Friday, May 8, 2020

109 ára afmælið

Hann á afmæli í dag. Goðsagnakenndasta blúshetjan. Robert Johnson. 109 ára. Eiginlega allt við sögu hans – goðgerðina, markaðssetninguna – segir manni að það ætti ekki að vera neitt varið í þetta. Þetta ber öll einkennis þess að vera viralþvæla – búið að ofselja hann.

Númer eitt er þetta með að hann hafi selt sál sína andskotanum á krossgötunum fyrir hæfileikana. Sagan segir að Robert hafi verið skítsæmilegur munnhörpuleikari en afskaplega vondur gítarleikari en hafi stundum fengið að troða sér inn hjá öðrum þegar þeir voru í pásu. Son House sagði að þetta hafi oft endað með ósköpum – fólk hafi beinlínis komið og beðið sig um að hætta í pásu og koma þessum hæfileikalitla partítrúbador af sviðinu. Svo lét Robert sig bara hverfa í hálft ár – og það er þá sem hann á að hafa selt sálina en allt bendir samt til þess að hann hafi haldið sig nálægt heimabæ sínum, Hazlehurst, og verið í læri hjá gítarleikara sem hét Ike Zimmerman (og er ekki til á upptöku). Þegar hann kom aftur til Memphis fékk hann enn á ný að stinga sér milli setta hjá Son House – sem hló að honum og stríddi honum áður en hann fór á sviðið. En þá var allt breytt. Það er ekki bara að Robert spili af nánast yfirnáttúrulegri ástríðu – sándið í röddinni og samspil hennar við gítarleikinn er engu líkt – heldur býr hann yfir ógurlegri tækni og hefur sameinað ólíka stíla frá mönnum á borð við Blind Lemon, Big Bill, Son House, Blind Willie Johnson, Charley Patton og fleiri. Frægt er að þegar Keith Richards heyrði hann spila fyrst hélt hann að þetta væru margir gítarleikarar. Þegar hann svo deyr – sennilega eftir eitrun vegna þess að hann var að dilla í annars manns konu – segir sagan að hann hafi skriðið um æpandi og gólandi af sársauka í marga daga. Var þá sagt að Legba/kölski væri kominn að heimta sálina sína.



Svipuð saga var sögð um marga aðra og auðvitað er þetta Fást-goðsögnin – og þess utan beint upp úr biblíunni: allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig. Oftast var þessi saga sögð um Tommy Johnson og margir sem telja að í ljósi dauðdaga Roberts hafi sagan flust yfir á hann. Þegar Son House segir söguna um það hvernig hann hafi horfið og birst aftur – hæfileikalaus fyrir og snillingur á eftir – eru liðin meira en þrjátíu ár og Son, einsog margir samferðamanna hans, orðinn ansi sleipur í að selja svona sögur. Það er langt liðið á blúsendurreisnina – þetta er 1965 – og erfitt að slökkva þorsta hvítra blúsnörda fyrir goðsögnum um blúsmenn í deltunni og djöfullinn einhvern veginn alltaf með í dæminu. Ég held að Son hafi verið sagnamaður – einsog Big Bill og fleiri – og góður sagnamaður lætur hvorki sannleikann né minnið standa í vegi fyrir góðri sögu. Þegar bútarnir raða sér upp í dauðafæri lætur maður bara vaða.

Um kölska má segja það tvennt að annars vegar var hann lifandi hluti af trú margra á þessum tíma – sú trú var raunveruleg og áþreifanleg – og hins vegar að hann var sannarlega talinn búa í blústónlistinni. Big Bill Broonzy samdi við mömmu sína um að taka aldrei gítarinn með sér inn til hennar af því að djöfullinn bjó í honum. Son House barðist alla tíð við við djöfulinn – drekkti honum í áfengi milli þess sem hann skildi við blúsinn og predikaði guðsorð. Og meira að segja þegar hann spilaði blúsinn er einsog hann skammist sín fyrir það – hann sé að þjóna andskotanum – og ég held það sé engin ástæða til að ætla að sú skömm sé einhver látalæti þótt hún hafi sennilega líka verið hluti af sjarmanum.

Annað sem ýtir undir mýtuna um Robert Johnson er hvernig „við“ rétt misstum af honum. Eftir að hann sneri til baka frá Hazlehurst tók hann upp fullt af lögum í tveimur sessjónum, 1936 og 1937, og þar af náði eitt lag, Terraplane Blues, nokkru máli. Terraplane er hálfgerður hokumblús – dónablús. Terraplane var bíltegund og verður Robert að myndlíkingu fyrir kynlíf – og raunar getuleysi. Það er í sjálfu sér rannsóknarefni hversu margir af dónablúsum Roberts fjalla um getuleysi – Dead Shrimp Blues er allavega líka á svipuðum slóðum, sem og Phonograph Blues (þar sem ljóðmælandi er reyndar hugsanlega bara svona útriðinn – þau ríða og ríða og svo ryðgar bara nálin hans). Og rannsóknarefni hvers vegna ég sé aldrei neinn tala um þetta.

