Thursday, October 8, 2020

Blúsinn og veiran: „You Better Close Your Public Schools“

Um þriðjungur mannkyns mun hafa fengið spænsku veikina á sínum tíma í fjórum bylgjum og á bilinu 17-50 milljónir manns féllu í valinn. Faraldurinn hófst árið 1918 og stóð til 1920, þegar fyrsta blúsbylgjan hófst fyrir alvöru með Crazy Blues með Mamie Smith. Í ljósi þess að blúsinn er í grunninn alþýðutónlist og sem slíkur topikal – þ.e. hann fjallar um það sem er í deiglunni, um örlög starfsmanna á plani og plantekru – þá vekur athygli að tiltölulega fá lög fjalla um þennan ofsalega flensufaraldur. Að vísu dóu þá nokkuð færri í Bandaríkjunum en víða annars staðar – á bilinu 500-850 þúsund manns (miðað við 200 þúsund af Covid þegar þetta er skrifað) eða 0,5-0,8% af heildarmannfjöldanum – en margir veiktust og einn af hverjum 200 er heldur ekki ekki-neitt. 

Eðlilegasta útskýringin held ég að sé sú að fyrsta áratuginn eða svo – áratug blúsdrottninganna svonefndu – var blúsinn alls ekki alltaf harmrænn. Það var meiri áhersla á hedónisma og ákveðið siðleysi – og tónlistin var lækning við bláma sálarinnar, aðferð til þess að reka hina svörtu hunda á brott, frekar en einfaldur harmsöngur. Einsog Ida Cox söng: „Wild women don't worry / wild women don't get no blues“. Þegar að hinir þunglyndari gítaristar mæta á svæðið til að segja sínar sögur er flensan einfaldlega gleymd og grafin undir fargi nýrra harmleikja – Mississippi áin flæðir yfir bakka sína, ofbeldi Jim Crow tímabilsins og Ku Klux Klan er í algleymingi, kreppan er hafin og brauðstritið þrúgandi. Það voru aðrar sögur sem þurfti að segja. 

Önnur útskýring er að blúsinn er gjarn á að fjalla um hið sértæka frekar en hið almenna. Þannig er nóg til af blúslögum um sjúkdóma – Blind Lemon syngur í Pneumonia Blues að hann sé kominn með lungnabólgu af því að standa úti og bíða eftir ástinni sinni sem aldrei kemur; Bukka White syngur í High Fever að hann fari til læknisins til að kvarta undan sótthita en læknirinn segir að hann sé bara ekki nógu duglegur að fá sér knús; Victoria Spivey er vinalaus með berkla í TB Blues; Memphis Minnie er nær dauða af lífi af heilahimnubólgu í Meningitis Blues – en giska fá um faraldra.  

Þriðja útskýring er einfaldlega að gospeltónlistin – sem var gjarna stillt upp sem andstæðu blússins – átti sterkara tilkall til frásagna um veikindi og dauða. Þegar að blústónlistarfólk syngur um almennar flensur og veikindi, feigð og dauðalegu, er það yfirleitt að syngja gospel – með sínu nefi, en samt. Það vill síðan til að þessi togstreita milli blúss og gospels, drottins og syndarinnar, dauðaþrárinnar og lífsnautnarinnar markaði líf margra blústónlistarmanna og þess vegna eigum við lög einsog John the Revelator með Son House (sem predikaði jafnvel milli laga og fyrirvarð sig fyrir að vera annars að spila sína djöfullegu músík):


Lagið John the Revelator er alþýðugospel sem Blind Willie Johnson var fyrstur til að taka upp. Um Blind Willie má það segja að hann er ýmist kallaður blús- eða gospeltónlistarmaður. Mér vitanlega söng hann aldrei um lífsins yndissemdir eða dásamaði syndina – öll hans lög fjalla um dýrð drottins og textarnir eru príma gospel. En hann spilar þau í stíl sem er ekki hægt að kenna við gospel með góðu móti – til þess er of mikið af blúsnótum, of mikill andskoti í röddinni. Ég á ekki við að hann sé ekki gospeltónlistarmaður – bara að hann sé augljóslega ekki ekki blústónlistarmaður líka. Og Blind Willie er þess vegna sá eini sem ég hef getað fundið frá þessu tímabili sem syngur um inflúensufaraldurinn (sem slíkan). 
In the year of 19 and 18, God sent a mighty disease.
It killed many a-thousand, on land and on the seas.
Well, we done told you, our God's done warned you,
Jesus coming soon.
We done told you, our God's done warned you,
Jesus coming soon. 
Great disease was mighty and the people were sick everywhere.
It was an epidemic, it floated through the air.
Well, we done told you, our God's done warned you,
Jesus coming soon.
We done told you, our God's done warned you,
Jesus coming soon. 
The doctors they got troubled and they didn't know what to do.
They gathered themselves together, they called it the Spanishin flu.
Well, we done told you, our God's done warned you,
Jesus coming soon.
We done told you, our God's done warned you,
Jesus coming soon.
 

Seinna í sama lagi koma svo línur sem einhverjum gætu þótt kunnuglegar í dag:
Well, the nobles said to the people, "You better close your public schools."
"Until the events of death has ending, you better close your churches too."
We done told you, our God's done warned you,
Jesus coming soon.
Fyrir þá sem eru hrifnari af Cowboy Junkies er líka til fín útgáfa af þessu lagi með þeim – af plötu þar sem ýmsir samtímamenn okkar votta Blind Willie virðingu sína, þar á meðal Tom Waits, Sinead O'Connor og Lucinda Williams. Blind Willie er raunar tíðrætt um spænsku veikina – og syngur líka um hana í uppáhalds laginu mínu með honum, God Don't Never Change („God in the time of sickness / god and a doctor too / in the time of influenza / he truly was a god to you“). 

Besta inflúensulagið er hins vegar sungið af annars óþekktri söngkonu sem heitir Essie Jenkins. 1919 Influenza Blues. Ég hef verið að reyna að grafast eitthvað fyrir um hver hún var og komist litlu nærri (ég hef meira að segja lagt inn fyrirspurn á twitter til Ted Gioia, sem er einhver ofsalegasti blúsfræðingur samtímans). Lagið er að hluta til eftir hana sjálfa og tekið upp 1962 og gefið út af Arhoolie útgáfunni árið 1965. Essie er sjálf sennilega fædd 1931 og dó þá í ár – 25. febrúar, rétt í upphafi kórónafaraldursins. En þetta eru getgátur. 

Lagið er, einsog mörg blúslög, byggt á eldra lagi sem heitir Memphis Flu frá 1930 og er eftir mann sem kallast Elder David Curry. Lag Currys fjallar hins vegar um seinni flensufaraldur sem gekk yfir árið 1929 – og er nánast samhljóma laginu Influenza sem Ace Johnson söng fyrir þjóðfræðinginn John Lomax 1939. Þegar Essie snýr upp á það fjallar það hins vegar um spænsku veikina 1919. 


It was nineteen hundred and nineteen; 
Men and women were dying, 
With the stuff that the doctor called the flu. 
People were dying everywhere, 
Death was creepin' all through the air, 
And the groans of the rich sure was sad.  

Það er eitt og annað áhugavert að gerast í þessum texta. Eitt af því sem skilur harm flensunnar frá öðrum harmi og dauða á þessari gullöld harmsins er að flensan gerir ekki mannamun – einsog Bjarni Ben benti á erum við öll í sama bátnum (samt ekki, ekki varðandi aðrar afleiðingar – og ég veit ekki hvernig það var þarna 1919 en kórónaveiran leggst harðar og verr á fátækt fólk og jaðrað, af ýmsum ástæðum). Þórðargleðin leynir sér ekki þegar Essie syngur um kvein hinna ríku – loksins mega helvítin þjást með okkur hinum. 

