Saturday, April 25, 2020

Tími konunnar: sokkabönd full af snákum

Blúskonurnar áttu sviðið fyrstu ár hljómpötublússins. Crazy Blues Mamie Smith seldist í 75 þúsund eintökum á augabragði og tónlistarbransinn hafði þá, einsog æ síðan, sterka tilhneigingu til þess að vilja endurtaka frekar en endurskapa það sem áður hafði gengið vel, og fyrirtækin tóku strax kemba samfélög svartra eftir góðum söngkonum – og fundu meðal annars snillinga einsog Bessie Smith, Lucille Bogan, Ma Rainey, Clara Smith og Victoriu Spivey (Smith, Smith og Smith voru ekkert skyldar nema andlega).



Það væri synd að segja að bara undirtónarnir í þessari tónlist hafi verið dónalegir  – það var mikið sungið um svarta snáka og þurfti ekki menntaðan túlk eða dýrafræðing til að segja hvaða skepnur voru þar á ferð. Í þessu dásamlega lagi Victoriu Spivey er fjallað um hinn litla „garter snake“ – sem ku helst þekktur fyrir meinleysi sitt – en garter er auðvitað líka heitið á sokkaböndum kvenna. Og það var klassískt að flétta svolítið diss inn í kynferðisleg tilboðin.

Með Victoriu leikur vinur hennar Lonnie Johnson, sem varð eiginlega alveg óvart blúsgítarleikari eftir að hafa unnið blúskeppni – en var í sjálfu sér djassari í grunninn og mikill frumkvöðull í gítarleik almennt. Hann var hins vegar, sem djassari, talsvert fágaðri blúsmaður en deltablúsararnir sem við þekkjum seinna – Robert Johnson, Son House, Skip James og kompaní, sem voru lítt þekktir á þessum tíma en öðluðust viðurkenningu síðar. Og það má alveg til sanns vegar færa að þeir séu áhugaverðari blúsarar en Lonnie – sem var melódískari og fagmannlegri. Fyrir þá sem hafa tilhneigingu til að fella allt í Bítlarnir/Rolling Stones tvíhyggjuna, sem er stundum gagnlegt, mætti segja að Lonnie hafi verið Bítill en Robert, Son og Skip verið Stónsarar.

Sjálfum finnst mér Lonnie skemmtilegastur þegar hann er að spila með aðeins „skítugri“ tónlistarmönnum, einsog t.d. Victoriu Spivey – sem er vaudevillari af guðs náð.


Það er tilhneiging til þess hjá mörgum blússagnfræðingum að gera lítið úr öllum dónaskapnum – því sem er kallað „hokum“ eða „dirty blues“ – eða að reyna að tala sig framhjá honum og halda því fram að þetta hafi bara verið einfalt sölutrix frekar en hornsteinn listarinnar. Að benda á að tónlistin sé góð „þrátt fyrir“ að textarnir séu „ómerkilegir“ (og á köflum mjög ó-PC – það er líka hellings ofbeldi í þessu). Mér finnst það óttaleg einföldun. Í fyrsta lagi er gredda bara svolítið sexí og tónlist hefur aldrei verið yfir það hafin að stefna beint í klofið á áheyrendum sínum. Í öðru lagi er blúsinn – einsog Angela Davis hefur meðal annars bent á í ágætri bók sinni um blúsinn og femínismann – frelsandi hugmyndafræði. Hann kemur upp strax í kjölfarið á þrælahaldinu. Á þessum tíma var alveg nýtt að svart fólk mætti deita eða leiðast á götu eða maka sig með þeim sem því sýndist – að elska einhvern og elskast með einhverjum (jafnvel mörgum, eða einhverjum af eigin kyni) var frelsisgjörningur og að syngja um það var að fagna því frelsi. Í þriðja lagi er kynlíf bara alls ekki í eðli sínu ómerkara umfjöllunarefni en neitt annað og listaverk sem taka það til skoðunar verður að dæma út frá einhverju öðru en svona móralisma.

Blúsinn er karnal – hann er graður – og hann er ofbeldisfullur. Einn ofsalega stór og að mörgu leyti óþægilegur þráður í honum eru öll lögin um hefndir svikinna elskhuga, og hótanir um hefndir, ekki síst vegna þess að eftir því sem á líður verður blúsinn meira og meira karllægur – þessar fyrstu færslur mínar eru kannski að mestu um konur en það á sannarlega eftir að breytast.

