Monday, June 22, 2020

Blúsvakningin

Ég veit ekki hvað maður gerir með hina svonefndu blues revivalista. Ég veit ekki einu sinni hvernig er best að íslenska hugtakið. Blúsvakning – jújú – en blúsvökumenn? Er það gjaldgengt? Of karllægt – þetta voru held ég 99,99% karlar. Eða strákar, eiginlega. Látum það allavega heita gjaldgengt í þessari færslu. Vakning og vaka er ekki alveg sami hluturinn en blúsvakningamenn er bara ekki jafn hljómfagurt. Hvað um það! Það þarf ekki allt að vera svona flókið! Áfram með smjörið!

Það er ekki alltaf alveg ljóst hvað fólk á við þegar það talar um blúsvakninguna. Maður gæti átt við fyrstu hvítu blúsarana – Bob Dylan, John Mayall, Clapton, Led Zeppelin og Stones. Maður gæti átt við starf þjóðfræðinga á borð við feðgana John og Alan Lomax – sjálfa dokumenteringuna – eða tónlistarmógúla einsog John Hammond. Og maður gæti verið – einsog ég, og sennilega flestir sem nota hugtakið – að tala um blúsnördin sem spruttu upp beggja vegna Atlantsála eftir stríð og byggðu með sér fámennt en kraftmikið samfélag hvers blómatími er sennilega svona 1959-1965, en varð til í lok seinni heimsstyrjaldar og stendur enn í dag. Kjarninn í þessu samfélagi á gullöld þess er mjög fámennur – örfáir tugir dedikeraðra þráhyggjusjúklinga – og eina ástæðan fyrir því að nokkur skriður kemst á þennan köntríblús er samsláttur þeirra við aðra og stærri hópa.

Á fyrra skeiði sínu, fyrir innreið hippismans, er blúsvakningin einsog hliðarhobbí við djassplötusöfnun – margir blúsvökumanna segja frá því í viðtalsbókinni Pioneers of the Blues Revival eftir Steven Cushing að þeir hafi fengið að hirða blúsplötur úr söfnum djassgeggjara, sem stóð meira og minna á sama um þessar plötur en enduðu stundum með þær í höndunum þegar þeir voru að kaupa söfn í heilu lagi. Ég veit ekki hvort þeir gerðu einsog blúsvökumenn sem keyrðu stundum um í hverfum svartra og kölluðu út um gluggann að þeir vildu kaupa plötur – eða bönkuðu upp á og spurðu hvort það væru til nokkrar gamlar plötur. En það var í öllu falli talsvert meiri vinna að safna plötum á þessum tíma en það er í dag.


Á seinna skeiðinu fara þeir svo í samflot með folk revival hreyfingunni. Þá eru þeir ekki lengur bara að safna plötum heldur farnir að safna lifandi fólki – leita uppi svarta blústónlistarmenn og koma þeim inn á folk-hátíðirnar og hippa/bítnikkakaffihúsin. Stór hluti af starfinu fram til þess tíma er fræðilegt grúsk – bæði að safna plötum en líka að grafa upp skjöl og myndir og taka viðtöl. Þá er mikið lagt upp úr því að gera almennilegar útgáfuskrár – komast að því hvað hafði verið tekið upp, hverjir léku í hvaða lögum og hvað væri til og hvað væri týnt. En þarna snemma á sjöunda áratugnum – ég tala um hippa en þetta er eiginlega forhippismi – er farið að gera nýjar upptökur, nýja tónleika og tónlistin og tónlistarmennirnir eru ekki lengur bara einhver forsöguleg abstraksjón heldur lifandi. Það er svo skrítið að þeir nefna það margir að hafa skyndilega bara „fattað“ að tónlistarmennirnir gætu verið á lífi. Einhvern veginn hafði það varla hvarflað að þeim af viti – en þetta eru bara þrjátíu ár. Ef við berum það saman við daginn í dag væri kannski hægt að segja að jújú, Kurt Cobain sé dáinn og Chris Cornell líka, en Dave Grohl er enn að túra heiminn og ég held að Zach de La Rocha sé enn á lífi, þótt maður heyri sjaldan frá honum. Þeir eru að vísu flestir aðeins eldri – Son House og Skip James eru báðir 62 þegar þeir finnast (meðalgruggrokkarinn er fimmtugur 2020) og lífaldur skemmri, ekki síst fyrir svarta menn í deltunni.

