemur ekki út í hans útgáfu fyrren 55), sem fjallar um kynþáttahatur, og Billie Holiday gefur út Strange Fruit árið 1939 (með talsverðum erfiðismunum eftir að Colombia hafnar því), sem fjallar um aftökur á svörtum mönnum. Á árunum í kringum stríðið syngur Lead Belly Bourgeois Blues, Take This Hammer og Jim Crow Blues – ekkert þeirra fjallar um stríðið en svo á hann auðvitað líka Mr. Hitler. 


En Lead Belly var gjarnan pólitískur og það voru t.d. Josh White og J.B. Lenoir líka, alveg sama hvenær maður kom að þeim. Josh White er sennilega einn af fyrstu alvöru dægurlagasöngvurum vesturlanda sem gerir hreinlega út á að vera pólitískur söngvari. Josh var prestssonur og kommúnisti frá suðrinu sem náði gríðarmiklum vinsældum í Bandaríkjunum og komst meira að segja í gott vinfengi við Roosevelthjónin á stríðsárunum – þau voru guðforeldrar sonar hans og nafna. Síðar syrti í álinn þegar McCarthyisminn hóf innreið sína í bandarískt samfélag og hann dregur sig mikið í hlé. Hann afneitaði kommúnismanum við nefndina, sagðist hafa verið leiddur á villigötur, en neitaði að gefa upp nöfn félaga sinna – sem var helsti gjaldmiðillinn ef maður vildi fá að lifa og starfa áfram óáreittur (í umræðu um svartlistun og „aflýsingu“ er gjarnan látið einsog það sé ekki ritskoðun nema maður hafi helst pappír upp á að maður hafi verið svartlistaður – eða að það eigi enginn frægð sína heldur sé hún forréttindi sem hægt sé að innkalla ef maður reynist ekki í húsum hæfur – bæði er að einhverju leyti satt og helbert kjaftæði, en fyrst og fremst er þetta allt grátt svæði). Í öllu falli hraktist White úr landi til Englands og var þar fram til 1955 – en sama ár kom þetta lag:


Free and Equal Blues er samið löngu fyrr og byggir á hinu fræga St. James Infirmary, sem enginn veit hver samdi, en Josh hafði sjálfur átt stóran smell með árið 1944. En textinn er ólíkt pólitískari – í stað þess að fjalla um mann sem finnur elskuna sína látna á spítala er það um mann sem fer á spítala og spyr lækni hvort blóðplasmi sem hann rekur augun í sé úr svörtum manni eða hvítum og læknirinn fer að útskýra að á slíku sé ekki nokkur munur. Forsendan er einföld og boðskapurinn didaktískur – fyrsta erindið kannski banalt – en svo tekur White á flug og textinn verður miklu brjálaðri (og nánast rappaðri) en í orginalnum:
So I stayed at that St. James Infirmary.
(I couldn"t leave that place, it was too interesting)
But I said to the doctor, "Give me some more of that scientific talk talk," and he did:
He said, "Melt yourself down into a crucible
Pour yourself out into a test tube and what have you got?
Thirty-five hundred cubic feet of gas,
The same for the upper and lower class."
Well, I let that pass . . .
"Carbon, 22 pounds, 10 ounces"
"You mean that goes for princes, dukeses and countses?"
"Whatever you are, that"s what the amounts is:
Carbon, 22 pounds, 10 ounces; iron, 57 grains."
Not enough to keep a man in chains.
"50 ounces of phosophorus, that"s whether you"re poor or prosperous."
"Say buddy, can you spare a match?"
"Sugar, 60 ordinary lumps, free and equal rations for all nations.
Then you take 20 teaspoons of sodium chloride (that"s salt), and you add 38
quarts of H2O (that"s water), mix two ounces of lime, a pinch of chloride of
potash, a drop of magnesium, a bit of sulfur, and a soupֱon of hydrochloric
acid, and you stir it all up, and what are you?"
"You"re a walking drugstore."
"It"s an international, metabolistic cartel."
And that was news, yes that was news,
Þetta sama ár, 1955, birtist svo Muddy Waters og svaraði spurningunni sem Big Bill hafði spurt á tónleikum 1928 (en ekki gefið út fyrren einmitt þetta sama ár líka), hvenær hann yrði kallaður maður, með laginu Mannish Boy. Einsog ég hef nefnt kemur óþolinmæðin með rafmagnsblúsnum – og skal engan undra. Útlegging Muddys var enda sú að hann skildi kallaður maður strax, umyrðalaust, og ekkert kjaftæði. Af því ég er búinn að spila það hérna áður (og allir þekkja það) læt ég nægja að spila stórgóða og afar ólíka útgáfu Jimis Hendrix frá 1967.Hippaárin eru gjöful þegar kemur að pólitískum blúsum. Það syngja næstum allir eitthvað um Víetnamstríðið – JB Lenoir er með Vietnam Blues (1965), John Lee Hooker með I Don't Wanna Go To Vietnam (1968), Champion Jack Dupree með Vietnam Blues (1971), Lightnin' Hopkins með Vietnam Wars Pt. 1 & 2  (1968) og hið frábæra Please Settle in Vietnam ári síðar. Þar harmar Lightning sannarlega stríðið en sér líka ákveðnar jákvæðar hliðar á því, með sínu eigin sérstæða Pollýönnunefi:
My girlfriend got a boyfriend fighting
She don't know when that man coming back home
I said I hope he'll stay forever
Cuz I ain't gonna leave that girl aloneOg svo framvegis og svo framvegis; en það eru líka lög um annan harm og óréttlæti – Nine Simone er með nokkur geggjuð, t.d. Four Women (um örlög fjögurra kvenna) og Backlash Blues (um allra handa óréttlæti, m.a. Víetnam), Mimi og Richard Farina eru með Mainline Prosperity Blues („Well, companion, you'll forgive me / if I seem unwilling to succeed“). Upp úr 1970 er svo að koma þreyta í mannskapinn og árið 1972 koma Little Feat með lagið A Apolitical Blues – sem Van Halen koveruðu á plötunni OU812 (sem er einmitt fyrsta platan sem ég átti á geisladisk og ég fékk að gjöf frá móðurbróður mínum, Tryggva Hübner, sem er heiðursfélagi í Blúsfélagi Íslands og einhver allra besti gítarleikari landsins). Lagið er einsog létt útlegging á forhippískum smelli Bítlanna, Revolution, þar sem Maó formaður hringir í ljóðmælanda en ljóðmælandi bara nennir ekki að tala við hann í dag. Þetta ku versti blús allra blúsa („that's the meanest blues of all“) – að vakna ekki bara kvenmannslaus heldur þreyttur á samfélagsmálunum, algerlega ópólitískur, hugsanlega bara samviskulaus. Í útgáfu Little Feat upplifir maður þetta sem í senn grín og alvöru – það er eitthvað létt og skiljanlegt í því – en Van Halen útgáfan er einhvern veginn kaldari. Einsog Little Feat viti betur en að halda að maður þurfi að nenna Maó (eða Maóistum) til að vera pólitískur – á meðan Van Halen vilji bara skreyta sig með því að vera sama.