Well it was God's almighty plan, 
He was judging this old land, 
North and south, east and west, 
It can be seen, 
He killed the rich, killed the poor, 
And he's gonna kill some more, 
If you don't turn away from the shame.

En í grunninn er auðvitað leiðinlegt að við séum að drepast svona fyrir tímann og eina leiðin til þess að komast hjá því er að við snúum baki við skammarlegum lífsháttum okkar. Hér bergmálar líka orðræða umhverfisverndarsinna og grænkera frá því í vor – að við getum sjálfum okkur um kennt að éta kjöt (kórónaveiran kemur úr kjötvinnslu) og með henni létti þunganum af móður jörð (við fljúgum minna, keyrum minna o.s.frv.). Allt slæmt sem kemur fyrir okkur er í grunninn afleiðing af gjörðum okkar – við erum sjálf hið vonda í heiminum. 

Þegar ég kópípeistaði textann tók ég eftir að sá sem skrifaði hann upp hafði skrifað „it killed the rich“ o.s.frv. frekar en „he killed the rich“. Það fannst mér áhugaverð misheyrn. Því hjá Essie fer ekkert á mili mála að það er ekki flensan sem drepur okkur – það er Drottinn sem drepur okkur. Flensur don't kill people, God kill people, einsog segir í orðskviðunum. 

Down in Memphis, Tennessee, 
The doctor said it soon would be, 
In a few days influenza would be controlled.
Doctor sure man he got had, 
Sent the doctors all home to bed, 
And the nurses all broke out with the same. 

Það er alveg sama hvað læknarnir rembast. Loforð um sóttvarnir og bóluefni eru til einskis. Dauðinn kemur og sækir hina feigu.  

Influenza is the kind of disease, 
Makes you weak down to your knees, 
Carries a fever everybody surely dreads, 
Packs a pain in every bone, 
In a few days, you are gone. 
To that hole in the ground called your grave.
Og þannig er það nú bara. 

AUKAEFNIInfluenza með Ace Johnson.

Það hafa oft komið upp dellur í blúsnum – í kjölfar TB Blues Victory Spivey hér að ofan komu ótal margir berklablúsar. Það eru nú nokkur ár á milli þessara lungnabólgublúsa Blind Lemons, Big Bill Broonsy og Lightnin' Hopkins, en það hlýtur samt að mega kalla þetta dellu. 

Og auðvitað verður enginn veikur einsog Skip James. Bukka White er ekkert lasinn – hann þarf bara að fá smá ást. 


Hér eru Cowboy Junkies með Blind Willie Johnson lagið sem var hér að ofan líka. 


Memphis Minnie er bókstaflega við dauðans dyr. 


Nú erum við kominn til samtímans. Ágætis kassagítarsblús frá Lane Steinberg. 


Þetta er einhvers konar indí-blús. 


Jonas Alaska er norskur „folk“ tónlistarmaður. Maður þarf ekki að horfa mjög lengi á þetta til að sjá hver hans helsta fyrirmynd er. 


Að lokum er það auðvitað minn maður. Ginsberg er veikur og nær honum ekki upp – sennilega er það slæma karmað eftir að hafa riðið öllum sætu strákunum. 

Friday, September 18, 2020

50 ár frá dauða Jimi

 Það er 18. september 2020 og því liðin slétt 50 ár frá því Jimi Hendrix dó, 27 ára gamall, einsog Robert Johnson, Janis Joplin og allir hinir. Hér eru tvö lög af því tilefni. 

Friday, September 11, 2020

Gatewayplatan: Freakshow með Bulletboys

 Björn Halldórsson rithöfundur spurði á dögunum um „gateway“-plötur twitter-fylgjenda sinna. Spurninguna orðaði hann svona:

Hver var "gateway" platan ykkar? Fyrsta platan sem lét ykkur taka harkalega beygju inn á ókannaðar slóðir á jaðrinum (hvað sem það nú er), þannig að þið áttuð aldrei afturkvæmt á beinu brautina?
Auðvitað eru milljón leiðir til þess að svara þessari spurningu. Sá sem hlustar á tónlist fer eðli málsins samkvæmt upp og niður alls kyns rangala. Fyrsti tónlistarmaðurinn sem ég man eftir því að hafa vitað hvað hét og „haldið upp á“ var Phil Collins – og um svipað leyti Elton John. Svo komu Elvis og rokkplötusafnið hans pabba – Bill Hailey, Buddy Holly, Chuck Berry. Þá er ég svona 7-8 ára líklega. Níu, tíu og ellefu voru Michael Jackson árin (ég var kallaður Eiki Jackson í barnaskóla). Svo kom Iron Maiden sirka 1990.  Unglingsárin hjá mér fóru í Maiden og yfir í annað þungarokk – mest Metallicu, AC/DC og Guns – þaðan í blúsrokk og hipparokk, þaðan í thrash og dauðarokk og úr dauðarokkinu beint í Robert Johnson, Wes Montgomery og Django, úr þeim í Sly Stone og svo George Clinton og fönk, svo í Rage, Public Enemy og Ice-ana T og Cube. Svo kom alltíeinu Waits og hertók allt í mörg ár. Svo Eminem – og með honum Dre og Snoop sem ég hafði lítið hlustað á. Árin þar á eftir – miður þrítugsaldurinn – var mjög skrítinn. Tók meðal annars rispu í „adult contemporary“ – John Cougar Mellencamp og svona. Blúsinn hefur svo smám saman orðið fyrirferðarmeiri á síðustu árum – og á hug minn allan þessi misserin.
  
Þegar ég hafði velt spurningu Björns fyrir mér í smástund mundi ég alltíeinu eftir plötu sem ég heyrði snemma í lífinu og innihélt bæði þvottekta blús og lag eftir Tom Waits. Og leiddi að einhverju leyti inn í þungarokkið líka. Ef það er ekki gateway-drug – njólareykingarnar sem enda í heróínfíkn – veit ég ekki hvað er það. Platan Freakshow með Bulletboys var nýkomin út þegar sveitin mætti á Brjótum ísinn tónleikana sem haldnir voru í Kaplakrika í júní 1991. Ég er þá tólf að verða þrettán og fékk að fara með litla bróður mínum, tíu að verða ellefu. Á tónleikunum léku auk Bulletboys, Quireboys, Slaughter, Artch (norsk þungarokkssveit með Eirík Hauksson í fararbroddi), Thunder og GCD. Poison átti að vera aðalatriðið en þeir beiluðu á síðustu stundu. Ég man ekki í smáatriðum neitt frá tónleikunum, annað en að það var fremur fámennt miðað við pláss – nokkur þúsund manns samt. Svo man ég að einhver gítarleikaranna benti eitthvað út í áhorfendahópinn og við Valur bróðir rifumst um hvorn okkar hann hefði verið að benda á. 

Ég var alveg á barmi þess að vera unglingur sjálfur en ekki orðinn og fannst skrítið að vera innan um mikið af krökkum á mínum aldri (eða aðeins eldri) sem voru augsjáanlega drukkin, reykjandi og í sleik út um allt. Mig langaði mikið í það allt og fannst ég mjög vandræðalega lítill og barnalegur – og með litla bróður í eftirdragi að auki. Svo var líka eitthvað um að unglingsstelpur væru að vippa fram júllunum framan í rokkstjörnurnar á sviðinu og ég hafði ekkert séð mikið af svoleiðis. Í sem stystu máli má segja að maður hafi bæði verið á viðkvæmu mótunarskeiði, á barmi fallsins, og alveg gersamlega upptjúnaður til að taka á móti. 