Ein ástæða þess að ég veit ekki hvað ég á að gera við blúsvökumennina er að allt þeirra ótrúlega mikilvæga starf orkar svo mikið tvímælis – þeir eru stundum mjög rænulausir í ákafa sínum og ástríðu. Á aðra höndina björguðu þeir ótrúlegum verðmætum frá gleymsku án þess að græða mikið á því sjálfir, ef nördastig eru frátalin. Á hina höndina eru þeir hvítir gestir í landi þessarar svörtu alþýðutónlistar og leggja á hana sitt eigið gildismat sem stýrir fagurfræði blússins æ síðan. Ef þeirra hefði ekki notið við væru sennilega flestar upptökur manna einsog Son House og Skip James og Mississippi John Hurt týndar og tröllum gefnar og enginn þeirra hefði öðlast nýjan feril á sjöunda áratugnum – og við ættum þar með engar nýrri upptökur af verkum þeirra. Fyrir blúsáhugamann er það einsog að týna hómerskviðum eða píramídunum. En ef þau hefðu glatast væri áherslan kannski bara meiri á Gilgamesh og Mayahofin.



Það er auðvitað ómögulegt að segja hvert landslagið hefði verið án þessarar tónlistar. Þegar Stones drógu Howlin' Wolf með sér í unglingaþáttinn Shindig! í Bandaríkjunum – þeir gerðu það að skilyrði fyrir sínu giggi að annað hvort Muddy eða Howlin' Wolf fengi að fljóta með – var nýbúið að finna Son House í Rochester, og einhvern veginn var honum smyglað inn í stúdíóið til að hitta Howlin' Wolf. Brian Jones missti kúlið og féll á hnén við fótskör Wolfs; og þegar Son House birtist – sem enginn hafði séð í meira en tvo áratugi – missti Wolf kúlið og féll á hnén við fótskör House. Wolf varð reyndar síðar mjög fúll út í House að hafa leyft sér að breytast í byttu – það er klippa á YouTube þar sem Wolf les sínum gamla lærimeistara lexíuna. Brian Jones hafði óljósa hugmynd um tilvist House en þekkti tónlistina ekki að ráði – hann fékk hana í gegnum Wolf. Svo er spurning hvort það sé nóg. Dylan sagði einhvern tíma að munurinn á sér og Donovan væri sá að Donovan hefði aldrei orðið fyrir áhrifum af neinum öðrum en Dylan – „he only got me, he never got what I got“ og átti þar við tónlistarsöguna þar á undan, að Dylan hefði mótast af fleiri kynslóðum tónlistarmanna, en Donovan bara byrjað á top of the folk-pops 1963.



Hugsanlega væru hugmyndir okkar um uppruna blússins litaðri af mönnum einsog Leroy Carr, Big Bill og Josh White, ef blúsvökumanna hefði ekki notið við – en það er tónlist sem er erfiðara að sjá í verkum Muddys og Wolfs. Þar skortir þráð. Wolf fær sitt frá Charley Patton (og við hans hlið var alltaf Son House) og Stones fá sitt frá Wolf – og við myndum bara þekkja Son House af orðsporinu. Carr, Bill og White voru allt vinsælir tónlistarmenn og höfðu sennilega meiri áhrif í dægurlagaheiminum og á folk-tónlistarmenn – þetta segi ég þeim ekki til hnjóðs, ég elska tónlist þeirra allra, en þetta er hreyfing í aðra átt. White var beinlínis einn af allra vinsælustu tónlistarmönnum Bandaríkjanna á fyrri hluta aldarinnar og að hann skuli jafn gleymdur og raun ber vitni er sennilega bæði vegna McCarthyismans sem bannfærði hann fyrir stjórnmálaskoðanir hans og svo blúsvökumennina sem höfðu ekki áhuga á þessari fágun og færðu fókusinn yfir á „listrænni“ og/eða harðari blúsara.