Stóru augljósu lægðirnar í pólitískum blúsum sýnast mér vera um miðjan fjórða áratuginn og frá stríðslokum og fram til 1960 – með þeim undantekningum þó að á þeim tíma er JB Lenoir á fullu, Muddy gefur út Mannish Boy og Floyd Jones kemur með verkalýðsblúsinn Stockyard Blues:
Frá því um 1970 og hreinlega fram að fellibylnum Katrínu 2005 er fátt um fína drætti. Auðvitað eru lög – það eru alltaf lög og yfirleitt góð lög – en pólitískur blús er hvorki í tísku né nær hann máli að ráði. Stevie Ray koverar bítlalagið Taxman (með svolítið harðari beiskju), Louisiana Red semur Reagan is for the Rich Man, Sunnyland Slim tekur upp Be Careful How You Vote, Odetta koverar Jim Crow Blues eftir Lead Belly og RL Burnside á kombakk á bakinu á Jon Spencer's Blues Explosion og gefur út hið æææææææææðislega og fullkomlega súrrealíska Tojo told Hitler.Svo kemur 9/11 og fjórum árum síðar fellibylurinn og þá verður sprenging. Otis Taylor kemur með Rosa, Rosa (2002) og Ten Million Slaves (2003), Guitar Shorty er með We, The People (2006), Norman og Nancy Blake eru með Don't Be Afraid of Neo-Cons (2006), Charlie Musselwhite með Black Water (2006), Watermelon Slim er með samnefnt lag ári síðar, BB King koverar Backwater Blues eftir Bessie Smith (sem fjallar um flóðin í Mississippi 1927, sem var algengt þema í blúslögum þá – má líka nefna When the Levee Breaks eftir Memphis Minnie, sem Led Zeppelin gerðu að sínu – en vísar auðvitað í Katrínu og New Orleans þegar BB tekur það), Derek Trucks tekur Band-lagið Down In The Flood (2009), Roy Zimmerman er með Chickenhawk (2006) og svo framvegis.

