Monday, May 18, 2020

Hvað er blús?

I: Að vera blár

Sársauki, skortur, svik, óbætanlegur missir. Kannski er íslenska orðið fyrir blús bara „torrek“. Elstu blúsararnir svöruðu gjarnan spurningunni um eðli blússins á þá leið – blúsinn er tilfinning, aðstæður og stemning. Og það er mikilvægt að hafa í huga að þeir nefna yfirleitt tilteknar aðstæður – tilfinningin er ekki nóg, blúsinn er ekki væl út af smotteríi og hann er ekki klínískt þunglyndi (þótt ég muni eftir fáeinum klínískum þunglyndissjúklingum sem voru góðir blúsarar – t.d. Skip James). Þeir segja ekki: blúsinn er að vera leiður. Heldur: Blúsinn er þegar þú kemur heim úr ömurlegu vinnunni þinni og áttar þig á því að konan þín er farin og hún tók með sér börnin og allar eigur ykkar. Blúsinn er þegar karlinn ykkar nær honum ekki upp. Blúsinn er þegar konan þín er ótrú og karlinn þinn er lyginn. Blúsinn er þegar þú drekkur þig niður á botninn á flösku. Og blúsinn er allt sem þú röflar þarna á flöskubotninum, blindfullur, þegar hvítur háskólastrákur spyr þig.



Í sjálfu sér eru varíantarnir ekkert ægilega margir – rétt einsog í annarri sagnagerð liggja gæðin í díteilunum. Það getur verið eitthvað tvist – uppleggið er kannski að svikin séu þau að þú hafir svikið vin þinn með því að hafa af honum konuna hans, sem hafi svikið hann, en pönslænið að þau hafi bæði svikið þig með því að hafa tekið saman aftur og skilið þig eftir einan og sáran. En oftar en ekki er þetta einfaldlega fallegt myndmál, góð ljóð. If the river was whisky / and I was a diving duck / I'd swim to the bottom, baby / and I'd drink my way up. Nú eða þetta:
When the train, it left the station
With two lights on behind
When the train, it left the station
With two lights on behind
Well, the blue light was my blues
And the red light was my mind
All my love's in vain
II: Að vera svartur

Seinna myndu aðrir svara sömu spurningu þannig að blúsinn væri kjarninn í upplifun svartra bandaríkjamanna – eitthvað sprottið úr einstakri reynslu þeirra og eitthvað sem enginn gæti tjáð nema þeir. Þetta hangir saman við réttindabaráttu blökkumanna um miðja öldina og nýja sýn þeirra á eigin sögu og sjálfsmynd; og líka við þá staðreynd að þessi tónlist, sem flestum hafði verið meira og minna sama um – ekki síst þeim sjálfum, djassinn var alltaf vinsælli, og síðar R&B swing og soul-tónlist – var skyndilega ekki lengur gamaldags og klúr gagnvart fágaðri vinsældartónlist hvíta mannsins heldur sönn og djúp og resonant. Skyndilega skipti hann máli – og skyndilega var verið að stela honum. Hvítir háskólakrakkar sem fannst líf sitt með Pat Boone ekki fullnægjandi tóku að leita í eitthvað sterkara og fundu það í alþýðutónlist – folk music – sem upprunalega er auðvitað ekki heiti á tónlistargenru heldur hugtak í þjóðfræði. Það er að segja: „folk music“ segir (upprunalega) ekkert tónfræðilega um neina tónlist, ekki takt, melódíu eða hljómaskipan, heldur um tilurð. Folk er tónlist sem er samin af þjóðfélögum fremur en einstaklingum, dokumenteruð af göfugum þjóðfræðingum frekar en tónlistarmönnum – lög og ljóð sem eru látin ganga í munnmælum – og þegar fólk fer að hafa áhuga á „folk“ sem slíku virðist þessi hvíti úthverfa almenningur ekki láta sig það nokkru skipta hvort lagið er western, köntrí, blús eða bluegrass. Út úr þessu kemur tvennt:

1) Það verður til tónlistarstefna sem heitir bara folk, hverrar grunntónn er sirka Joan Baez. Þetta sánd kjarnast sem sagt, frekar en að þróast.