Þegar maður vill gera lítið úr blúsvökumönnum lætur maður einsog þeir hafi verið miklir forréttindapésar sem hafi haft svarta tónlistarmenn að féþúfu. Fyrir því er hægt að týna til ýmis rök en það gengur eiginlega ekki upp nema maður sé góður í kirsuberjatínslu – því þótt maður geti til dæmis bent á að sennilega hafi umboðsmenn Mississippi John Hurt haft hann að féþúfu var það undantekning hjá þeim – og regla annars í tónlistarbransanum; og þótt maður geti bent á að einhverjir blúsvökumannanna hafi verið úr efri millistétt þá var það líka undantekning. Flestir þeirra virðast hafa notið liftarhafts síns (og kyns), og þótt það sé sannarlega ekki ekki-neitt, nutu þeir ekki endilega annarra forréttinda í lífinu og blúsáhuginn virðist hafa kostað þá miklu, miklu meira en þeir græddu á honum.

Þeir ferðuðust ekki bara þvert yfir Bandaríkin til að finna einhverja blúsmenn til að tala við – stundum komu þeir alla leiðina yfir hafið frá Bretlandi og eyddu í það nærri aleigunni. Og áður en það var auðvelt að fjölfalda upptökur fóru enskir blúsvökumenn til Parísar – aftur á skóþvengsfjárlögum – af því það fréttist að þar byggi maður sem ætti tveggja-laga Charley Patton plötu sem þeir höfðu aldrei heyrt. Þeir sem höfðu það skást eru sennilega þeir sem fóru menntaveginn með þessu og gerðust einhvers konar akademíkerar (ekki í neinum blúsfræðum vel að merkja, það var ekki mikið í boði í þeim efnum). Alla jafna eru þetta líka mjög ungir menn, rétt skriðnir yfir tvítugt – og alveg sama hvort maður er þá að spá í helstu leikendum 1949 eða 1961. Þeir heitustu halda áfram alla ævi en það kvarnast hratt úr hópunum eftir því sem þeir eldast og nýir taka við. Þeir sem halda áfram virðast líka margir hafa hrist af sér fjölskyldu eftir fjölskyldu í þráhyggjunni – ýmist fyrir að eyða öllum tekjum sínum í plötur eða fyrir að leiðast út í almenna óreglu (með jafnöldrum úr vakningunni og/eða eldri blúsurum).

Flestir þeirra sem taka þátt í þessu eru sjálfir tónlistarmenn í þeim skilningi að þeir spila á hljóðfæri, en fáir þeirra höfðu það nokkurn tíma að atvinnu. Einhverjir þeirra léku svo alls ekki blús og vildu ekki gera það – litu einfaldlega á blúsinn sem alþýðutónlist svartra og ekki viðeigandi að þeir væru að spila hann sjálfir. Þrjár meiriháttar undantekningar eru á þessu – Al Wilson, John Fahey og Henry Vestine. Al Wilson fór ekki með að finna Son House en það var bara vegna þess að hann komst ekki og hann var lykilmaður í að hjálpa Son House að komast aftur í form og hýsti gjarna bæði Son House og Skip James þegar þeir voru á ferðinni. Fahey fann Bukka White (með því að senda póstkort til „Bukka White / Old Blues Singer / Aberdeen Missisippi / c/o General Delivery“ – eftir að hafa heyrt Aberdeen Mississippi Blues). Fahey og Vestine fundu Skip James. Fahey átti farsælan sólóferil en Vestine og Wilson stofnuðu síðar Canned Heat (sem er nefnd eftir gömlu Tommy Johnson lagi).



Hér spilar Canned Heat á Woodstock. Henry Vestine hætti í hljómsveitinni vikunni áður. Lagið virðist vera einhvers konar útgáfa af I Believe I'll Make A Change sem bæði Leroy Carr og Josh White gerðu frægt en var samið af bræðrunum Pinetop og Lindberg.

Ég vil svo skilja þetta að mestu frá spurningunni um frumleika og þjófnað í blúsnum – þótt Canned Heat menn hafi verið í hvorutveggja. Einsog blúsvakning nördanna er sá heimur félagslega og pólitískt problematískur – og einsog með hann finnst mér að langflestu leyti ósanngjarnt að fárast bara yfir honum fyrir það, en af öðrum ástæðum. Veröldin er margslungin og maður vildi oft að hlutirnir gerðust ekki nákvæmlega einsog þeir gerðust – ekkert svo með öllu gott að ekki boði líka einhverja helvítis vitleysu. Afstaða mín til blúsvökumanna – dómsorð þessarar færslu – er að þeir hafi unnið stórfenglegt og óeigingjarnt starf og þótt mikilvægt sé að skilja annmarka þess og vankanta sé fullkomið virðingarleysi að gera lítið úr því.

No comments:

Post a Comment