Yfirsýn mín verður verri eftir því sem nær dregur samtímanum en ég held að botninn hafi svolítið dottið úr þessu upp úr 2010. Ég er ekki með neitt lag frá 2009 til 2018 – þegar Delgrés gefa út hina geðveiku Mo Jodi plötu þar sem meðal annars má finna Mr. President. 2019 gefur Gary Clark jr. (sem er kannski ekki minn tebolli þótt lagið venjist) út This Land. En í þessu grúski rakst ég líka á eitt lag eftir Corey Harris, sem ég hef haldið upp á þótt þetta lag hafi farið framhjá mér. Corey var í stóru hlutverki í fyrstu myndinni í fimm kvikmynda seríu Scorseses um blúsinn, Feel Like Going Home, og ég uppgötvaði hann fyrir 1-2 árum í gegnum kover af God Don't Ever Change eftir Blind Willie Johnson. Nánast í þessum orðum skrifuðum renndi ég yfir lagalistana á síðustu plötum hans – af því ég hef fylgt honum á Twitter og veit hann er pólitískur þótt ég hafi lítið spáð í það í tengslum við lögin (mest hlustað á koverin hans) – og þá bara birtist þetta og ég hlustaði á það og ég get svoleiðis svarið það að mér lá við að fara grenja. Það er greinilega nýbúið að hlaða laginu upp á YouTube en það er tveggja ára gamalt af plötunni Free Water Way.AUKAEFNI:

Listinn – og hlekkur á playlistann á Spotify. Ég hefði getað tiltekið miklu fleiri lög frá bissí árunum – en mjög lítið fleira frá lægðarárunum.

1923 Sam Jones Blues – Bessie Smith
1928 Poor Man's Blues    Bessie Smith
1928 When Will I Be Called a Man – Big Bill Broonzy (tekið upp 1955)
1929 (What Did I Do to Be So) Black and Blue    Louis Armstrong
1930 When the War Was On – Blind Willie Johnson
1931 orginall, 2004 með Buddy – Hard Time Killing Floor   Buddy Guy
1937 Bourgeois Blues    Lead Belly
1939 Strange Fruit    Billie Holiday
1940 Take This Hammer    Lead Belly
1940 Jim Crow Blues    Lead Belly
1941 Southern Exposure    Josh White
1941 Uncle Sam Says – Josh White
1942 Mr. Hitler    Lead Belly
1943 War Song    Buster Brown
1947 Stockyard Blues    Floyd Jones
1951 Black, Brown and White    Big Bill Broonzy (samið 45)
1954 Eisenhower Blues  – J.B. Lenoir
1954 I'm in Korea    J.B. Lenoir
1954 Livin' In The White House    J.B. Lenoir
1955 Free & Equal Blues (samið 40ogeitthvað) – Josh White
1955 Mannish Boy    Muddy Waters
1960 Democrat Man – John Lee Hooker
1963 Red's Dream – Louisiana Red
1965 No Payday Here    J.B. Smith
1965 Vietnam Blues    J.B. Lenoir
1965 Mainline Prosperity Blues    Mimi And Richard Farina
1966 Four Women – Nina Simone
1967 Backlash Blues – Nina Simone
1967 Politician – Cream
1968 Big Boss Man – Jimmy Reed
1968 I Don't Wanna Go To Vietnam    John Lee Hooker
1969 Please Settle in Vietnam    Lightnin' Hopkins
1969 Vietnam T-Bone Walker
1969 Poor Moon - Bonus Track    Canned Heat
1969 Why I Sing the Blues – BB King
1970 This is not a song, it's an outburst: or the establishment blues – Rodriguez
1972 A Apolitical Blues    Little Feat (líka til með Van Halen!)
1983 Reagan is for the Rich Man – Louisiana Red
1986 Taxman – Stevie Ray Vaughan
1989 Be Careful How You Vote – Sunnyland Slim
1996 Tojo Told Hitler    R.L. Burnside
2001 Jim Crow Blues    Odetta
2002 Ten Million Slaves    Otis Taylor
2003 Rosa Rosa – Otis Taylor
2004 The Problem – JJ Cale
2006 Waves Of Grain    Two Gallants
2006 We The People    Guitar Shorty
2006 Don't Be Afraid Of the Neo-Cons    Norman Blake, Nancy Blake
2006 Chickenhawk    Roy Zimmerman
2006 Black Water    Charlie Musselwhite
2007 Bring The Boys Back Home    David Evans
2007 Jesus And Mohammed    Candye Kane
2007 You Don't Really Wanna Know    Charlie Wood
2008 A Time For Peace    Eddy Clearwater
2009 Dubb's Talkin' Barnyard Blues    Doug MacLeod
2009 Down in the Flood – Derek Trucks
2018 Mr President    Delgres
2018 I Can't Breathe – Corey Harris
2019 This Land – Gary Clark Jr.