Marq Torien í vinstra horninu niðri fór fyrir strákunum í Bulletboys (sem voru allir í sama skækjubúningnum). 

Ég man ekki hvort að ég eignaðist plötuna fyrir eða eftir tónleikana en ég á hana (á vínyl) og ég hlustaði mikið á hana þetta árið. Þótt ég kannist við öll lögin þegar ég heyri þau í dag get ég ekki sagt að ég „muni“ nema tvö þeirra og það vill til að það eru einu koverlögin á plötunni, fjórða og fimmta lag á hlið A. Ég hafði vel að merkja ekki hugmynd um að þetta væru koverlög og var ekkert að spá í það. Fyrir mér voru Hang on St. Christopher og Talk To Your Daughter bara Bulletboyslög. Það var enn hátt í áratugur þar til ég færi að hlusta eitthvað á Tom Waits (sem ég kannaðist bara við sem óhugsanlega hásan karl sem írskur kærasti stóru systur minnar hlustaði á) og nærri aldarfjórðungur þangað til ég færi að hlusta eitthvað á J.B. Lenoir. En þetta var áreiðanlega eitthvað gateway – hlið eitthvert út í bláinn. Fyrsta Tom Waits platan sem ég eignaðist var safnplatan Beautiful Maladies, 1998, og fyrsta lagið á henni er einmitt Hang on St. Christopher – sem er vel að merkja hreinn og beinn 12-bara-blús – og ég þekkti það auðvitað strax og ég heyrði það. Bulletboyslagið! 

Ég kynntist Talk To Your Daughter sennilega bara í gegnum útvarpið – það hlýtur að hafa verið Robben Ford útgáfan frá 1988. En þetta er líka eitt af þessum lögum sem maður bara þekkir. Blúsklassíker sem allir hafa koverað. Ég hélt að kannski hefðu Blues Brothers tekið þetta en ég finn það ekki. Ég heyrði ekki orginalinn fyrren eftir að ég fór að hlusta á J.B. Lenoir sem gerðist ekki fyrren ég sá Wim Wenders myndina Soul of a Man. Og hann er ein af þeim síðari tíma uppgötvunum sem ég held mest uppá. Sunday, September 6, 2020

Uncle Doghouse ásamt gestum á Bankiren í Västerås – og tvífari vikunnar!

Í gærkvöldi lék hljómsveitin Uncle Doghouse á knæpunni Bankiren í Västerås. Gestur var gítarleikarinn og söngvarinn Thomas Hultman og upphitun var í höndum ungs deltablúsleikara sem kallar sig Preachin' Lips. Í salnum var meðal annars hinn frægi Kjell Höglund – handhafi Cornelisverðlaunanna – það var klappað sérstaklega fyrir honum en hann var ekki þarna til að skemmta heldur til að láta skemmta sér. Gaman að segja frá því. Gestaþak var 45 manns vegna kórónaveirunnar, allir sátu við sitt borð, miðaverð var 100 SEK (1600 kall – sem er umtalsvert lægra en maður á að venjast), það var matur í boði og þjónað til borðs (ég fékk mér hamborgara, hann var ljúffengur). Hljómsveitin lék tvö sett í gær – hið fyrra var auglýst 17.00 en hið síðara 21.00. Þegar ég keypti miðana, sem ég gerði snemma vegna þess hve fáir voru í boði, var sagt að okkur væri hollast að mæta hálf-fimm til að geta pantað mat og svona. Það reyndist allt fullkominn óþarfi. Tónleikarnir byrjuðu ekki fyrren rúmlega 18.00 og þá vorum við búin að borða. Best hefði verið að mæta bara þá. 

Bankiren er áhugaverður staður. „Sunkig“ er orðið sem ég notaði til að lýsa honum fyrir Nödju (eftir að ég fór til að kaupa miðana, sem maður þurfti að gera í eigin persónu, og helst í reiðufé). Sjabbí, heitir það sennilega á góðri íslensku, en ég meina það í bestu merkingu – staðurinn er líka gamalgróinn. Þetta er í einhverjum skilningi klassísk úthverfaknæpa – svona í áttina að Catalinu í Kópavogi. En hún stendur alveg í hjarta miðbæjarins þar sem er annars ekkert að finna nema hipsterakeðjur og gleraugnaverslanir og H&M og þvíumlíkt. Mér leið strax frekar vel þar inni þegar ég kom að kaupa miðana. Þá voru fáir gestir og flóamarkaður á sviðinu en það var fullt á tónleikunum. Gestir voru sennilega flestir milli fimmtugs og sextugs, góðglatt fólk, sumir svolítið rauðnefja, áreiðanlega fáir úr efri lögum samfélagsins. Ég hugsa að eini maðurinn þarna inni sem var yngri en við Nadja hafi verið Preachin Lips. 


Hann mætti upp á svið með gítarinn í tösku – national resonator – snyrtilega greiddur, klæddur í svartar buxur, blankskó, hvíta flibbalausa skyrtu og gamaldags axlabönd. Og svo lék hann deltablús. Og gerði það ágætlega en aldrei þannig að maður yrði agndofa. Kannski truflaði það mig að það var einsog hann vildi gera þetta átentískt – fara í períóðuleikinn, cosplayið – en þá vantaði bara ýmislegt upp á. Þegar mér fannst passa að melódían nyti sín – einsog í upphafinu á Walkin' Blues – spilaði hann sloppí; og þegar mér fannst að sloppí væri fínt og bítið mæti njóta sín, einsog í Pony Blues, var hann of mikið að eltast við óþarfa krúsídúllur. Hugsanlega hefði hann líka mátt hafa míkrafón við fótinn á sér – maður þarf eiginlega að heyra stappið. En ég vil ekki vera of neikvæður – þetta var mjög skemmtilegt og sannarlega ekki á hverjum degi sem maður fær að heyra deltablús leikinn live. 

Uncle Doghouse með Thomas Hultman. 

Svo komu Uncle Doghouse. Þeir byrjuðu á að taka eitt sett með gítarleikaranum og söngvaranum Thomas Hultman, sem virðist vera af Stevie Ray skólanum – spilar blús með sándi sem sker í gegnum allt (sennilega eitthvað svona tube screamer með miðtíðnina í botni dæmi) og syngur alltaf neðan úr þindinni. Þeir léku fimm lög saman – byrjuðu á Sweet Home Chicago í Chicago-blús útsetningu en með gamla textanum hans Roberts Johnson („to the land of California“) og sungu auðvitað um Västerås frekar en Chicago. Svo Riding With The King eftir John Hiatt í útgáfu BB King og Eric Clapton, man ekki næsta (var það Why I Sing the Blues?), svo Talk to Your Daughter eftir JB Lenoir í Robben Ford útsetningunni og loks Can't Get Enough eftir Bad Company. 

Þá var stutt pása áður en Uncle Doghouse tók til við sitt eigið sett – sem var sennilega 50/50 þeirra eigin lög og annarra. Hljómsveitin samanstendur af söngvaranum Zoltan Todor, gítarleikaranum Conny Klintberg, trommuleikaranum Ragge Johannesen, nýjum bassaleikara sem ég náði ekki hvað hét og orgel- píanó- og munnhörpuleikaranum Håkan Falknäs. Þétt band og vel æft og greinilega mikil vinátta í hópnum – þetta er alveg áreiðanlega gert vegna þess að þetta er gaman. Það vantaði svolítið upp á sándið úti í sal – sérstaklega var óþarflega lágt í gítarnum. Það er landlægur sjúkdómur hjá gítarleikurum að yfirgnæfa annað hvort allt eða passa sig svo rækilega á að vera ekki gaurinn sem yfirgnæfir allt að þeir þora ekki að hækka almennilega í sér. Sem er eiginlega verra í tónlist sem er fyrst og fremst gítardrifin. Þá var meira gaman að heyra í honum leika þegar hann skipti um gítar – lagði frá sér stratocasterinn og tók upp einhvern eins humbucker ZZ Top gítar sem mér sýnist af heimasíðu bandsins að sé sérsmíðaður (allavega bara merktur „Klintberg“). Það var einsog hann fyndi sig betur með hann. Söngvarinn er af Commitments skólanum og fínn sem slíkur – alltaf með slappan handlegginn upp að síðunni à la Joe Cocker. Mikil tilfinning. Sennilega hreifst ég samt mest af bassaleiknum – það var mikið swing í honum – og orgelleiknum hjá Håkan. 