I'd said I'll flash your lights, mama, and the horn won't even blow

I even flash my lights, mama, and this horn won't even blow

I got a short in this connection, way way down below

Ég held ég fari með rétt mál að langflestir af þessum hokumblúsum séu gorgeirs- frekar en getuleysisblúsar (en hef enn ekki skoðað það sérstaklega). Ég man allavega í svipinn ekki eftir neinum öðrum getuleysisblúsum.

Önnur lög Roberts vöktu enga sérstaka athygli. Tónlist hans berst samt til eyrna Johns Hammond, sem vann hjá Colombia Records og var allra handa músíkpródúsent, sem um sína tíð uppgötvaði óhemju af frægum tónlistarmönnum – frá Count Basie til Bruce Springsteen. Og ber ekki að rugla saman við tónlistarmann sem heitir sama nafni. John Hammond var að skipuleggja tónleika í Carnegie Hall – From Spirituals to Swing – sem yrðu helgaðir tónlist blökkumanna og áttu að brjóta niður hinn ósýnilega múr milli tónlistar svartra og hvítra. Þarna yrði – í fyrsta sinn – tónlist blökkumanna „veitt virðing“ og hún leikin í alvöru tónleikasal fyrir sitjandi og hlustandi gesti. Hvíta gesti mestmegnis. Þetta er auðvitað að einhverju leyti misskilningur. Tónlistin var ekki í ónáttúrulegu umhverfi þótt hún væri partítónlist og hún er ekki meira alvöru fyrir að vera í Carnegie Hall, fyrir að vera kanoníseruð. Hins vegar má alveg til sanns vegar færa að þessi leikur Hammonds hafi orðið til þess að varpa meira ljósi á „listrænni“ blústónlistarmenn. Það er kannski meira gaman að dansa við Leroy Carr en það er meira gaman að hlusta á Robert Johnson.

Hvað sem því líður fer Hammond á stúfana eftir Robert Johnson, sem átti að sögn að vera aðalatriðið, en kemur að tómum kofanum (svo til bókstaflega) því hann er þá nýdauður. Big Bill Broonzy var fenginn til að fylla í skarðið en svo fannst Hammond það ekki nóg svo hann tók sig bara til og stillti upp plötuspilara á sviðinu og lék nokkur lög eftir Robert Johnson af plötu fyrir stappfullt Carnegie Hall. Það má segja að frá þessari stundu hafi Robert Johnson verið merkastur allra blúsmanna – en fyrst og fremst í munnmælum því plöturnar voru ekki til víða og það er ekki fyrren 1961, þegar blúsendurreisnin er í hámæli, að hann er endurútgefin og öðlast almennar vinsældir – tryllir ekki ómerkari menn en Eric Clapton og Keith Richards.

Þegar sagan og mýtan er orðin svona mikil er hætt við að maður fari að gæta sín á að kokgleypa þetta ekki bara. Ég varð aðeins var við það á dögunum til dæmis að menn héldu því fram í kjölfar dauða Yahya Hassan að hann væri nú kannski ekki svona merkilegur heldur væri hann bara eitthvað viral-rugl – svona einsog reiðilegt komment á Jyllands-Posten sem allir rífast síðan um á Facebook. En það má segja um Hassan einsog um Robert Johnson að verkin tala bara fyrir sig sjálf. Þetta er einfaldlega ótrúleg tónlist (einsog ljóð Hassans eru engu lík).



***

BÓNUSEFNI

Bestu Robert Johnson koverin. Ég sleppi þeim allra frægustu – Love in Vain með Stones, Crossroads með Cream, Travellin Riverside með Zeppelin, They're Red Hot með Red Hot Chili Peppers, Sweet Home Chicago með hverjum sem er – sumt af því er mjög fínt en það er bara óþarfi að auglýsa tónlist sem allir þekkja. Hér eru sömu lög sem Spotify-playlisti fyrir þá sem vilja bara láta þau renna – en það eru ekki allt alveg sömu útgáfur. Ég mæli sérstaklega með Ike & Tinu hér að neðan – útgáfan á Spotify er flott en þessi á YouTube er sjóðheit. En Dylan lagið er bara á Spotify – maður þarf eitthvað premium dæmi til að hlusta á það á YouTube.




















 









No comments:

Post a Comment