Thursday, October 8, 2020

Blúsinn og veiran: „You Better Close Your Public Schools“

Um þriðjungur mannkyns mun hafa fengið spænsku veikina á sínum tíma í fjórum bylgjum og á bilinu 17-50 milljónir manns féllu í valinn. Faraldurinn hófst árið 1918 og stóð til 1920, þegar fyrsta blúsbylgjan hófst fyrir alvöru með Crazy Blues með Mamie Smith. Í ljósi þess að blúsinn er í grunninn alþýðutónlist og sem slíkur topikal – þ.e. hann fjallar um það sem er í deiglunni, um örlög starfsmanna á plani og plantekru – þá vekur athygli að tiltölulega fá lög fjalla um þennan ofsalega flensufaraldur. Að vísu dóu þá nokkuð færri í Bandaríkjunum en víða annars staðar – á bilinu 500-850 þúsund manns (miðað við 200 þúsund af Covid þegar þetta er skrifað) eða 0,5-0,8% af heildarmannfjöldanum – en margir veiktust og einn af hverjum 200 er heldur ekki ekki-neitt. 

Eðlilegasta útskýringin held ég að sé sú að fyrsta áratuginn eða svo – áratug blúsdrottninganna svonefndu – var blúsinn alls ekki alltaf harmrænn. Það var meiri áhersla á hedónisma og ákveðið siðleysi – og tónlistin var lækning við bláma sálarinnar, aðferð til þess að reka hina svörtu hunda á brott, frekar en einfaldur harmsöngur. Einsog Ida Cox söng: „Wild women don't worry / wild women don't get no blues“. Þegar að hinir þunglyndari gítaristar mæta á svæðið til að segja sínar sögur er flensan einfaldlega gleymd og grafin undir fargi nýrra harmleikja – Mississippi áin flæðir yfir bakka sína, ofbeldi Jim Crow tímabilsins og Ku Klux Klan er í algleymingi, kreppan er hafin og brauðstritið þrúgandi. Það voru aðrar sögur sem þurfti að segja. 

Önnur útskýring er að blúsinn er gjarn á að fjalla um hið sértæka frekar en hið almenna. Þannig er nóg til af blúslögum um sjúkdóma – Blind Lemon syngur í Pneumonia Blues að hann sé kominn með lungnabólgu af því að standa úti og bíða eftir ástinni sinni sem aldrei kemur; Bukka White syngur í High Fever að hann fari til læknisins til að kvarta undan sótthita en læknirinn segir að hann sé bara ekki nógu duglegur að fá sér knús; Victoria Spivey er vinalaus með berkla í TB Blues; Memphis Minnie er nær dauða af lífi af heilahimnubólgu í Meningitis Blues – en giska fá um faraldra.  

Þriðja útskýring er einfaldlega að gospeltónlistin – sem var gjarna stillt upp sem andstæðu blússins – átti sterkara tilkall til frásagna um veikindi og dauða. Þegar að blústónlistarfólk syngur um almennar flensur og veikindi, feigð og dauðalegu, er það yfirleitt að syngja gospel – með sínu nefi, en samt. Það vill síðan til að þessi togstreita milli blúss og gospels, drottins og syndarinnar, dauðaþrárinnar og lífsnautnarinnar markaði líf margra blústónlistarmanna og þess vegna eigum við lög einsog John the Revelator með Son House (sem predikaði jafnvel milli laga og fyrirvarð sig fyrir að vera annars að spila sína djöfullegu músík):


Lagið John the Revelator er alþýðugospel sem Blind Willie Johnson var fyrstur til að taka upp. Um Blind Willie má það segja að hann er ýmist kallaður blús- eða gospeltónlistarmaður. Mér vitanlega söng hann aldrei um lífsins yndissemdir eða dásamaði syndina – öll hans lög fjalla um dýrð drottins og textarnir eru príma gospel. En hann spilar þau í stíl sem er ekki hægt að kenna við gospel með góðu móti – til þess er of mikið af blúsnótum, of mikill andskoti í röddinni. Ég á ekki við að hann sé ekki gospeltónlistarmaður – bara að hann sé augljóslega ekki ekki blústónlistarmaður líka. Og Blind Willie er þess vegna sá eini sem ég hef getað fundið frá þessu tímabili sem syngur um inflúensufaraldurinn (sem slíkan). 
In the year of 19 and 18, God sent a mighty disease.
It killed many a-thousand, on land and on the seas.
Well, we done told you, our God's done warned you,
Jesus coming soon.
We done told you, our God's done warned you,
Jesus coming soon. 
Great disease was mighty and the people were sick everywhere.
It was an epidemic, it floated through the air.
Well, we done told you, our God's done warned you,
Jesus coming soon.
We done told you, our God's done warned you,
Jesus coming soon. 
The doctors they got troubled and they didn't know what to do.
They gathered themselves together, they called it the Spanishin flu.
Well, we done told you, our God's done warned you,
Jesus coming soon.
We done told you, our God's done warned you,
Jesus coming soon.
 

Seinna í sama lagi koma svo línur sem einhverjum gætu þótt kunnuglegar í dag:
Well, the nobles said to the people, "You better close your public schools."
"Until the events of death has ending, you better close your churches too."
We done told you, our God's done warned you,
Jesus coming soon.
Fyrir þá sem eru hrifnari af Cowboy Junkies er líka til fín útgáfa af þessu lagi með þeim – af plötu þar sem ýmsir samtímamenn okkar votta Blind Willie virðingu sína, þar á meðal Tom Waits, Sinead O'Connor og Lucinda Williams. Blind Willie er raunar tíðrætt um spænsku veikina – og syngur líka um hana í uppáhalds laginu mínu með honum, God Don't Never Change („God in the time of sickness / god and a doctor too / in the time of influenza / he truly was a god to you“). 