2) Það verður til ný blústónlist, á sama tíma og eldri blúsarar eru færðir upp á stall. Það er merkilegt nokk mjög lítið um Joan Baez týpur í þessu – í stað þess að ná sér í gamlan national steel gítar og fara að herma eftir Son House fara blústýpurnar og ná sér í rafmagnsgítar og stofna hljómsveit – nýjan rafmagnsblús sem er ekki bara framhald af Chicagoblúsnum. Þetta eru Stones og Ry Cooder, Taj Mahal, Koko Taylor, Canned Heat og Magic Sam og svo framvegis. Eina undantekningin sem ég man er Bob Dylan, hvers fyrsta plata er að stærstum hluta gamaldags köntrí-blús – því þótt hún sé yfirleitt bara kölluð „folk“ verður ekki horft framhjá því að langstærstur hluti laganna er blökkusöngvar frá Mississippi og lagahöfundar t.d. Blind Willie Johnson, Jessie Fuller, Blind Lemon Jefferson, Curtis Jones, Bukka White, Reverend Gary Davis o.s.frv. Síðan þá hefur Dylan auðvitað spilað óhemju af blús (playlisti á Spotify með blúslögum Dylans er vel á áttundu klukkustund) en megnið af því er í nýrri stíl.



Ég held að menn einsog ljóðskáldið Amiri Baraka hafi upplifað ágang Dylans og Stones á tónlist sem þeir töldu erfðarétt sinn – sína tónlist, einsog Íslendingar „eiga“ íslendingasögurnar – sem enn einn menningarþjófnaðinn. Það var búið að taka nútímalegri blúsinn – R&B Big Mama Thornton og Arthurs „Big Boy“ Crudups – og breyta honum í Graceland-milljarðamæringinn Elvis Presley; án þess að Thornton eða Crudup hefðu af því nokkrar sjáanlegar tekjur, og nú átti að endurtaka leikinn með helgustu verðmæti hinnar svörtu þjóðar – og hann var auðvitað endurtekinn. Stones urðu stærsta og ríkasta band allra tíma, Dylan fékk nóbelsverðlaun, það er búið að nefna reikistirni eftir Eric Clapton og í dag eru hvítir blústónlistarmenn óneitanlega umtalsvert plássfrekari en þeir voru fyrir þennan tíma. Og þá gengur ekki lengur að segja einsog Son House eða Lightnin' Hopkins gerðu, að blúsinn væri tilfinning – að hann væri úniversal. Þá segirðu frekar að sársaukinn sé sértækur, snúi að vissri reynslu – og jafnvel, einsog Ruth Brown, að þessi sársauki sé fyrir bí, þetta þjóðfélag horfið og enginn þekki hann (sem er ekki það sama og að segja að það sé ekki óréttlæti eða rasismi). Af því vilt standa félagslegan vörð um menningararfleið þína – að henni verði hvorki spillt né aðrir græði á því sem þjóð þín var arðrænd af.

III: Að vera svartur eða hvítur

Blúsinn er líka ákveðin tónfræðileg einkenni. Hann er gjarnan tólf bör (taktar) sem skipt er upp í þrjú box – fyrst eitt á grunnhljómi (tonic eða I), þá hálft á undirforhljómi (sub-dominant eða IV) og hálft aftur á grunnhljómi, loks hálft á forhljómi (dominant eða V) og hálft á grunnhljómi (oft er það reyndar líka kvart á grunnhljómi og kvart á forhljómi – sem er leikið í einhvers konar krómatískt hnígandi (eða stígandi) riffi og kallað viðsnúningur eða turnaround). En hann getur líka verið átta bör eða sextán og gömlu köntríblúsararnir gerðu þetta bara einsog þeim sýndist – 9 bör í einu erindi, 13 og hálft í næsta, svo 11, næst 12. Þá er hægt að varíera hljómaganginum þar til hann verður nánast óþekkjanlegur – það fer eftir því hvað maður djassar það mikið (í djassi skiptir maður oft hljómum út fyrir aðra sem „ganga upp“ í staðinn). Maður gæti sagt að kjarninn í blúsnum sé samt þarna – vandamálið er bara að þessi hljómagangur hefur verið notaður svo víða í tónlist sem er alls ekki blús. Og þá er ég ekki að meina í rokklögum eða einhverju köntrídóti eða pönki – þannig lög blúsast auðveldlega upp, kannski af því hljóðheimurinn er skyldur – heldur poppaðri músík, fágaðri músík. Ég veit t.d. ekki hvort það gagnast neitt að skilgreina Black or White með Michael Jackson sem blús þótt það uppfylli skilyrðin.



Svo eru auðvitað milljón klassísk blúslög sem nota alls ekki þennan hljómagang og myndu falla utangarðs (og blústónlistarmennirnir sem við þekkjum frá fyrri hluta aldarinnar léku líka með fáum undantekningum „alls konar tónlist“ – þótt plötuútgefendur og þjóðfræðingar hefðu minni áhuga á að heyra þá spila Gene Autry eða Tin Pan Alley).