Ég ætla aðeins að taka betur fyrir hokum-tónlistina næsta laugardag. En áður en ég segi þetta gott í dag langar mig að „spila fyrir ykkur“ eitt lag í viðbót. Þegar líða tók á þriðja áratuginn fóru að birtast fleiri sólókarlar – svona klassískir deltablúsarar, einn karl með einn gítar – en þeir slógu í raun ekki í gegn fyrren eftir kreppu, 1929, og áttu sviðið fram undir 1935 þegar sveitirnar tóku aftur að stækka. Konurnar voru flestar hluti af einhvers konar vaudeville-sjói og voru oft með stóra hljómsveit með sér og mikinn glamúr, einsog ég nefndi í síðustu færslu – þetta var dýr rekstur og hann stóð undir sér á „the roaring twenties“, og var viðeigandi. Þegar kreppan reið síðan yfir féll plötusala í Bandaríkjunum um 80% og plötusala svartra enn meira en það. Blústónlistarmaður sem gat vænst þess að selja auðveldlega 10-20 þúsund plötur árið 1927 gat árið 1932 vænst þess að framleiddar yrðu nokkur hundruð plötur og fæstar þeirra myndu seljast. Þetta hafði tvær afar ólíkar afleiðingar.

1) Útgáfan dró saman seglin og í stað þess að taka upp stórar sveitir var lögð áhersla á ódýrari framleiðslu. Tónlistarmenn sem gátu séð um bæði söng og undirleik eignuðust sviðið. Það var jafnvel hægt að taka þá upp í litlu ferðastúdíó. Þeir sem ekki gátu sungið eða þurftu undirleikara eða að komast í stærra stúdíó af einhverjum orsökum áttu erfiðara uppdráttar.

2) Þegar hvítu blúsnördin byrjuðu að nördast í blúsnum á fimmta og sjötta áratugnum voru þessar deltablússmáskífur fágætustu plöturnar, af því upplagið var svo lítið. Það mátti finna gamla Bessie Smith plötu í hverju einasta svarta dánarbúi árið 1950 – en það var ofsalegur gimsteinn að finna plötu með Skip James. Og virðið var auðvitað metið að hluta í samræmi við það – bæði félagslega og fjárhagslega.

Þegar kreppan kom var þessi vaudeville-blús líka skyndilega jafn smekklegur og eitthvað eitís-glitz í miðju grunge-fári. Einsog Samantha Fox í Soundgarden-partíi. Og þá þurfti – ekki bara efnahagslega, heldur ekki síður fagurfræðilega – að leita í eitthvað einfaldara, eitthvað moldugra.

Einn allra síðasti hittari kvenblúsarana var Nobody Knows You When You're Down and Out með Bessie Smith. Lagið var ekki nýtt og alls ekki samið um kreppuna – Jimmy Cox samdi það árið 1923 og það vísar í efnahagslægðina eftir fyrri heimsstyrjöldina. Bessie hafði sungið það í einhvern tíma áður en hún tók það upp vorið 1929. Mér hefur alltaf þótt það táknrænt að þetta sé svanasöngur þessa glæsilega tímabils – því skyndilega breyttist veröldin, efnahagurinn súrnaði, og þá vildi enginn kannast við glamúrsveitirnar lengur. Lagið er svo auðvitað einn allra stærsti klassíker blússögunnar og hjartaskerandi flutningur Bessie kallar alltaf fram í mér tárin.

Saturday, April 18, 2020

Fyrsta blúslagið: Crazy Blues

Crazy Blues með Mamie Smith og hljómsveitinni The Jazz Hounds er ekki fyrsta blúslagið og ekki heldur fyrsta blúslagið til að segjast vera blúslag – til að heita blús. Hið fræga Memphis Blues eftir WC Handy er ríflega tíu árum eldra og Dallas Blues eftir Hart Wand (sem er af þýskum ættum, ekki afrískum) er enn eldra en það. En það eru tæknilega séð ekki blúslög heldur einhvers konar ragtime, held ég – ég hef ekki beinlínis vit á því en blúsar eru þetta ekki, frekar en svo margt annað sem kallað er blús (ekki síst nútildags).

Blúsinn er þess utan nokkuð eldri en upptökutæknin og var að mestu leyti leikinn af tónlistarmönnum sem kunnu ekki að lesa eða skrifa nótur (eða höfðu ekki áhuga á að skrifa niður þessa alþýðutónlist sem þeim þótti í besta falli ómerkileg og dálítið ósiðleg skemmtan). Sennilega hafði einhver tegund blússins verið leikin alveg frá 1870 – og hann á auðvitað rætur sínar helst að rekja til vesturstrandar Afríku, bæði að formi til en þess utan er ákveðin áhersla á notkun strengjahljóðfæra sem bjóða upp á millinótur (kvartteygðar þríundir og sjöundir t.d. – og hækkaðar ferundir) sem er víst þekkt í tónlist þar um slóðir eitthvað lengur.

