Saturday, July 4, 2020

Úlfurinn og ýlfrið

Ég er að klára ævisögu Howlin' Wolf. Moanin' at Midnight eftir James Segrest og Mark Hoffman. Ég ætla sosum ekki að hafa um hana mörg orð. Bókin er samt fín og þetta er svolítið svakaleg ævi. Wolf er þarna alveg frá fyrstu dögum deltablússins en tekur ekkert upp fyrren hann er að verða fertugur. Maður tengir hann ekki alveg við lærimeistara sinn, Charley Patton, eða meðreiðarsveina sína, kynslóðina sem hann tilheyrir aldri samkvæmt – hann er árinu eldri en Robert Johnson. Muddy er nokkrum árum yngri en fer líka á flug fyrr – tekur upp alveg áratug á undan Wolf. Fyrir mörgum nær blússagan ekki heldur lengra en sirka að dánardægri hans 1976.

Chester Burnett er einkabarn móður sinnar, sem er skilin við kallinn þegar hann kemur í heiminn. Hún hendir honum svo að heiman þegar hann er tíu ára – 1920 – og hann þarf sjálfur að koma sér í fóstur hjá ofbeldisfullum frænda sínum. Það er ekki alveg víst hvað gerðist á móðurheimilinu – hann gaf á því margar skýringar sjálfur. Ein var sú að hún hefði einfaldlega fengið nóg af honum. Önnur að hann hafi verið farinn að dútla við gítarinn og móðir hans, sem var afar trúuð, hafi ekki viljað kóa með neinum blús í sínum húsum. Hún kemur aftur inn í líf hans síðar en neitar alla tíð að taka við nokkru fé af honum – Wolf er einn af fáum svörtum blúsurum sem hélst vel á peningum, enginn þeirra þénaði vel, en Wolf var skipulagður og ábyrgur, og kvaðst á eldri árum lifa á vöxtunum á fé sínu. Ég man ekki hvort hann er svo 15 eða 16 þegar hann stingur af frá frændanum og fer bara „ridin' the blinds“ – að húkka sér far með lestum og spila á götuhornum. Þá er hann að reyna að jóðla einsog Jimmy Rogers og Tommy Johnson en það kemur ekkert út nema þetta sorglega ýlfur sem verður svo kennimerki hans – og af því fær hann nafnið. Á þessum árum finnur hann líka pabba sinn aftur, sem virðist hafa rekið umtalsvert kærleiksríkara heimili en móðurfjölskyldan og ber Wolf bæði honum og stjúpu sinni þar afar vel söguna, þótt hann hafi aldrei verið þar nema fáein misseri í senn þegar lengst lét.



Wolf lærir af Charley Patton – ekki bara að spila og syngja heldur líka sviðslætin, þeir voru báðir annálaðir fyrir dýrslegt brjálæði á sviði. Ég veit ekki með Patton en Wolf var mjög annt um að vera samt prófessjónal og a.m.k. þegar hann var kominn með band drakk hann helst ekkert fyrren eftir sjóið – og var þó talsverður drykkjubolti. Fljótlega eftir að hann kemur svo til Chicago og fer að setja saman band lendir hann í erjum við Muddy Waters og stóðu þær alla ævi – en í bland við vinskap, Wolf t.d. hjálpar Muddy að borga fyrir jarðarför eiginkonu sinnar á áttunda áratugnum (Muddy hélst ekki á peningum – en var frægur fyrir gjafmildi og hjálpsemi við aðra tónlistarmenn). Þeir gátu líka boðið hvor öðrum í mat, milli þess sem þeir hótuðu að skera hinn á háls. Sömu tónlistarmennirnir flakka á milli þeirra – þegar einn er rekinn hjá Wolf fer hann til Muddy og öfugt. En sennilega byrjar þetta þegar Wolf mætir svo til ókunnugur til að hita upp fyrir Muddy á klúbb þar sem Muddy átti fast gigg og tekst að ná fasta gigginu undan honum. Einsog svo margir bjó Wolf líka í kjallaranum í húsi Muddys á tímabili – sem Muddy segist hafa gefið honum frítt en Wolf sagðist hafa verið rukkaður fyrir hverja nótt og hvern matarbita.

Wolf og BB King komast líka í vinfengi sem virðist aldrei hafa verið mjög náið en alltaf traust og BB kemur reglulega til hans í stúdíó eða baksviðs á tónleikum. BB og Wolf áttu prófessjónalismann sameiginlegan, sem og óþol fyrir óreglunni – eða allavega því að óreglan hefði áhrif á sjóið. Sem hún gerði samt. Einn mikilvægasti samstarfsmaður Wolf í gegnum árin, gítarleikarinn Hubert Sumlin – sem var uppáhalds gítarleikari Jimi Hendrix – var fullkomin andstæða við Wolf. Stjórnlaust kaos – alltaf fullur og alltaf í rugli – en að sama skapi gríðarlega uppfinningaríkur í augnablikinu. Hann gaf kontróleraðri einshljómatónlist Wolfs ófyrirsjáanleikann sem hana vantaði. En þeir elduðu grátt silfur saman alla tíð – slógust stundum harkalega, sem getur varla hafa verið neitt grín því Wolf var á hæð við mig en svona tvöfalt þyngri án þess að vera beinlínis feitur. Hann var bara ofsalega stór.