Besta inflúensulagið er hins vegar sungið af annars óþekktri söngkonu sem heitir Essie Jenkins. 1919 Influenza Blues. Ég hef verið að reyna að grafast eitthvað fyrir um hver hún var og komist litlu nærri (ég hef meira að segja lagt inn fyrirspurn á twitter til Ted Gioia, sem er einhver ofsalegasti blúsfræðingur samtímans). Lagið er að hluta til eftir hana sjálfa og tekið upp 1962 og gefið út af Arhoolie útgáfunni árið 1965. Essie er sjálf sennilega fædd 1931 og dó þá í ár – 25. febrúar, rétt í upphafi kórónafaraldursins. En þetta eru getgátur. 

Lagið er, einsog mörg blúslög, byggt á eldra lagi sem heitir Memphis Flu frá 1930 og er eftir mann sem kallast Elder David Curry. Lag Currys fjallar hins vegar um seinni flensufaraldur sem gekk yfir árið 1929 – og er nánast samhljóma laginu Influenza sem Ace Johnson söng fyrir þjóðfræðinginn John Lomax 1939. Þegar Essie snýr upp á það fjallar það hins vegar um spænsku veikina 1919. 


It was nineteen hundred and nineteen; 
Men and women were dying, 
With the stuff that the doctor called the flu. 
People were dying everywhere, 
Death was creepin' all through the air, 
And the groans of the rich sure was sad.  

Það er eitt og annað áhugavert að gerast í þessum texta. Eitt af því sem skilur harm flensunnar frá öðrum harmi og dauða á þessari gullöld harmsins er að flensan gerir ekki mannamun – einsog Bjarni Ben benti á erum við öll í sama bátnum (samt ekki, ekki varðandi aðrar afleiðingar – og ég veit ekki hvernig það var þarna 1919 en kórónaveiran leggst harðar og verr á fátækt fólk og jaðrað, af ýmsum ástæðum). Þórðargleðin leynir sér ekki þegar Essie syngur um kvein hinna ríku – loksins mega helvítin þjást með okkur hinum. 

Well it was God's almighty plan, 
He was judging this old land, 
North and south, east and west, 
It can be seen, 
He killed the rich, killed the poor, 
And he's gonna kill some more, 
If you don't turn away from the shame.

En í grunninn er auðvitað leiðinlegt að við séum að drepast svona fyrir tímann og eina leiðin til þess að komast hjá því er að við snúum baki við skammarlegum lífsháttum okkar. Hér bergmálar líka orðræða umhverfisverndarsinna og grænkera frá því í vor – að við getum sjálfum okkur um kennt að éta kjöt (kórónaveiran kemur úr kjötvinnslu) og með henni létti þunganum af móður jörð (við fljúgum minna, keyrum minna o.s.frv.). Allt slæmt sem kemur fyrir okkur er í grunninn afleiðing af gjörðum okkar – við erum sjálf hið vonda í heiminum. 

Þegar ég kópípeistaði textann tók ég eftir að sá sem skrifaði hann upp hafði skrifað „it killed the rich“ o.s.frv. frekar en „he killed the rich“. Það fannst mér áhugaverð misheyrn. Því hjá Essie fer ekkert á mili mála að það er ekki flensan sem drepur okkur – það er Drottinn sem drepur okkur. Flensur don't kill people, God kill people, einsog segir í orðskviðunum. 

Down in Memphis, Tennessee, 
The doctor said it soon would be, 
In a few days influenza would be controlled.
Doctor sure man he got had, 
Sent the doctors all home to bed, 
And the nurses all broke out with the same. 

Það er alveg sama hvað læknarnir rembast. Loforð um sóttvarnir og bóluefni eru til einskis. Dauðinn kemur og sækir hina feigu.  

Influenza is the kind of disease, 
Makes you weak down to your knees, 
Carries a fever everybody surely dreads, 
Packs a pain in every bone, 
In a few days, you are gone. 
To that hole in the ground called your grave.
Og þannig er það nú bara. 

AUKAEFNI



Influenza með Ace Johnson.

Það hafa oft komið upp dellur í blúsnum – í kjölfar TB Blues Victory Spivey hér að ofan komu ótal margir berklablúsar. Það eru nú nokkur ár á milli þessara lungnabólgublúsa Blind Lemons, Big Bill Broonsy og Lightnin' Hopkins, en það hlýtur samt að mega kalla þetta dellu. 





Og auðvitað verður enginn veikur einsog Skip James. 



Bukka White er ekkert lasinn – hann þarf bara að fá smá ást. 


Hér eru Cowboy Junkies með Blind Willie Johnson lagið sem var hér að ofan líka. 


Memphis Minnie er bókstaflega við dauðans dyr. 


Nú erum við kominn til samtímans. Ágætis kassagítarsblús frá Lane Steinberg. 


Þetta er einhvers konar indí-blús. 


Jonas Alaska er norskur „folk“ tónlistarmaður. Maður þarf ekki að horfa mjög lengi á þetta til að sjá hver hans helsta fyrirmynd er. 


Að lokum er það auðvitað minn maður. Ginsberg er veikur og nær honum ekki upp – sennilega er það slæma karmað eftir að hafa riðið öllum sætu strákunum. 

No comments:

Post a Comment