Hljómsveitin er frá Västerås og það voru áreiðanlega margir í salnum sem þekktu frumsömdu lögin þeirra en ég var bara búinn að renna plötunum þeirra einu sinni og dró Nödju með mér á þeirri forsendu að sennilega væri þetta betra live. Ekki að lögin séu léleg en þau eru heldur ekkert spes. Og þegar hálft settið manns er síðan grjótharðir klassíkerar er erfitt að ætlast til þess að manns eigin lög séu mjög eftirminnileg. Áherslan – bæði í frumsömdu og ábreiðum – var á hvítt, seventís blúsrokk. Eftirminnilegast var Thunderbird eftir ZZ Top, sem bassaleikarinn söng, (ég meina það ekki söngvaranum til hnjóðs – lagið er bara svo gott) en þarna voru líka Hush eftir Deep Purple og Rock n' Roll Hoochie Koo með Johnny Winter og álíka titlar. Það hafa verið talsverðar mannabreytingar í bandinu og í þessu myndbandi er nýi söngvarinn kominn, en gamli gítarleikarinn – Ecke, sem mun hafa samið megnið af lögunum – enn í bandinu, sem og gamli bassaleikarinn. 

Ég sagði frá því síðast að sennilega yrði „þrífari vikunnar“ ekki fastur liður á blogginu. Hér eru hins vegar tvífarar vikunnar – Håkan Falknäs og Palli Hauks, sem stýrir Blúshátíðinni á Patreksfirði (og er vinur minn úr Tottenhamklúbbnum). Ætli stefni þá ekki í einfara vikunnar í næstu viku. Hehe. 

Palli og Håkan. 
Monday, August 31, 2020

Hókus Pókusmaðurinn Peps Persson (og þrífarar vikunnar)


Ég var að róta í vínylkassanum í Musikshopen á dögunum og rakst þá á þennan titil. Blues På Svenska með þeim Peps Persson og Slim Notini. Ég hafði aldrei heyrt á þá minnst áður en þessi Peps virkaði svo ótrúlega kunnuglegur samt. Lögin á plötunni eru allt blúsklassíkerar þýddir á sænsku – konseptið ekki svo ólíkt plötunni Blús með KK – pródusentinn er enginn annar en blúsvökumaðurinn Sam Charters, sem bjó áratugum saman í Svíþjóð og var ekki bara sænskur ríkisborgari heldur þess utan einkavinur (og þýðandi) Tomasar Tranströmer. Hef ég nýverið uppgötvað. Platan kostaði bara hundrað sænskar svo ég kippti henni með mér (ásamt einni Best of Freddie King) og skellti mér svo á kaffihús til að vinna svolítið. Dagarnir mínir fara svolítið mikið í að vera á vergangi niðri í bæ að leita mér að eirð og vinnufrið. 

Og þá sló það mig. Peps minnti mig svona mikið á annan íslenskan blúsmann – Tómas Ævar, sem ég þekki fyrst og fremst sem kærasta vinkonu minnar Fríðu Ísberg. Ég sendi auðvitað Fríðu skilaboð undir eins. Hún hló (eða skrifaði haha á spjall held ég eða sendi einhvern hláturkarl) og sagði að þetta væri kannski framtíðarTómas og þá baðst ég velvirðingar, Peps væri vissulega ellilegri en hennar ástkæri (ég komst að því reyndar síðar að Peps er yngri en Tómas þegar platan er gerð, ekki þrítugur – en að sönnu ellilegri samt, sennilega var lífið bara óskammfeilnara). Næst rak ég augun í að barítónsaxofónleikarinn á plötunni heitir Per Erik Isberg. Eftir að hafa látið Fríðu vita af þessu líka lagði ég frá mér plötuna og fór snarhendis aftur að skrifa ódauðlegan skáldskap, einsog ég fæ laun fyrir. 

Það fyrsta sem ég gerði eftir vinnu – þegar ég var búinn að kaupa í matinn og tæma úr pokunum – var að setja Blues På Svenska á fóninn og uppgötva, mér til talsverðrar gleði, að Peps er ekki bara sænskur heldur skánskur. Það er einhvern veginn blúsaðra að vera skánskur en að vera til dæmis (og kannski sérílagi) stokkhólmskur. Ég gæti líka trúað á norrlenskan blús – þar er bæði harmurinn djúpur, náttúran grimm og fólkið gætt mikilli sál – en trúi því engu að síður að skánski hreimurinn gefi sig betur að blústónlist, allir þessir rænulitlu sérhljóðar og gruggugu samhljóðar. Stokkhólmsbúar eru líka of hreinlífir í sínum lífsnautnum – þeir drekka of fín vín, borga of mikið fyrir (vegan) steikina og fara of oft í bað. 

En språkärring sa till morsan 
innan jag sett dagens ljus
– Det e en grabb på väg
pigg på att leva bus. 
Hans aptit på livet 
blir större än nån kan förstå
Tills hela världen undrar
vad i helvete som står på.

Du vet, jag e här
alla vet att jag e här
Jag e en HOKUS POKUS MAN
alla vet att jag e här.

Það eru 10 lög á plötunni, sem kom út árið 1975. Opnunarlagið er Hokus Pokus Man (Hoochie Cooche Man eftir Willie Dixon) og svo eru hápunktarnir sennilega Ropar På Min Snoppa (Howlin' for My Darlin' eftir Howlin Wolf) Allt Det Som Sårar Dej (It Hurts Me Too eftir Elmore James) og Liten Rö Tocke (Little Red Rooster eftir Willie Dixon). Í sem stystu máli sagt er þetta andskoti vel gert og ekki nærri eins mikið noveltí-ítem og ég hafði ímyndað mér. Í ... hvað kallar maður „liner notes“ á íslensku? Formála að plötu? Í formála sínum skrifar Sam Charters:
Blús á sænsku ... Blús er sannarlega ekki það fyrsta sem manni dettur í hug þegar maður hugsar um sænska tónlist. Nei, sennilega er Svíþjóð síðasti staður á jarðríki sem maður hugsar um þegar blúsinn er annars vegar.
Þetta hlýtur að hafa verið skrítið fyrir Sam. Á sjötta áratugnum var blúsinn afar jaðarsettur – og hann hafði einsett sér að koma honum á framfæri við almenning, ekki síst til þess að vinna bug á landlægum rasisma í Bandaríkjunum. 20 árum síðar hefur blúsinn lagt undir sig gervallan hinn vestræna heim – það var blús alls staðar – og hann er mikið til leikinn af hvítu fólki. 