Önnur einkenni eru stöðugur þömpandi fjórtaktur, lækkaðar sjöundir (sem eru í dag svo algengar að þær eru yfirleitt bara kallaðar sjöundir), lækkaðar fimmundir (sem er nóta í blússkalanum sem farið er í gegnum en aldrei dvalist við – enda sjálfur tónskrattinn – hún skapar spennu sem þarf að leysa úr strax) og míkróteygðar moll-þríundir og sjöundir (kenningar eru um að það hljómi réttar í vestur-afrískum tónstigum – en hljóðfæri blússins eru auðvitað fyrst og fremst evrópsk). Þá einkennir það blússkalann að þótt tólf-barablús sé í dúr er leikinn yfir hann pentatónískur mollskali (með blúsnótu – tónskrattanum). Og stundum hendir maður inn einni og einni dúrþríund – sérílagi strax á eftir mollþríundinni. En svo eru líka til mollblúshljómagangar og dúrblússtigar. The Thrill is Gone er t.d. mollblús og Skip James spilaði alltaf í mjög sérstakri og harmrænni moll-stillingu. T-Bone Walker spilaði oft dúrskala og Lonnie Johnson spilaði nú bara alls konar djassskala og margir leika sjöundar-arpeggios yfir hljómana og láta skalana bara eiga sig.

En vandamálið er líka að blússólóið – eða bara blúsmelódían, þessi einkenni hér að ofan – eru margfalt algengari en nokkur 12 bara blús. Vestræn tónlist er einfaldlega undirlögð – kólóníseruð!

Þá er samtalið milli radda eða hljóðfæra eða – sem er algengast – milli raddar og hljóðfæris ákveðið einkenni á blústónlist. Söngvarinn segir: Ég er svangur. Gítarinn segir: Dí-dú-dí-dá. Söngvarinn: Ég er atvinnulaus. Gítarinn: Da-dú-bí-dú-dí. Þetta ku vera afrískt einkenni og er – einsog mörg önnur blúseinkenni – líka mjög algengt í gospel og vinnusöngvum.



Loks ber að nefna áferðareinkenni einsog að teygja eða slæda upp og niður í nótur, nota mikið víbrató – og nota grófan hljóm, frekar en fagran, að hrópa rámri röddu, leika á sargandi gamla Stellu, diddleyboga, ódýran Airline-rafmagnsgítar, keyra lampamagnara út í overdrive, spila á lúið gamalt píanó – frekar en að spila á hljómfagran klassískan gítar eða steinway-flygil. Þetta helgast auðvitað upprunalega af félagslegum aðstæðum – stellurnar voru ódýrustu hljóðfærin og upptökugræjurnar sem voru notaðar til að taka upp tónlistina í fyrstu voru kannski ekki beinlínis hi-def. En það þýðir ekki að það sé ekki sándið í blúsnum – þótt hér séu aftur líka ofsalega stórar undantekningar, alveg frá fyrsta degi. Lonnie Johnson spilaði fágað, Mississippi John Hurt spilaði fágað og BB King var fágaðastur allra (og hafði ímugust á öllu þessu fátæktar- og hávaðatali – þótt hann bæri mikla virðingu fyrir frænda sínum, Bukka White, sem var nú sennilega næst grófastur og æstastur og sveittastur, strax á eftir Son House og strax á undan Howlin' Wolf).
Löngu áður en Jack White gerði eldrauða
og ódýra airline-gítarinn að sínu vörumerki
var hann þekktur sem JB Hutto gítarinn.

Þessi einkenni áttu sennilega fyrst og fremst við blúsinn þegar hann birtist á sjónarsviðinu – og þótt það væru enn 30 ár í að tónlistarmenn í Chicago færu að tigna hávaðann og rúmlega 50 ár í að pönkararnir tækju það upp á næsta stig – voru önnur áferðareinkenni strax komin í almenna umferð eftir fyrstu blússprenginguna (og auðvitað ómögulegt að segja að hversu miklu leyti þau voru til víðar – en þetta eru einkenni sem almennt eru tiltekin á þessum tíma þegar verið er að lýsa því hvernig blúsinn sker sig frá annarri tónlist, sem er þá fyrst og fremst evrópsk).