En hann á líka rætur að rekja til aðstæðna á baðmullarekrum í Bandaríkjunum. Þar kölluðu menn – sungu hátt – milli „akreina“ svo heyrðist í þeim og svöruðu svo aftur. Þetta „call and response“ einkennir allan blús og er jafnvel enn meira einkennandi en 12-bara hljómagangur með turnaround. Á baðmullarekrunum neyddust menn líka til að smíða sín eigin hljóðfæri, oft eftirlíkingar af afrískum hljóðfærum, af miklum vanefnum og tímaskorti (því unnið var allan daginn) – fyrst slide-gítararnir voru bara stálstrengir bundnir við hús sem leikið var á með vasahnífum.

Á baðmullarekrunum þurftu menn síðan líka að sjá um sína eigin skemmtun – halda sín eigin böll – og fyrstu atvinnutónlistarmenn svartra bandaríkjamanna flökkuðu á milli baðmullarekra sem skemmtikraftar (blústónlist er og hefur alltaf verið partítónlist – líka þegar hún er hæg og tregafull). Á baðmullarekrunum – fyrst og fremst eftir að þrælahald var afnumið – komust svartir suðurríkjamenn líka í kontakt við evrópskan verkalýð og þótt sá kontakt væri heilt yfir sjaldan náinn þá þar varð talsverð krossvíxlun í menningaráhrifum. Blúsinn fór að ríma, sem hann hafði lítið gert áður, og stundum varð hann jafnvel ballöðukenndur – hvað er Goodnight Irene eftir Leadbelly t.d. annað en írsk ballaða? – og þegar farið var að taka hann upp öðlaðist hann (eða var þvingaður í) ákveðinn strúktúr. Lögin urðu að hafa byrjun, miðju og endi og máttu ekki vera lengri en spólan náði – oftast þrjár mínútur.

Þá léku gömlu blúsararnir líka bara alls konar tónlist – kölluðu sig alla jafna „songsters“ frekar en hljóðfæraleikara og áttu sennilega mest skylt við partígítarleikara samtímans. Þeirra hlutverk var að kunna mikið af lögum og þeirra eigin lög voru oftar en ekki samsuða úr alls konar öðrum lögum. Þegar þeir voru svo teknir upp löngu seinna hafði enginn áhuga á að heyra þá spila eitthvað köntrí eða tin pan alley dót – heldur bara orginalblúsinn – og því eru litlar upptökuheimildir til um þetta. Hins vegar er talsvert vitað um svarta tónlistarmenn sem léku með hvítum og hvíta sem léku með svörtum – t.d. gítarleikarann Eddie Lang sem á óhikað skilið að vera talinn upp með frumkvöðlum blússins. En þeir gátu ekki alltaf spilað mikið saman opinberlega og þurftu stundum jafnvel að koma fram á plötum undir dulnefni (Eddie Lang kallaði sig Blind Willie Dunn á plötum Lonnies Johnsons). Þetta eru ótrúlegir gróskutímar í tónlist og allir að læra af öllu(m).

Það er merkilegt að þetta lag, fyrsti upptekni blúsinn, Crazy Blues, sver sig eiginlega alls ekki í ættina við þennan upprunalega blús, þennan köntríblús, þennan baðmullarekrublús. The Jazz Hounds er „lærð hljómsveit“ – fágaðir atvinnumenn – að frátaldri fiðlunni er ekkert hljóðfæri þarna sem ræður við míkróteygða tóna, og Mamie Smith syngur kannski hátt og kallar en hún er enginn köntríblúsari og hún er ekki heldur karlmaður – fyrstu „vinsælu“ blúsararnir voru allt konur og plötukaupendur þeirra voru aðallega svartir karlar. Á þessum tíma – the roaring twenties – keyptu þeir vel að merkja ofsalega mikið af plötum, þetta eru uppgangstímar fyrir plötubransann (sem fór ekki endilega vel með þessa tónlistarmenn, vel að merkja).

Það var síðan ekki fyrren seinna – í raun ekki af neinu viti fyrren hvítir menn fóru að hafa áhuga á blústónlist – sem farið var að taka upp og prómótera baðmullarekrublúsinn. Blúsinn byrjaði kannski á baðmullarekrunum en þegar farið var að taka hann upp var hann tekinn upp fyrir svarta var ekki snobbað fyrir fátæktinni eða hógværðinni – þessar konur sem sungu fyrstu blúslögin ferðuðust um með vaudeville-sjóum og voru gjarnan klæddar í glys og glamúr frá toppi til táar, pallíettur, fjaðrir og gimsteina.