Þrátt fyrir hikandi byrjun eys hann nú talsverðu lofi á þá Peps og Slim en klykkir út með:
En þessi músík hefur fengið sænska umgjörð, sína eigin kryddblöndu og eigið vörumerki. Þetta er blús. En þetta er blús á sænsku. 
Og það má til sanns vegar færa. Og kannski er þetta enn fremur bara blús á pepska – og slimska – vísu. Það erfiðasta við að spila blústónlist, hvort sem maður er frá Clarksdale eða Klippan, er að gæða hana persónuleika – því því verður einfaldlega ekki neitað að þessi tónlist er endurtekningasöm, stundum svo jaðrar við zeníska geðbilun, og þá eru það díteilarnir, sándið og einfaldlega persónuleikinn sem gerir músíkina. Það er erfitt að spila blús einmitt vegna þess að hann er einsleitur í grunninn. Margir blústónlistarmenn eru hálfgerðir períóðuleikarar – klæða sig upp í sokkabuxur og spila á lútu eftir kúnstarinnar reglum til þess að hljóma einsog eitthvað ídeal um blúsmanninn. Og geta kannski brugðið fyrir sig bæði Blind Blake og Mississippi John Hurt og hljómað eitthvað einsog báðir. En svo eru hinir sem gætu aldrei hljómað einsog neitt annað en þeir sjálfir. Muddy og Wolf léku báðir ótal lög eftir Willie Dixon og tilviljun réði því oft hver fékk hvaða lag en þeir hljómuðu aldrei einsog hinn – og heldur aldrei einsog Willie Dixon. Og þegar Peps leikur þessi lög hljómar hann bara einsog Peps. 

Kvöldið eftir var ég síðan að lesa ævisögu KK – Þangað sem vindurinn blæs eftir sveitunga minn Einar Kárason* – og þar skaut Peps aftur upp kollinum. KK bjó í rúman áratug í Malmö og kynntist að vísu aldrei Peps en mun hafa haldið upp á hann – og Einar gerir einmitt aðeins úr því að þeir hafi verið svolítið líkir, rauðhærðir grannir og svolítið teknir blúsmenn. Kannski er þetta bara eitthvað norrænt blúsgen – nú eða keltneskt. Þegar KK var í Svíþjóð (frá 77 minnir mig) var Peps Persson hins vegar mestmegnis að leika reggítónlist – vatt kvæði sínu í kross og er held ég þekktastur í Svíþjóð sem reggítónlistarmaður. Blues På Svenska var síðasta blúsplatan hans í 20 ár – en 1995 sneri hann aftur í ræturnar og gaf þá út plötuna Rotblos þar sem má meðal annars finna þessa dásemd: Min Trollmoj Funkar. Þrífarar vikunnar. Kristján, Peps og Tómas. Mér finnst ósennilegt að þetta verði fastur liður á blúsblogginu, en aldrei að segja aldrei. .

Hér eru svo loks að gamni Howlin' for My Darlin' með Howlin' Wolf, Peps Persson (Ropar på min snoppa) og KK (Þrettán skref). 

* Bók Einars um KK er mjög skemmtileg – Einar er náttúrulega æðislegur sögumaður og innlifun hans afar smitandi og ævi KK áhugaverð. Það er hins vegar einsog Einar – eða útgefandi, prófarkalesari eða aðrir samstarfsmenn – hafi ákveðið að slá ekki upp nema íslenskum orðum og heitum. Þannig er varla orð, setning, nafn eða heiti á erlendum málum – ef frá er talin enska – sem ekki er vitlaust stafsett. Sables-D'Olonne verður Sable de Loné, Cornelis Vreeswijk verður Wreeswiik, Krogen er Krugen, sænska ö-inu er skipt út fyrir ø í einhverjum nöfnum og meira að segja Stevie Ray verður Steve Ray. Þetta er kannski smámunasemi en var nógu algengt til að vera orðið óþolandi fyrir rest. 

Aukaefni: Textar og formáli


Monday, August 24, 2020

Sweet Home Chicago – lengri leiðin

Þegar maður gúglar frægasta blúslagi allra tíma – Sweet Home Chicago – eru Blues Brothers það fyrsta sem kemur upp. Ég er nú gjarn á að halda uppi vörnum fyrir þá Dan Akroyd og John Belushi, að ekki sé minnst á þá stórkostlegu hljómsveit sem þeir rusluðu saman fyrir þessa afar skemmtilegu bíómynd, en það er samt svolítið sorglegt. Mig minnir að í myndinni tileinki þeir lagið Magic Sam sem á einmitt eina frægustu útgáfu lagsins á rafmagnsöld – af meistaraverkinu West Side Soul frá 1967.

 

Lagið er hins vegar „eignað“ Robert Johnson og var tekið upp árið 1936. Ég segi eignað vegna þess að sennilega hefði hann aldrei fengið þetta skráð á sig í dag – því þótt það eigi enginn jafn mikið í endanlegri útgáfu lagsins og hann þá stal hann því meira og minna öllu og setti saman eftir eigin höfði. 

Textinn fjallar um mann sem er að reyna að tæla með sér ástkonu sína úr bænum – lofar henni gulli og grænum skógum í paradís, ef hún bara fylgi sér til „back to the land of California“ og „from there to Des Moines, Iowa“ og loks til „my sweet home, Chicago“. Þetta er svo vægt sé til orða tekið lengri leiðin frá deltunni til Chicago einsog sjá má á þessu korti. 


Fólk hefur mikið klórað sér í hausnum yfir þessum ferðaplönum Roberts. Fyrst eftir að hann fór að vekja athygli (eftir andlát sitt) reiknuðu menn bara með fávísi hans, að hann væri bara að kalla upp nöfn fjarlægra staða út í loftið – en burtséð frá því að vera ansi nákvæmt og gott skáld var Robert á stöðugum faraldsfæti og þótt hann færi aldrei alla leiðina til Kaliforníu þá ætti honum nú samt að hafa verið ljóst hversu langt úr leið hún væri. Aðrir hafa stungið upp á því að hann eigi kannski við Chicago EÐA Kaliforníu (það er hugsanlegt að maður komi við í Des Moines á leiðinni til Chicago, þótt það sé ekki alveg í leiðinni). Svo hafa sumir stungið upp á því að hann noti nöfn staðanna einfaldlega sem ljóðræn samheiti yfir staði þar sem sleppa megi undan Jim Crow rasisma suðurríkjanna – hvort sem er til norðurs eða vesturs. Bara meðan við erum ekki um kyrrt. Enn önnur kenning gengur út á að hann eigi við California Avenue í Chicago. Skemmtilegasta kenningin – sem á sér stoð í gegnumgangandi kímni í textagerð Roberts – er að hinn kasanóvíski ljóðmælandi komi upp um svikult bullið í sjálfum sér með augljósu ruglinu, hann sé augljóslega fæðingarhálfviti sem engin kona með minnstu sjálfsvirðingu myndi fylgja út í sjoppu, hvað þá lengra. 

Á las á dögunum Chronicles eftir Bob Dylan og þar eyðir hann nokkru púðri í að ræða Robert Johnson. Ég man ekki nákvæmlega hvernig hann orðar það en hann túlkar Robert fullkomlega bókstaflega – segir að Phonograph Blues fjalli um mann sem verður fyrir því óláni að nálin á plötuspilaranum hans ryðgar og Dead Shrimp Blues fjalli um ófarir manns í rækjuiðnaðinum. Í fyrsta lagi er áhugavert að hann skuli velja að tjá sig um þau tvö lög Roberts sem fjalla (undir rós) um getuleysi – sem var óvenjulegt – og í öðru lagi má taka þessu sem sneið til þeirra aðdáenda Dylans sjálfs sem eru gjarnir á að oftúlka lögin hans og gleyma því að þau eru fyrst og fremst það sem þau eru. Orðin ekki endilega staðgenglar annarra orða – maður rænir myndlíkinguna líka einhverju með því að skipta henni einfaldlega út fyrir „rétta merkingu“. Ef við tökum Dylan-aðferðina á þetta fjallar lagið þá bara um mann sem ætlar að fara til Chicago í gegnum Kaliforníu og Des Moines. Sem er auðvitað líka skemmtilega ruglað. 