Flestir bera Wolf mjög vel söguna og virðast af bókinni að dæma vera að bera til baka orðspor sem hann hafði fyrir að vera kvikindi, harður í horn að taka og jafnvel ofbeldisfullur við hljómsveitarmeðlimi. Þeir segja þá að hann hafi þvert á móti verið ljúfur, sanngjarn og nokkuð gert úr því hvað hann hafi verið barngóður. Hann var líka mjög tipp topp í öllum starfsmannamálum og var t.d. einn allra fyrsti hljómsveitarstjórinn til að borga öll launatengd gjöld af tekjum hljómsveitar sinnar, sem þýddi að ef hann rak þig þá áttirðu rétt á atvinnuleysisbótum – sem var alger nýlunda í þessum heimi. En á móti kom að launin voru lægri þegar búið var að taka af þeim gjöldin. Þá var hann eigandi og yfirmaður síns fyrirtækis og sýndi mönnum enga gjafmildi þegar þeir voru búnir að spreða peningunum sínum í vitleysu – þótt hann stæði gjarna með þeim sem væru í nauð.

Ein skemmtileg saga í bókinni segir frá því að þegar sveitin kom heim eftir langan túr hafi tónlistarmennirnir allir farið heim til sinna kvenna peningalausir og borið því við að Wolf hafi ekki greitt sér einsog samið hafði verið um. Wolf frétti þetta og kallaði til fund með tónlistarmönnunum og konum þeirra – sem var ekki minni nýlunda, að konurnar kæmu þessu eitthvað við – og fór bara yfir í hvað peningarnir fóru. Benti á einn og sagði hann hafa drukkið sig í svefn tvisvar á sólarhring alla ferðina, annar hefði lagt allt undir í póker og þriðji legið með vændiskonum í hverju einasta krummaskuði. Og svo framvegis. Hann hefði ekki snuðað neinn heldur væru eiginmenn þeirra staðfestulausir aumingjar sem hefðu sóað tekjum fjölskyldunnar í eigin óreglu.



Svörtu blúsararnir sem gera samning við Chess á sínum tíma semja yfirleitt um fasta summu á hverja selda plötu og þótti ágætt – þeir urðu flottir menn, komust í nokkrar álnir, eignuðust bíla og hús og gátu leyft sér ýmislegt, ef platan gekk vel. Hins vegar var þetta mikil þrælavinna – langir túrar við vondar aðstæður. Þeir djöflast um allar koppagrundir á stórum fólksbíl – með drykkfellt bandið í aftursætinu og hljóðfærin á þakinu. Einu sinni misstu þeir öll hljóðfærin í einu lagi út í Mississippi ána eftir annars lítilvægt bílslys og þá þurfti Wolf að leggja út fyrir alveg nýju setti í næsta bæ. Þegar blúsrokkstjörnurnar birtast svo á sjöunda áratugnum og fara að taka þessi lög og spila svipaða músík – fara gömlu blúsararnir að átta sig á því að þeir hefðu sennilega samið af sér. Chessbræðrum til málsbóta þá höfðu þeir ekki endilega þénað nein ósköp á þessu sjálfir á þessum áratugum sem þeir höfðu verið að gefa út blúsplötur. Það var mikið ástríðustarf með einhverjum gróða en ekki á neinu Led Zeppelin leveli. Hins vegar eru það fyrst og fremst þeir og fyrirtækið sem græða á því þegar lögin verða vinsæl meðal hvíts almennings (sem er miklu stærri markaður – og plötusala bókstaflega að springa) – þeir fara með höfundaréttinn en hafa greitt fyrir útgefnar upptökur. Þeir eru líka með einhverjar hundakúnstir á þessum árum og reyna að halda eins miklum pening í fyrirtækinu einsog þeir geta. Hvítu blúsrokkararnir eru þess utan með hagstæðari samninga frá upphafi – hlutdeild í gróða, einfaldlega, og meiri yfirráð yfir verkum sínum. Sennilega spilar kynþáttur stærsta rullu þar en þó má ekki gera lítið úr því að samningar blúsarana eru einfaldlega 15, 20 og 30 ára gamlir og miða við allt annan heim. Útgáfusaga fyrri hluta 20. aldar er viðstöðulaus snuðun og þarf ekki einu sinni að leita í tónlistina til að sjá það.

Wolf lánaðist aldrei að fá sitt en ekkja hans fékk eitthvað – það var einhver baktjaldasamningur og það veit enginn hversu mikið það var. Chess hélt útgáfuréttinum og svo gleypti Universal Chess og þangað fer peningurinn í dag – hvort sem ég hlusta á plöturnar á Spotify eða kaupi þær á vinyl.

---

Auðvitað urðu þetta mörg orð. Voðalega er það undarlegt hvað maður man af því sem maður les, þegar maður heldur að maður muni fæst.

No comments:

Post a Comment