En sem sagt – almennt er mjög erfitt að skilgreina blúsinn tónfræðilega einmitt vegna þess hve djúpstæð áhrif hann hefur haft á alla dægurtónlist. Það er eiginlega ekkert sem einkennir blúsinn sögulega sem einkennir ekki núorðið nánast alla vestræna dægurtónlist.

IV: Að tikka í boxin

Blús er síðan á 20. öldinni ekki síst bara vörumerki eða markaðstæki. Hilla í plötubúðinni. Ákvörðun sem er tekin á skrifstofu plötufyrirtæki – eða þjóðfræðings. Þegar blúshugtakið nýtur vinsælda er allt kallað blús og þegar það þykir hallærislegt er ekkert kallað blús. Fólk sér það sem það vill sjá. Og vegna þess að það hefur alveg frá upphafi verið tengt einhvers konar uppruna eða hinu átentíska – sem undirstrikaðist svo mjög í blúsendurreisninni á sjötta og sjöunda áratugnum – eru það ákveðin einkenni sem hafa ekkert með tónlist að gera sem skilgreina blúsinn, nánast einsog þegar verið er að skilgreina þjóðir (og hér nær Amiri Baraka máli með hugmyndum sínum um að blúsinn geti bara verið tónlist svartra með vissan bakgrunn). Þá skiptir máli að uppfylla vissa steríótýpu – eða tikka a.m.k. í sem flest box. Það er betra að vera svartur. Betra að vera frá Mississippi. Betra að vera frá Deltunni. Betra að vera frá Clarksdale. Betra að vera karl. Betra að spila á gítar. Betra að vera blindur eða haltur. Betra að vera drykkfelldur (og betra að drekka viskí). Betra að vera kvensamur (eða karl- og kvensamur ef maður er kona, sem er verra). Betra að hafa unnið sem leiguliði (eða sharecropper, réttara sagt). Betra að eiga afa sem var þræll. Betra að eiga mömmu sem var vændiskona. Betra að vera lyginn. Betra að vera ótrúr. Betra að hafa verið prestur. Betra að hafa gert samning við djöfulinn. Betra að hafa drepið mann og betra að hafa farið í fangelsi – unnið í keðjugenginu. Svona einsog maður er varla norðmaður nema maður eigi lopapeysu með silfurhnöppum, sé hvítur og ljóshærður í góðu líkamlegu ásigkomulagi og fari gjarnan á gönguskíði þegar færi gefst.

Þessi áhersla á upprunaleika hefur líka þau áhrif að fólk (bæði innanblúss og utanblúss) bregst ókvæða við breytingum og þróun – það var alls ekkert sjálfsagt þegar Muddy og félagar fóru að spila rafmagnsblús í Chicago en þeir voru þó með öll möguleg credentials. Helmingur þeirra lærði að spila á gítar hjá Robert Johnson sem lærði það af djöflinum sjálfum. En það náðist í gegn. Hins vegar getur einfaldasta og augljósasta blúslag ekki fengið smá keim af neinu öðru – rokki, pönki, swing – án þess að sú skilgreining taki einfaldlega yfir. Blúsað rokklag fer í rokkrekkann og rokkað blúslag fer líka í rokkrekkann. Svartur tónlistarmaður frá Clarksdale, fæddur í byrjun aldarinnar, fer hins vegar í blúsrekkann alveg sama þótt hann spili hergöngumarsa á túbu. Bob Dylan hefur bæði samið óhemju af blúslögum og leikið nánast allan delta-katalóginn – Stones gerðu eins, byrjuðu á að kovera eftirlætin sín frá Mississippi og Chicago og sömdu svo undir áhrifum frá því efni, kynntu sig undantekningalaust sem blúshljómsveit í meira en áratug áður en þeir gáfust bara upp á því. Ef þeir hefðu verið svartir hefði sagan sennilega verið önnur. Hvítur tónlistarmaður sem stígur út fyrir 12 bara blúsinn og leikur ekki löng pentatónísk gítarsóló með epískum teygjum og helst öllum nótunum í skalanum í einu er alltaf að gera eitthvað annað en að spila blús.

V: Að vera trúr og sannur (ég meina ótrúr og lyginn)

Sennilega er þetta spurning um einhvern heildarpakka – félagslega og tónfræðilega og sögulega og andlega og tilfinningalega samsetningu sem gengur upp. Að rekja alla söguna – hlusta á öll lögin sem hafa verið kölluð blúslög til þessa. Og svo bara eitthvað svona „ég þekki það þegar ég heyri það“ dæmi. Stundum heyrir maður eitthvað sem er bara svo augljóslega blús, þótt það standi hvergi blús utan á því.

No comments:

Post a Comment