Robert gæti líka hafa átt við California lestarstöðina í Chicago. 

Lagið er mikið einkennislag fyrir borgina. Í seinni tíma útgáfum, frá Roosevelt Sykes 1955, hefur ferðaáætlunin einfaldlega verið leiðrétt svo að núna ætlar ljóðmælandi ekkert til Kaliforníu lengur, heldur bara „that same old place / sweet home Chicago“. Mér finnst það nú óþarflega ferkantað. 

Upprunalega fjallar lagið reyndar alls ekkert um Chicago, heldur smábæinn Kokomo, Indiana. Fyrst til að taka það upp var söngkonan Madlyn Davis, árið 1927, en fyrir kæruleysi framleiðandans heitir lagið í hennar flutningi Kokola Blues – sem mig grunar að kæti mjög blúsglaða íbúa bæjarins Kokkola í Finnlandi, en bær með þessu heiti hefur aldrei fundist í Bandaríkjunum. En hún syngur mjög greinilega „Kokomo“. 
 
 

„Don't you wanna go / to that eleven light city / that sweet old Kokomo“ biðlar Madlyn til manns síns. Ári síðar syngur svo Scrapper Blackwell (sem er þekktastur fyrir að vera sidekick Leroy Carr)  – og er talinn líklegur höfundur lagsins – sinn Kokomo Blues. Textinn er að mestu leyti annar þótt laglínan sé sú sama og fjallar nú um mann sem á í erjum við frú sína og biðlar ýmist til hennar að koma með sér til Kokomo eða virðist ætla að yfirgefa hana og fara þangað einn (enda sé hún aldrei góð við hann). 
And I'll sing this verse, baby, I can't sing no more 
I'll sing this verse, baby, I can't sing no more 
My train is ready and I'm going to Kokomo           
– 

Hvorugt þessara laga náði neitt viðlíka vinsældum og Old Kokomo Blues með James Arnold – en lagið varð svo vinsælt (meðal svartra í suðurríkjunum) í hans meðförum að hann var aldrei kallaður annað uppfrá þessu en Kokomo Arnold. Hann tekur brot úr textanum frá Madlyn – brotið hér að ofan – og prjónar saman við annars vegar flökkuerindi einsog „I don't drink because I'm dry / don't drink because I'm blue / the reason I drink mama / is I can't get along with you“ og hins vegar reikningserindi sem rata inn í klassíkina: „Now one and one is two, mama / two and two is four / you mess around here pretty mama / you know we got to go“. Hefðin býður að maður reikni sig aðeins áfram – Arnold endar í „eleven and one is twelve / you mess around here mama / you going to catch a lot of hell“. Blúsbræðurnir fara í „Nine and nine is eighteen / look there brother baby and see what I've seen“. 


Hér er kannski rétt að geta þess áður en lengra er haldið að Kokomo, Indiana, er mikilvægur bær í sögu Ku Klux Klan – fjórum árum áður en Madlyn syngur sinn blús um hvað sig langi til Kokomo er þar haldin stærsta KKK ráðstefna allra tíma, þar sem talið er að um 200 þúsund manns hafi mætt. Og valið á bænum var ekki tilviljun. Sagt er að ríflega helmingur bæjarbúa hafi verið meðlimir í klaninu og það hafi ráðið lögum og lofum þarna langt fram eftir 20. öldinni – bærinn hefur verið sagður „heimkynni Klansins“. Þetta er auðvitað forvitnilegt í ljósi þess hvers lags ódáinsvellir bærinn er í öllum þessum lögum – þar er bæði framtíðina að finna og þar verða allar erjur að engu. Á leið okkar frá Kokomo og aftur til Chicago verðum við að gera örlitla lykkju á leið okkar og nefna tvö-þrjú lög sem eiga líka talsvert í útgáfu Roberts. Hið fyrra er Honey Dripper Blues no. 2 með Edith North Johnson frá 1928 – sem er klassískt fyrirtaks hokum – og svo Red Cross Man með Lucille Bogan. Þar er melódían eiginlega alveg komin og undirspilið er í búggífílingnum sem einkennir Sweet Home Chicago með Robert Johnson (og enn nákvæmari fyrirmynd að búggíinu má finna í öðru Honey Dripper Blues með Roosevelt Sykes).  


Það er alþekkt trix í lagasmíðum að droppa örnefnum – af einhverjum orsökum resonerar það hjá hlustendum. En til þess þurfa hlustendur sennilega að þekkja örnefnið og ef maður var ekki í Klaninu á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar er ósennilegt að maður hafi heyrt á Kokomo minnst. Elijah Wald skrifar einhvers staðar eitthvað á þá leið að það sé ekki heiglum hent að skrifa hittara um jafn ómerkilegan stað – hann nefnir ekki Kokomo með Beach Boys, úr bíómyndinni Cocktail, sem ómaði viðstöðulaust í útvarpinu þegar ég var svona tíu ára en hlýtur að hafa haft það í huga. Raunar hefur mér líka dottið í hug að lagahöfundarnir hafi tekið því sem áskorun – hvort það væri yfir höfuð hægt að semja hittara um jafn mikið skítapleis og Kokomo. Í laginu þeirra er Kokomo reyndar „off the Florida Keys“ sem auðveldar sennilega rómantíkina – og auk þess er vísað til ábyggilega fjörutíu annarra sumarleyfisparadísa. (Svo má líka spyrja sig hvort höfundar Kokomo – sem voru ekki Beach Boys vel að merkja – hafi verið að senda einhver leynileg skilaboð með nafninu á laginu). 
 
Fyrsta tilraun til þess að færa lagið yfir á kunnuglegri og viðkunnanlegri slóðir er Baltimore Blues með Charlie McCoy frá 1934. 


Baltimore var sannarlega ein af hinum fyrirheitnu borgum norðursins en lagið er kannski bara of hversdagslegt – það er of lítill galdur í þessu. Þá varð Baltimore heldur ekki síðar stærsta og mesta blúsborg sögunnar, einsog Chicago, og það hefur áreiðanlega haft helling að segja um það hvort lagið var koverað oftar þegar fram liðu stundir. Lagið sem Robert tekur upp tveimur árum síðar – í herbergi 414 á Gunterhótelinu í San Antonio – er hins vegar algerlega himneskt. Mér er alveg sama hvað maður er búinn að heyra þessu misþyrmt oft af misgóðum stuðsveitum, þetta er alltaf jafn best:


Sweet Home Chicago er gefið út af Vocalion í júlí árið eftir og kom þá á plötu með Walkin' Blues á hinni hliðinni. Og vakti svo sem enga æðislega athygli fyrren löngu síðar. Kannski ekki fyrren eftir að Junior Parker gerði fyrstu „nútíma“ útgáfuna 1958 – og setti meira swing í það. Þá voru Tommy McClennan og Walter Davis báðir búnir að reyna sig við það, 1939 og 1941, með púsli úr hinum útgáfunum líka. Svo náði Robert sjálfur flugi þegar King of the Delta Blues Singers kom út árið 1961 – en það er ekki fyrren seinni platan, King of the Delta Blues Singers II, kemur út sem Sweet Home Chicago í hans útgáfu verður almennt aðgengilegt. Það er 1970 – sem er einhvern veginn alveg ofsalega seint. Auðvitað voru gömlu 78 plöturnar til og alls kyns bootleggar í umferð – og hugsanlega (jafnvel sennilega) var lagið búið að birtast á einhverri safnplötu. En það er sama. 

Lagið er talsvert afslappaðra með Robert en það er leikið síðar – með rafmagnsgíturum, lúðrasveitum, munnhörpuleikurum, samsöngi og 25 mínútum af sólóum. Robert leikur svo ljúft á gítarinn að það er nánast einsog hann sé að spila á nælonstrengi. Falsetturöddin er kraftmikil en rembingslaus. Það eru nánast engar tiktúrur í gítarleiknum, endurtekningin er dáleiðandi og tempóið er grjóthart. Þetta er lag sem er í senn ómögulegt að leika eftir og ómögulegt að „gera nýtt“. Þreyttasta lumman í bókinni og fallegasta djásnið. Kannski er það líka einmitt vegna þess að maður er orðinn svo vanur því að heyra það flutt með bravúr og látum að manni þykir enn vænna um það svona brothætt og fínt. 

Aukaefni:

Sunday, August 2, 2020

Karate Kid og Krossgöturnar

Það hefur verið hljótt á blúsblogginu í nokkrar vikur en blúsbloggarinn hefur alls ekki slegið slöku við. Ég hef legið í ævisögum og fræðiritum – Say No To The Devil: The Life and Musical Genius of Reverend Gary Davis, Josh White: Society Blues; Charley Patton: Voice of the Mississippi Delta; Texas Flood: The Inside Story of Stevie Ray Vaughan; Beyond the Crossroads: The Devil and the Blues Tradition; Mississippi John Hurt: His Life, His Time, His Blues og Blues All Around Me: The Autobiography of B.B. King. Af þessum eru Charley Patton bókin – eftir Elijah Wald, sem er afar snjall – og Reverend Gary Davis bækurnar bestar en allar ágætar.

Auk þess að lesa blús hef ég verið blúsaður og leikið blús. Síðastliðinn fimmtudag hélt ég tónleika ásamt Skúla frænda mínum í gömlu bókaverzluninni á Flateyri. Þar skiptumst við á að leika lög og lékum nokkur saman. Ég tók St. James Infirmary Blues, How Long, How Long Blues, Walkin' Blues, Come On in My Kitchen og Statesboro Blues óstuddur en saman lékum við Folsom Prison Blues, Chocolate Jesus, It Hurts Me Too og Ég ætla heim (eftir Skúla). Ég áttaði mig á því að þrjú af þessum lögum voru fyrst tekin upp árið 1928 (How Long, St. James og Statesboro). Ég var vægast sagt taugaveiklaður og fór í gegnum þetta í einhverju móki. Það er svo skrítið – ég var með mikinn sviðskrekk fyrstu 10 árin sem ég las upp á sviði og þótt ég verði enn pínu stressaður myndi ég ekki kalla það sviðskrekk. En þegar ég fer með gítar upp á svið byrja ég strax að skjálfa. Það er einsog þetta séu tveir óskyldir sviðskrekkir.

Þetta voru sem sagt fyrstu en vonandi ekki síðustu blústónleikarnir mínir. Gestir voru sennilega um tíu talsins.Hvað um það. Einsog þetta væri allt saman ekki nóg til að halda mér frá blúsblogginu – sem er auðvitað minn höfuðstarfi – þá horfði ég líka á bíómyndina Crossroads frá árinu 1986. Með börnunum mínum. Sem maður ætti eiginlega ekki að gera. Þetta er ekki barnamynd. En þetta er eiginlega ekki heldur mynd fyrir fullorðna. Kannski er þetta bara mynd fyrir eitísbörn sem mega heyra gamla karla tala um að næla sér í píku og depla ekki augunum við tilhugsunina um að sautján ára flökkustúlkur selji hálfsköllóttum suðurríkjarasistum líkama sinn í neyð (eða geri tilraun til þess).

Crossroads var leikstýrt af Walter Hill og í aðalhlutverkum eru Ralph Macchio – Karate Kid – Joe Seneca og Jamie Gertz (úr Lost Boys og Less Than Zero). Seneca var líka tónlistarmaður og sviðsleikari – kom beint á settið á Crossroads úr leikritinu Ma Rainey's Black Bottom eftir August Wilson sem hafði gert stormandi lukku á Broadway. Hann var eða varð upp úr þessu sérfræðingur í að leika gamla blúsmenn og gerði það meira að segja í einum Matlock þætti (þættinum The Blues Singer). Tónlistin í myndinni er eftir Ry Cooder – sem er sennilega óumdeildasti hvíti blúsmaður tónlistarsögunnar og eitt af betri kvikmyndatónskáldum (mæli ekki síst með Paris, Texas sándtrakkinu, sem byggir á Dark Was The Night, Cold Was The Ground eftir Blind Willie Johnson).Myndin floppaði illa á sínum tíma. „Macchio has got all the soul of a Spaghettio“ skrifaði gagnrýnandi The Toronto Star og flestir voru á sömu línu. Myndinni er hins vegar alls ekki alls varnað – þótt hún sé ekki neinn Ingmar Bergman – og lék áreiðanlega á þandar taugar fleiri ungra gítarleikara en bara mínar á sínum tíma. Þá var hún sennilega lykilatriði í því að Robert Johnson og krossgöturnar festust í alþýðuminninu – frekar en að vera bara anekdóta fyrir músíknörda.

Í sem stystu máli fjallar kvikmyndin um ungan gítarleikara – Eugene Martone (Macchio), 17 ára undrabarn og blúsnörd frá Long Island sem nemur klassískan gítarleik við Julliard. Hann hefur bitið í sig að Robert Johnson hafi samið 30 lög en ekki bara þau 29 sem hann tók upp og einsetur sér að hafa upp á 30. laginu með einhverjum ráðum. Hann finnur gamlan félaga Roberts, munnhörpuleikarann Willie Brown (Seneca), á elliheimili fyrir glæpamenn, og telur víst að kunni einhver lagið sé það hann. Willie Brown kannast ekkert við neitt í fyrstu en semur loks við Martone um að ef hann frelsi sig og fari með sig niður til Mississippi þá muni hann kenna honum lagið týnda. Upphefst nú mikil æsiför af buddy-road-movie taginu niður til Mississippi – og á leiðinni slást þeir í för með unglingsstúlkunni Frances, sem er dansari á flótta frá illum stjúpföður, og takast ástir með þeim Martone. Á leiðinni öðlast Martone þá reynslu sem manni er nauðsynleg til að leika blúsinn – kynnist erfiðleikum, lendir í ástarsorg og sýgur í sig fæðingarstað blússins, Mississippi-deltuna.

Bakgrunnur alls þessa er auðvitað mýtan um að Robert Johnson hafi selt skrattanum sálu sína á krossgötunum í skiptum fyrir tónlistarhæfileikana. Í myndinni er lagt upp með að þetta hafi Willie Brown líka gert en nú vilji hann freista þess að endurheimta sálina áður en hann hrekkur upp af. Í raunveruleikanum átti Robert Johnson vin sem hét Willie Brown – en sá var eiginlega fyrst og fremst vinur Son House og lék á gítar. Eftir hann liggja þrjú lög en auk þess lék hann undir hjá Son House, Patton og fleirum. Hann þykir sérstaklega mikill snillingur.Hápunkti nær kvikmyndin í frægri lokasenu þar sem Ralph Macchio keppir við skjólstæðing andskotans (sem er reyndar aldrei kallaður annað en Legba eða Scratch í myndinni), Jack Butler, sem Steve Vai leikur. Það er alveg í hæpnasta lagi að kalla Jack Butler blúsgítarleikara þótt hann leiki sinn neoklassíska metal yfir 12 bara blúshljómagang. Í húfi er ekki bara sál Willie Brown heldur líka sál Eugene Martone. Martone og Butler skiptast á likkum – Butler leikur neoklassík og Butler blúsar hana upp. Svo tekur Butler tryllinginn og allt útlit er fyrir að Martone hafi tapað. En eftir dálítið hik teygir Martone sig niður í sálardjúpin – niður í ræturnar – og dregur upp útgáfu af fimmtu etýðu Paganinis sem hefur verið nefnd „Eugene's Trick Bag“. Butler gerir sitt besta en gefst að lokum upp og gengur bugaður af sviðinu.

Martone og Brown leika eitt lokalag og ganga svo út í sólsetrið – Brown viðurkennir loks að Martone sé ekki alveg gersamlega hæfileikasnauður og lofar að fylgja honum til Chicago, kenna honum aðeins meira, en svo sé hann á eigin vegum.Fyrir utan að vera sögð léleg hefur myndin verið gagnrýnd fyrir allt milli himins og jarðar, ekki síst það hvernig hún hanterar kynþáttamálin. Tveir hvítir gítarrúnkarar keppa um það sem í grunninn er auðvitað krúnan – framtíð blússins í lok tuttugustu aldar. Annar er að eltast við að stela tónlist svarta mannsins (týnda laginu, sem reynist ekki vera til), hinn er hreinræktaður metalrúnkari á tímum þegar það er einmitt þungarokkið sem er talið „tónlist djöfulsins“ og sá sem vinnur dregur fram evrópskan jóker, Paganini, til að trompa. Jóker, sem vel að merkja er, einsog Robert Johnson, talinn hafa verið skjólstæðingur andskotans (en í hans tilfelli var það víst mamma hans sem seldi sálina).

Þetta eru nokkur lög af symbólík og fólki er alveg vorkunn að vilja afskrifa þetta sem þvæling. Ég er hins vegar svolítið skotinn í þessu öllu saman og þetta er hvað sem öðru líður lýsandi fyrir ákveðna tilvistarkreppu í blústónlist um miðjan níunda áratuginn þegar flestir gömlu svörtu blúsararnir eru að hverfa af sjónarsviðinu og hvítir blúsarar að taka við. Þeir höfðu auðvitað verið með frá því í upphafi sjöunda áratugarins en einhvern veginn lent í öðru boxi – verið kallaðir blúsrokkarar einsog Clapton eða folk-tónlistarmenn einsog Dylan eða eitthvað annað eftir atvikum. Það er ekki fyrren með Stevie Ray Vaughan og Texas Flood sem hvítir tónlistarmenn fara að hala inn Handy-verðlaunum sem dæmi – og eru ekki kallaðir neitt annað en blúsarar.

Þá má ekki gleyma því að þeir Butler og Martone eru fyrst og fremst skjólstæðingar lærimeistara sinna – strengjabrúður, skylmingaþrælar, undirsátar svartra karlmanna. Martone er í upphafi fulltrúi gamla blússins en fyrir tilstilli Browns kaupir hann sér telecaster („Muddy Waters invented electricity“ er ein af betri línum myndarinnar), pignose magnara og slide. Butler er fulltrúi einhverrar úrkynjunar sem er talin – af blúshausum – vera sálarlaus, en á vegum Legba (sem er afrískur flærðaguð – sem hafði hugsanlega áhrif á djöflasýn afrísk-amerískra þræla, en er alls ekki heiti sem hefur verið neinum tamt á þeim tíma, einsog er látið í myndinni). Butler hefur farið styttri leiðina – selt sálu sína – og þótt maður geti gert grín að því að tveggja vikna ferðalag um Mississippi eigi að kenna sautján ára stráklingi allt um innstu vé blámans þá er áherslan að minnsta kosti á það sem Brown kallar „mileage“, á sjálfa reynsluna, að maður fái ekkert án þess að vinna fyrir því. Sem er auðvitað líka sannleikurinn um Robert Johnson – í stað þess að selja sálu sína fór hann í læri hjá Ike Zimmerman og æfði sig linnulaust og laug því svo af og til að hann hefði gert samning við andskotann. Það var svokallað markaðstrix.

Ef að Jack Butler er Eddie Van Halen þá er Eugene Martone Stevie Ray. En í þeirri sögn gleymist auðvitað að það voru líka svartir blúsarar að gera það gott á þessum tíma – framtíðin var ekki bara hvít – ekki síst Robert Cray.  Þegar lokasenan var tekin upp var hún líka miklu lengri og innihélt undanúrslit þar sem svartur blúsmaður tapar fyrir Jack Butler áður en Martone kemur á sviðið – og það er líka til útgáfa í handriti þar sem Jack Butler var svartur. En framleiðendur myndarinnar ráku sig strax á ómöguleikann: það var ekki hægt að gera mynd þar sem hvítur strákur vinnur svartan blúsmann. Hvorki Butler né Martone gátu unnið svartan mann. Það var einfaldlega of viðkvæmt pólitískt, þótt það væri sirka það sem var að gerast á vinsældalistunum.

Eitt af vandamálunum við Robert Cray er að hann er í einhverjum skilningi miklu hvítari en Stevie Ray – hann er meira adult contemporary, meiri lyftutónlist. Nú eru sannarlega til upptökur með Cray þar sem skortir ekki skítinn en frami hans byggir samt mjög á öðrum og ómþýðari tónum. Cray og Stevie Ray voru hins vegar báðir aðlaðir af sér eldri blúsmönnum – Albert King tók Stevie Ray upp á sína arma og Albert Collins tók Robert Cray upp á sína.
Það er líka eitthvað fallegt við að Martone skuli svo spila Paganinibastarðinn. Í fyrsta lagi vegna þess að það er „hans“ kúltúr – ekki bara evrópskur heldur líka Julliard. Í öðru lagi vegna þess að Paganini er líka – einsog blúsinn og metallinn – djöfulleg tónlist. Í þriðja lagi vegna þess sá Paganini sem hann blastar á magnaðann Telecaster er bastarður – tónlistarkennarasnobbið úr Julliard hefði fyrirlitið þetta; þetta er hins vegar músík sem Butler ætti að eiga betra með að spila en ræður samt ekki við. Og í fjórða lagi er útgáfan blússkyld – þetta er ekki bara hans kúltúr, þetta er sándið frá Muddy og Buddy,  og blúsinn hefur alltaf verið bæði móttækilegur fyrir utanaðkomandi áhrifum og gjarn á að ryðja sér rúms í annarri tónlist. Það er ekki til nein blúslaus vestræn dægurtónlist.

Ef maður skoðar Crossroads sem einhvers konar táknsögu fyrir framtíð blússins er líka eitt og annað fleira sem sker í augun. Í fyrsta lagi eru auðvitað engar konur neins staðar – þrátt fyrir að t.d. Koko Taylor hafi gert það gott á þessum árum. Í öðru lagi – og kannski fylgist þetta einmitt að – er ekkert sungið í framtíð blússins. Willie Brown syngur eitt lag í myndinni – sem Joe Seneca samdi með Ry Cooder – en Eugene syngur ekki píp og Jack Butler segir ekki einu sinni orð. Blúsmenn fortíðarinnar sem vísað er til – Robert, Son House, Muddy og bæði hinn sagnfræðilega kórrétti Willie Brown og Willie Brown myndarinnar – eru hins vegar allir söngvarar og í einhverjum tilvikum (Son og Muddy) að mörgu leyti betri söngvarar en þeir eru gítarleikarar. Stevie Ray og Robert Cray voru báðir söngvarar. Jack Butler og Eugene Martone eru hreinræktaðar gítarhetjur og eiga kannski meira skylt við Joe Bonamassa og Eric Gales – sem þrátt fyrir að syngja eru varla söngvarar nema í algeru aukastarfi. Þá verður manni hugsað til þess sem Muddy Waters sagði á sínum tíma um hvíta blúsara að þeir gætu spilað blús á gítar en þeir gætu ekki sungið (eða vókalíserað, sagði hann) blúsinn.